þriðjudagur, ágúst 02, 2011

Listin að halda bolta á lofti

Ísak Máni er alltaf í boltanum eins og hefur margoft komið fram hérna á þessari síðu. Um daginn var sett upp ákveðið takmark fyrir strákana í fótboltanum, þ.e. hjá 5. flokknum, en snérist það um að halda bolta á lofti og telja hversu oft þeir geta haldið honum á lofti með öllum líkamanum nema höndum án þess að tuðran snerti jörðu. Í grófum dráttum er þetta sett upp þannig að þeir hafa tíma fram að lokahófi í haust til að ná ákveðnum fjölda í þessari iðju. Fyrir 50 skipti fá þeir brons, 100 skipti veitir þeim silfur og 150+ skipti er gull viðurkenning. Sönnunarbirgði drengjanna er talsverð í þessu, annað hvort verða þeir að framkvæma þennan fjölda fyrir framan þjálfarana eða leggja fram myndbandsupptöku af gjörningnum. Almenn vitni út í bæ teljast sem sagt ekki með og skiptir þá engu máli hvort þau eru blóðskyld eður ei, ung eða gömul, eða jafnvel með 5 háskólapróf.
Ég vissi ekki alveg hvað mér átti að finnast um þetta, vitandi það að þetta var nú ekki alveg sterkasta hliðin hjá frumburðinum en hann hafði víst náð rétt rúmum 30 skiptum fyrir þetta. En þá er víst ekkert annað að gera en að æfa sig og æfa sig svo aðeins meira. Þolinmæðin er ekki alltaf okkar sterkasta hlið og oft vilja menn að hlutirnir gerist strax.

En litlir sigrar hafa unnist og hann er búinn að vera nokkuð grimmur að gera eitthvað á hverjum degi og er yfirleitt að ná kringum 50 skiptum ef hann tekur sig til í smátíma. Stór sigur náðist um helgina í Baulumýri þegar 68 kvikindi náðust og svo heppilega vildi til að undirritaður var með vélina á lofti þannig að það er til skjalfest og bronsið því væntanlega í húsi.Drengurinn toppaði sig þó allrækilega í dag og náði 96 skiptum en reyndar bara í vitna viðurvist, þ.e. úti á velli með félögunum. Stefnan á silfrið er því freistandi en við verðum að sjá hvernig það tekst til. Ég smitaðist nú aðeins um helgina og tók smá skorpu í þessu. Í minningunni átti ég lengi vel 80 skipti sem náðust á blettinum í Sæbólinu áður en mér tókst að brjóta 100 skipta múrinn með 120 og eitthvað minnir mig en reyndar var ég ekki nógu duglegur í að æfa mig í þessu hérna í gamla daga. En um helgina náði ég 137 skiptum og það verður því að teljast persónulegt met á meðan ég man ekki meir.

Það náðist reyndar ekki á teip og ekki kjaftur til að staðfesta þá sögu.

3 ummæli:

Tommi sagði...

Svona svipað og þegar þú negldir boltanum í fánastöngina á Sæbólinu af 40 metra færi og enginn til að sjá það.... hmmm... ég trúi þessu ekki fyrr en ég sé myndband af þessu 137 meti. Annars er metið mitt 12 ef ég man rétt.

Jóhanna sagði...

Spurning um að húsmæðrafótboltagullhafa konan á Suðureyri reyni við þetta....

Villi sagði...

GÓÐUR Ísak Máni! Ekkert að stefna á eitthvað fúlt silfur. Gull og aftur gull er það eina sem blífur.

Davíð - já, sæll - við trúum þessu...

NOT