sunnudagur, september 09, 2012

Listamaður

Svona fyrst ég hélt ekki lista yfir fótboltaleiki sumarsins þá þurfti ég að búa til einhvern annarskonar lista.  Sundlaugar sumarsins urðu fyrir valinu.  Helklikkaður, ég veit en lífið væri bara svo miklu leiðinlegra ef ekki væri fyrir klikkið.

Álftaneslaug:  Fórum 2-3x þangað í sumar, en höfðum aldrei farið þarna áður.  Menn þurftu að prufa öldulaugina og þessháttar í þessu bákni sem mér finnst alltaf vera holdgervingur daprar fjárhagsstöðu þessa annars ágæta bæjarfélags.

Árbæjarlaug:  Aldrei þótt hún neitt spes, alltaf skítköld og eitthvað unsexy við hana.  Innilaugin er reyndar fín en núna er ég bara ekki með nein ungabörn á mínum snærum, ég er meira að hugsa í rennibrautum.

Breiðholtslaug:  Laugin okkar, finnst hún bara flott eins og hún er.  Fínir klefar og skipulagið á lauginni alveg til fyrirmyndar.

Grafarvogslaug:  Smelltum okkur í hana á einum blíðviðrisdegi og félagi hans Ísaks fékk mömmu sína til að skutla sér svo hann kæmist með okkur.  Sá þurfti svo að taka strætó heim, enn ein röksemdarfærsla sem segir að ég þurfi að eiga 7 manna bíl.

Lágafellslaug:  Laugin í Mosó.  2 heimsóknir í hana síðla sumars á 2ja daga tímabili og Daði Steinn fór einn í allar rennibrautirnar.  Þetta er ekki flókið.

Laugardalslaug:  Ekki mitt uppáhald en allt í lagi að fara stökum sinnum þarna.

Seltjarnarneslaug:  Hafði ekki komið þarna áður og hún kom bara skemmtilega á óvart, ágætis tilbreytingarlaug.

Sundlaugin Hvolsvelli:  Þokkalegasta sveitalaug.  Einhverjar frekari heitapottsframkvæmdir þegar við vorum þarna þannig að þetta verður kannski enn betra næst.

Sundlaugin Vík:  Fínasta laug miðað við stærð plássins, ég myndi t.d. velja þessa framyfir þá grundfisku hvaða dag vikunnar.

Sundlaugin Borgarnesi:  Einhver þrengsta og furðulegasta búnings/sturtuaðstaða sem ég hef séð á ferlinum en ekkert út á sundlaugina eða rennibrautirnar að setja.  Þarna tók Daði Steinn að-fara-einn-í-stóru-rennibrautirnar upp á næsta stig, efsta stig.

Sundlaugin Grundarfirði:  Skiljanlega talsvert notuð á brölti okkar í firðinum enda þægileg leið til að skola skítinn af liðinu.  Vaðlaugarleysið gerir þetta hinsvegar hálfleiðinlegt ef maður er með börn undir ca 5 ára aldri.  Fær þó plús fyrir ágætlega skemmtilegt dót.

Sundlaugin Stykkishólmi:  Sleppur alveg en vantaði einhvern þokka yfir þetta.  Fóru mest í mig helv... útlendingarnir sem mættu ofaní án þess að fara í sturtu.  Þjóðverjar...

Minnir að aðrir en ég hafi farið í Kópavogslaug og svo voru nú nokkrar sem voru á óskalistanum hjá fjölskyldumeðlimum þetta sumarið en komust ekki á listann.  Vestmannaeyjar voru þar líklega efst, og við vorum nálægt því að taka rúntinn þangað en tímasetning og góð veðurspá fóru ekki saman.  Logi Snær hefur sótt það stíft að fá að fara í Sundhöllina, held að það tengist eitthvað stökkpallinum, en það var sjaldan stemming fyrir því að skella sér í hundgamla innilaug þegar sólin skein.  Við þurfum að fylgja honum þangað við tækifæri.

4 ummæli:

Vestfirska drottningin sagði...

Jóó ertu ekki að gleyma AÐAL sundferðinni?? Hvar fórstu í sund um páskana????

davíð sagði...

Þemað var sundlaugar sumarsins. Þar sem ég var nánast fenntur inni þá komst laugin þín ekki á listann.

Umsögnin hefði getað hljómað svona:
Eina laugin sem ég hef komið í sem selur ís til að narta í, í heita pottinum. Fannst það ekkert sérstaklega geðslegt en eflaust hægt að venjast því.

Nafnlaus sagði...

Prófa Salalaug í Kópavogi, rennibraut og foss :) kv.Krissa

Tommi sagði...

Sundlaugin í Vestmannaeyjum er með þetta... Ég meina trampólínrennibraut... toppiði það.