þriðjudagur, janúar 04, 2011

Uppgjör aðgerðaráætlunnar 2010 og planið fyrir 2011

Mér sýnist áramótaheitin frá því í fyrra hafi gengið svona allt-í-lagi upp. Þessi aðgerðaráætlun var nú ekki löng eða djúpstæð en myndavélin hafðist í hús og stofan var máluð. Fjárans tannlæknaheimsóknin var nú ekki eins ítarleg og ráðgert hafði verið, aðeins gert við einhverja fyllingu. Spurning um að halda áfram að reyna á þessu ári. Formið á karlinum er svona la-la, kalt mat er að það sé hvorki betra né verra en á svipuðum tíma fyrir ári.

Ég ákvað samt að gera engan formlegan lista fyrir þetta ár. Leiddi þó hugann að því hvernig listinn hefði litið út ef sú hugmyndavinna yrði tekin alla leið. Gæti sett ýmislegt þarna inn, að ég yrði mér út um eitt stykki Canon 70-200mm f/2.8 linsu, tattoo-hugmyndin hefur komið og farið hin síðari ár, viðhaldið lífinu í bíldruslunni minni svo eitthvað sé nefnt. Alltaf átti að búa til einhvern fjölskylduljósmyndavegg hérna heima og svo er alltaf klassískt að sjá sjálfan sig fyrir sér pungsveittan í ræktinni. En sleppum öllum formlegum listum þetta árið, látum þetta meira bara ráðast...

...nema það að ég ætla til útlanda á árinu 2011, hvernig og hvert er óráðið. Hananú.

1 ummæli:

Jóhannan sagði...

Hey ég ætla lika til útlanda á þessu ári, hvernig og hvert veit ég ekki heldur.....

Svo er ég hætt að drekka coke... amk í bili og sjá hvað það endist lengi... dagur 4 :/