laugardagur, ágúst 18, 2012

Boltafréttir

Svartur dagur í boltanum í gær.  Við Ísak Máni skelltum okkur til Voga við Vatnsleysuströnd til að sjá Grundarfjörð etja kappi við heimamenn í 3ju deildinni í tuðrusparki.  Sveitaliðið okkar er í bullandi toppbaráttu í sínum riðli og eigir von um að komast í úrslitakeppnina og tryggja sér með því sæti í 3ju deildinni hinni nýju, í stað þess að verða staðsettir í hinni nýju 4. deild næsta sumar. 
Ansi hreint hressandi að vera svona klikkaður í hausnum og nenna að taka einhverja bíltúra til að horfa á íslenskan 3ju deildar fótbolta en það skemmtilega við það, fyrir utan að horfa á hágæðabolta, er að maður er að koma á nýja staði.  Hafði aldrei komið til Voga, tók smá rúnt eftir leik og einhver bæjarhátíð að hefjast með gula, rauða og græna hverfinu, þeir eru líklega ekki nógu stórt bæjarfélag til að bæta því bláa við.  Fórum líka um daginn í Garðinn þannig að maður er alveg að taka landið og miðin á þetta.  Eða a.m.k. Suðurnesin.  Hvað um það, leikurinn tapaðist fyrir mína menn og baráttan heldur því áfram þegar tvær umferðir eru eftir.
Ég hef hins vegar verið mjög lítið á ferðinni á ÍR leikjum þetta sumarið.  Þeir voru að spila í gær austur á Egilsstöðum og gerði sér lítið fyrir og létu drulla yfir sig fyrir allan peninginn, 5:1 urðu víst lokatölur.  Hverfisklúbburinn því kominn í botnsætið og tveir síðustu leikir sem voru settir upp sem 6-stiga leikir í ljósi þessa að þeir voru við liðin í neðstu sætunum töpuðust samanlagt 1:9!  Ég hef verið talsmaður þess að menn fari hægt í gagnrýni, skítkast og leiðindi á veraldarvefnum en ég verð að halda því fram að núverandi skipstjóri sé á góðri leið með að sökkva dallinum og líklega væri best að fyrrverandi leikmaðurinn úr ensku úrvalsdeildinni sem á einhvern ótrúlegan hátt var fenginn til liðsins fyrir þetta sumar taki við stýrinu.  Ég nenni ekki að fara aftur í þennan 2. deildarpakka, með fullri virðingu, það yrði frekar vandræðalegt.

1 ummæli:

Tommi sagði...

Eins gott að þú ert ekki LFC maður líka