mánudagur, ágúst 07, 2017

Manchester City - West Ham í Reykjavík

Í júníbyrjun var tilkynnt um að ensku liðin Manchester City og West Ham myndu mætast í æfingaleik á Laugardalsvelli í ágústbyrjun.  Það var eitthvað erlent fyrirtæki sem sá um að skipuleggja þennan viðburð og bar hann hið auðmjúka nafn:  Ofurleikurinn, eða Super Match.  Þetta yrði síðasti æfingaleikurinn sem þessi lið myndu spila fyrir fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.  Skipuleggjendur voru nokkuð borubrattir og voru klárir í að leigja stúkur fyrir aftan mörkin fyrir standandi áhorfendur og voru einhverjir draumar um að slá aðsóknarmetið á Laugardalsvellinum sem sett var á leik Ísland og Ítalíu 2004.  Þá mættu rétt rúmlega 20.000 manns, þar á meðal ég og Ísak Máni.  Mjög fljótlega kom í ljóst að það var a.m.k. tvennt sem þessir ágætu skipuleggjendur Ofurleiksins höfðu klikkað á.  Fyrst var sú staðreynd að leikurinn var settur á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina kl 14:00 og ljóst að ekki allir væru að fara fórna sínum plönum um þá helgi fyrir þennan leik.  Annað var að miðaverð var frekar hátt stillt.  Einhver 6.000 kall fyrir standandi pláss fyrir aftan mörkin en annars var sætið að kosta um 15-17.000 kr og engin barnaverð voru í boði.  Miðasalan fór því mjög svo rólega af stað, til að kveða ekki fastar að.  Þar sem planið okkar var að vera bara í bænum þessa helgi þá var ég alveg spenntur í að skoða að fara en verðið var ekki að gera neitt fyrir mig.  Ég ákvað því aðeins að bíða og sjá hvernig málin þróuðust með þetta.  Málið endaði svoleiðis að skipuleggjendurnir drulluðust til að henda á 50% afslátt fyrir börn og Ísak Máni var að vinna á kvöldvakt hjá Garra þessa vikuna þannig að ég splæsti í miða handa strákunum þremur en ákvað að mig langaði ekki alveg 17.000 kr í þetta.  Ég fór reyndar með Loga og Daða á opna æfingu hjá City deginum áður, maður þurfti miðann sinn í það en Ísak var að vinna þá.

Öruggur 3:0 sigur City þar sem Gabriel Jesus, Aguero og Sterling skoruðu mörkin og menn náðu með herkjum að kreista um 6.300 áhorfendur á völlinn.  Skipuleggjendurnir töluðu samt um að þeir séu að skoða málið fyrir næsta ár, með sambærilegan leik en þá reynslunni ríkari varðandi tímasetningar og miðaverð.  Það verður athyglisvert að sjá.
Leikmenn Man City sem spiluðu leikinn
Leikmenn West Ham sem spiluðu leikinn

sunnudagur, júlí 30, 2017

Í fríi á Akureyri - 5 réttir í veðurlottóinu

Við skelltum okkur norður á Akureyri í tæpa viku seinnipart júlímánuðar.  Fengum, fyrir talsverða tilviljun, kennarafélagsíbúð sem datt inn í úthlutun núna í vor.  Alltaf algjör lottó með veður í svona fyrirframákveðnum innanlandsferðalögum, minnist vikunnar í VR bústaðnum í Miðhúsaskógi fyrir þremur árum þar sem rigndi aðallega og fríið bar þess óneitanlega merki.  Þannig að maður var alveg með það í kollinum að við gætum verið að fara norður í einhverja norðanátt, 5 gráður og þoku.  Og fyrsta langtímaspáin var ekki að vinna með okkur.  En það rættist aldeilis úr þessu, fengum algjört bongóblíðuveður þessa daga sem við vorum á svæðinu.

Lögðum af stað á miðvikudagsmorgni, því miður Ísaks Mána-laus, þar sem hann þurfti að vinna.  Stoppuðum á Blönduósi og fórum í sund, skothelt dæmi.  Ókum svo inn til Akureyrar í skýjað en 20 stiga hita.  Vorum þarna fram á mánudag.  Höfðum ráðgert að taka mögulega rúnt til Húsavíkur, jafnvel skoða Dettifoss o.s.frv. en veðurblíðan var svo yfirgengilega góð að það endaði svoleiðis að við vorum nánast bara á Akureyri og næsta nágrenni.  Tókum reyndar part úr degi einn bíltúr út á Dalvík og Ólafsfjörð, slepptum Siglufirði í þetta skiptið.  Annars var þetta bara hefðbundið chill, endurbætta sundlaugin á Akureyri var í göngufæri frá íbúðinni okkar og svo dunduðum við okkur almennt.  Jólahúsið, Lystigarðurinn og Flugvélasafnið var meðal þeirra hluta sem voru teknir ásamt því að miðbærinn og skólalóðir voru stundaðar.  Inga, Gunni og Hekla mættu svo á svæðið, eftir ferðalag m.a. á Egilsstaði, og voru þau líka með hús fyrir norðan.  Tókum m.a. kvöldstund þar þar sem horft var á leik Íslands og Sviss á EM kvenna og grillað.

