mánudagur, janúar 03, 2011

Ekki ætlað að verða

Árið er 1987 og jólin eru að ganga í garð, staðurinn er Sæból 46 í Grundarfirði. Ég man ekki hvort þetta voru fyrstu eða önnur jólin okkar í Grundarfirði en það var margt um manninn þarna eins og venjan var í Sæbólinu. Ekki get ég heldur nefnt eitthvað sem ég fékk í jólagjöf þetta árið en hins vegar man ég að Varði gaf einum fóstursyni sínum, sem var þá um tvítugt, bókina Íslensk knattspyrna 1987. Hann virtist þó ekki hafa mikinn áhuga á gripnum, annað en ég og hlutirnir atvikuðust þannig að í dag er þessi bók í skápnum hjá mér og var sú fyrsta sem ég eignaðist í þessum bókaflokki. Síðar keypti ég mér allar fyrri bækurnar, frá 1981-1986 og hef fengið þessa bók í jólagjöf frá mömmu í talsvert mörg ár. Á þær sem sagt allar og mun aldrei geta hætt að safna þeim, það er bara þannig.

Það er ekki aðalatriði þessa pistils. Heldur gleymdi ég því aldrei hvað mér, 13 ára maur, fannst yfirmáta svalt að í bókinni var listi yfir meistaraflokk Grundarfjarðar (eins og önnur lið sem tóku þátt í Íslandsmótinu það árið) og m.a. nafn þessa fóstursonar hans Varða, hvað hann spilaði marga leiki og skoraði mörg mörk. Mér fannst þetta alveg geðveikt flott. Ég skoðaði þessa bók alveg í öreindir þessi jól og hugsaði með mér hvað það væri nú flott ef ég fengi nafnið mitt í þessa ritröð eitthvað árið. Það hittist nú þannig á að þetta var síðasta árið sem meistaraflokkur Grundarfjarðar tók þátt í Íslandsmótinu í talsverðan tíma. Fótboltaferillinn minn varð nú heldur ekki merkilegur, eitthvað spriklaði maður upp á Skaga eins og ég kom inná hérna um árið en takkaskórnir fóru svo að mestu leyti í dvala eftir að til Reykjavíkur var komið, a.m.k. keppnislega séð. Enda var maður kominn í önnur verkefni, skóli + vinna, kaupa sér íbúð og framleiða börn. Reyndar man ég eftir því að fyrrverandi skólafélagi minn frá Akranesi og núverandi meistaraflokksþjálfari kvennaliðs KR, Björgvin Karl, bjallaði í mig þegar ég var í Háskólanum og nýbúinn að ráða mig í vinnu hjá GÁP með skólanum. Hann vildi fá mig til að koma og spila með sér með Hvöt á Blönduósi, þeir voru í einhverjum markmannsvandræðum þá. Ég afþakkaði pent og líklega drap endanlega það litla sem var í gangi með knattspyrnuferilinn. Það var ekki fyrr en á síðari stigum að maður datt í utandeildarboltann með Tomma frænda og tókum við nokkur ár í því dæmi. Náðum meira að segja að endurvekja meistaraflokk Grundarfjarðar, svona á pappírunum a.m.k., og spiluðum tvö ár í Bikarkeppni KSÍ undir merkjum Grundarfjarðar. Sú þátttaka dugði mér þó ekki til að fá nafnið mitt í bækurnar góðu þar sem eingöngu er birtir liðslistar hjá þeim liðum sem taka þátt í Íslandsmótinu. Tommi fór þó alla leið í þessu og endurvakti þátttöku sveitaliðsins, sem hafði legið í dvala þarna síðan 1987, í Íslandsmótinu fyrir sumarið 2010. Ég gerði mér þó grein fyrir að þetta væri eitthvað sem undirritaður væri ekki að taka þátt í, þrátt fyrir að hafa fengið að spila tvo æfingaleiki með liðinu á undirbúningstímabilinu. Ég var ekki á staðnum til að taka þátt í neinum æfingum né heldur í neinu sérstöku standi fyrir svona dæmi. Nafn mitt kom því ekki í liðslistanum í þessari bók sem ég fékk í jólagjöf frá mömmu núna þessi jól. Ég var búinn að finna það hjá sjálfum mér þegar ég fór loksins í 30+ með Fylki í sumar þar sem spilað er á hálfum velli og með lítil mörk að það væri alveg yfirdrifið nóg fyrir mig. Enginn biturð yfir þessu, sumt er einfaldlega ekki ætlað að verða.

Kjánalegt? Kannski, en ég hef alltaf haft hálfgaman að hafa þessa sögu svona í bakhöfðinu en núna fannst mér tilvalið að setja punkt fyrir aftan hana. Þó svo að maður hafi ekki komist á prentið þá komst ég þó á netið. Látum það gott heita.

1 ummæli:

baradanni sagði...

man eftir þessari bók ! :)