Við eru stödd á því herrans ári 2005, febrúar ef ég man rétt. Ég var búinn að fá grænt ljós á frí í vinnunni vegna dagmömmuaðlöguninnar hjá Loga Snæ sem var að skríða í eins árs aldur. Svo gerðist það að Tommi frændi hafði samband við mig en rómantíska, vikulanga, ferðin hans og Rúnu til London/Manchester var í uppnámi því Rúna komst ekki sökum veikinda. Ekki var hægt að fá allan pakkann endurgreiddan og því vantaði hann nýjan ferðafélaga. Mig minnir að ég hafi þurft að fá meira frí hjá vinnuveitandanum og að heimkoman hefði verið í miðri aðlögun, þ.e. Sigga þurfti að byrja aðlögunina og svo átti ég að taka við. Ég gleymi aldrei svipnum á yfirmanninum þegar ég útskýrði þessa brjáluðu hugmynd fyrir honum: „Dabbi minn, ef þú færð konuna þína til að samþykkja þetta þá ætla ég ekki að standa í vegi fyrir þér.“
Það varð úr að konan samþykkti það, að hleypa mér í rómatíska vikuferð til Bretlands með Tomma, á meðan ég átti í raun að vera að gera eitthvað allt annað. Helv... fínn túr, þvældumst um London og Manchester, fórum m.a. á Manchester - Portsmouth, tókum einhvern safnapakka á þetta og gistum á ansi hreint athyglisverðum hótelholum. Sögunni var þó hvergi nærri lokið þótt ferðinni hafi lokið. Við erum að tala um að í Englandi um mánaðarmótin febrúar/mars er ekkert endilega hlýtt úti og menn ekkert með föðurlandið með sér svona í útlöndum. Það fór líka svo að þegar heim var komið varð karlinn bara fárveikur. Mætti til dagmömmunnar, rétt nýlentur, ásamt Siggu til að sækja drenginn. Hafði aldrei talað við konuna en ég var alveg eins og rotta þarna á forstofugólfinu, illa sofinn með bullandi hita í svitabaði og kom varla upp orði. Fór heim og lá veikur, og þá meina ég veikur, í heila viku. Missti m.a. af árshátíðinni hjá vinnunni það árið.
Ekki öll vitleysan eins, en samt gaman að þessu.
