mánudagur, febrúar 12, 2007

Þegar ég æfði fótbolta með KR

Ég get ekki neitað því að þegar ég villtist inn á blogg eins af þekktari bloggurum landsins og uppgötvaði að ég var að lesa um mig þá fór um mig nett furðutilfinning, varð reyndar að kjánahrolli þegar ég uppgötvaði hvað hann var að skrifa um.

Þessi drengur er reyndar gamall bekkjarfélagi úr Melaskólanum og verður að teljast þokkalega þekktur í okkar litla samfélagi fyrir hin ýmsu verk. Yfirlýstur herstöðvaandstæðingur og varð þekktur fyrir vasklega framgöngu sína með skólaliði MR í Gettu betur og starfaði síðan hinumegin við borðið sem spurningahöfundur og dómari í sömu keppni. Mætti kannski kalla hann "celeb", veit samt ekki, hef aldrei fundist það jákvætt orð.

Eitt af því sem einkennir þennan dreng er að hann er yfirlýstur Frammari og hefur alltaf verið. Fjallar hann um í þessum pistli sínum (sem lesa má hér) um þá skömm sína þegar hann fór að æfa knattspyrnu með KR ásamt nokkrum drengjum úr C bekknum í Melaskóla fyrir tilstuðlan eins þeirra, mín nánar tiltekið. Man ég ekki alveg af hverju mér datt þetta í hug en eitthvað tengist þetta þeirri staðreynd að mér fannst alveg ómögulegt að hafa ekki farið að æfa fótbolta. Til að leiðrétta allan misskilning þá hef ég aldrei haldið með KR, því er fjarri lagi. Villi bróðir æfði körfubolta með Val og það hjálpaði mér að sjá ljósið. Hafði meðal annars viðrar þá hugmynd við mömmu að ég fengi að fara á æfingu hjá Val við frekar daprar undirtektir svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Hugmyndin að fara á æfingu með KR er því enn villtari, Valsari og Frammari þrátt fyrir að hýbýli okkar á þessum tíma hafa varla getið verið meira KR-leg, hann í Frostaskjólin steinsnar frá KR vellinum og ég á Hagamelnum alveg við Melabúðina.

Ég man að þessi æfing var algjör hörmung fyrir okkur vinina, menn gerðu tóma vitleysu úti á vellinum og gat maður greint fyrirlitningarsvip fótboltatöffarana sem gengu þarna um eins og kóngar. Flestir C-bekkinganna komu aldrei aftur á æfingu hjá KR, man ekki hvort einhver kom oftar með mér en ef svo var þá voru það ekki mörg skipti. Ég lét samt ekki segjast og mætti í einhvern tíma á þessar æfingar, alveg eins og álfur út úr hól en þetta lét ég mig hafa enda búinn að bíta þetta í mig. Man meira að segja að ég þurfti að mæta á laugardags eða sunnudagsmorgnum en það skipti engu mál, áfram hélt ég að mæta. Eflaust var fjöldi æfinganna færri í raun en í minningunni en ég vil samt meina að ég hafi sýnt ákveðna þrautseigju með þessu, aðrir myndu eflaust nefna þetta einhverjum öðrum nöfnum.

Upplifun mín af fótboltaæfingum varð öllu jákvæðari þegar ég flutti í sveitina, ekki leiðinlegt fyrir nýja gaurinn að geta tjáð sveitastrákunum að hann hefði sko verið að æfa með KR.

Á vissan hátt hefur þetta líka verið nett böl fyrir mig, vissi ekki hvert eldri drengurinn ætlaði þegar pabbi hans viðurkenndi hálfskömmustulega fyrir honum að hann æfði með KR á sínum yngri árum. Var svo farinn að verja þetta með þeim rökum að ég hafi aldrei spilað fyrir félagið og því hafi þetta ekki verið eins mikil dauðasynd og honum fannst.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bara svo það sé á hreinu þá las ég ekki þetta.... nennti því ekki