Fjölskyldan hélt af stað á föstudagsmorgni en planið var að Sigga yrði þarna með tvo yngstu drengina á föstudeginum en kæmi svo bara til að sjá leikina á sunnudeginum, tæki laugardaginn bara heima. Eftir að hyggja var það með betri ákvörðunum sem hægt var að taka. Þvílíku djö... úrhelli hef ég sjaldan lent í eins og á laugardeginum, drengirnir í hvítu ÍR treyjunum litu frekar út eins og keppendur í blautbolskeppni frekar en nokkru öðru og lyktin í salnum sem við höfðum til afnota var orðin frekar sveitt og úldin þegar leið á. Ég var nú ekki að sveifla myndavélinni við þessar aðstæður en stal hérna tveimur myndum af netinu sem fanga kannski aðeins stemminguna.

Fótboltalega séð gekk vel, eftir stutt hraðmót á föstudeginum var liðunum raðað í riðla. Ísak og co unnu fyrstu 4 leikina og áttu kappi við ÍBV í síðasta leik í hreinum úrslitaleik á sunnudeginum um sigurinn í riðlunum, gullmedalíu, bikar og síðast en ekki síst heiðurinn. Í stuttu máli tapaðist úrslitaleikurinn 2:0 og það voru þung skref hjá drengjunum af velli, sérstaklega í ljósi þess að það voru eingöngu verðlaun fyrir fyrsta sætið, engin silfurmedalía í boði. Fyrirliðinn var því heldur niðurlútur enda ekki á hverjum degi sem menn sjá glitta í bikar, tala nú ekki um akkúrat þegar menn bera fyrirliðabandið.
En flottur árangur enga síður. Flott veður á sunnudeginum og aðeins hægt að vera með myndavélina. Það hefði verið gaman að sjá þessa hörku aukaspyrnu hjá drengnum í netinu en markvörðurinn náði að verja. Menn skilja samt sáttir í leikslok og þannig á það að vera.
1 ummæli:
Ég held að mætti nota síðustu myndina, þar sem keppinautarnir takast í hendur, í „drengilega keppni“ herferð.
Skrifa ummæli