Þurftum svo að skila af okkur húsinu á mánudeginum þannig að það var bara tekin svipuð formúla og áður, stoppað í sundi á Blönduósi, borðað á Staðaskála og svo bara heim.  Engin geimvísindi á bak við þessa ferð en ofsalega var þetta ljúft.

Jólahúsið

Á flugvélasafninu

Eitthvað var farið í körfubolta

Á byggðarsafninu á Dalvík

Í lystigarðinum á Akureyri

föstudagur, júlí 14, 2017

Þriðji körfuknattleiksferillinn í fæðingu?

Í morgun minnti Facebook mig á þá staðreynd að á þessum degi fyrir tveimur árum fór Daði Steinn á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá ÍR.  Hann hefur verið á fullu í fótboltanum síðan og það er vel.  Við vorum svo líka að reyna að fá hann til að fara á körfuboltaæfingar síðastliðinn vetur, en hjá ÍR þurfa krakkar í 1. og 2. bekk ekki að borga mörg æfingargjöld heldur er bara eitt gjald og þau mega þá mæta á æfingar hjá öllum deildum félagsins.  En hann var ekkert ginkeyptur fyrir það, mætti bara á sínar fótboltaæfingar en stundaði svo körfubolta hérna heima í stofu með eldri bræðrum sínum.


En núna í sumar datt inn viku námskeið hjá Brynjari Karli, þjálfara sem er að hefja störf hjá ÍR næsta vetur, og var þetta námskeið fyrir stráka fædda 2009 og 2010.  Námskeiðið var ókeypis og okkur fannst tilrauninnar virði að tékka á stemmingunni hjá drengnum.  Hann var ekki alveg viss, en samt nokkuð spenntur.  Niðurstaðan varð sú að félagi hans, hann Bæring, ætlaði að fara með honum og sömuleiðis var samið um að ef Daði færi fyrsta daginn og líkaði það vel að hann myndi klára námskeiðið þá yrði farið og verslað handa honum körfuboltaskó sem hann rakst á um daginn á útsölu í Smáralindinni.  Bláir og hvítir Nike KD9, nákvæmlega eins skór og Logi Snær er að m.a. að spila í um þessar mundir.  Fyrsti dagurinn gekk svona glimrandi vel, Daða fannst þetta frábært og farið var og splæst í nýju skóna eftir fyrsta daginn og kláraði hann námskeiðið í nýju skónum.  Félagi Bæring sást reyndar ekkert eftir fyrsta daginn og það breytti engu fyrir minn mann, þetta var nefnilega svo gaman.

Þetta námskeið var að klárast núna í dag, á tveggja ára fótboltaæfingaafmælinu hans, og aðspurður um hvort hann ætli að kíkja á körfuboltaæfingar næsta haust var svarið einfalt og skýrt:  Já.

Sjáum til hvað gerist.  En skórnir eru a.m.k. klárir.

miðvikudagur, júlí 05, 2017

Logi Snær í körfuboltabúðum á Spáni


Logi Snær skellti sér til Spánar í körfuboltabúðir þetta sumarið.  Forsagan var sú að Borche Ilievski, þjálfari meistaraflokks ÍR og reyndar tveggja annarra yngri flokka, var með alþjóðlegar körfuboltabúðir í litlum bæ á Spáni, Amposta, sem er ekki svo langt frá Barcelona.  Alþjóðlegar já, en stór hluti af þessum 70-80 krökkum sem voru þarna, voru frá Íslandi og stærsti einstaki hópurinn kom frá ÍR, 23 strákar.  En þjálfarateymið var svo alþjóðlegt.  Búðirnar voru frá 23.-30.júní en hópurinn fór út þann 21. og kom aftur 31. júní.
Við vorum ekki alveg viss hvort við ættum að senda hann í þetta, þar sem þetta var á sama tíma og Skagamótið hans Daða og svo vorum við ekkert rosalega spennt fyrir því að fara þarna út til að „hanga“ í spænskum smábæ í rúma viku.  En það var úr að hann fékk að fara en út með strákunum fór flott fararstjórateymi og sömuleiðis eitthvað af foreldrum.  Logi var reyndar í yngri kantinum af þeim sem fóru og sá yngsti sem fór foreldralaus.  Hann var t.d. ári yngri en þegar Ísak Máni fór foreldralaus á körfuboltamót til Gautaborgar hérna um árið.

Þetta var mikið prógramm, vaknað snemma til æfinga og dagskráin var yfirleitt löng.  Eftir að hyggja var þetta aðeins of langt en hann var sáttur við allt og farastjórarnir báru honum mjög vel söguna.  Gerði sér lítið fyrir og tók sigurverðlaun í 1-á-1 meðal þeirra yngri.  Hópurinn náði svo lokadeginum í Barcelona þar sem kíkt var á Nou Camp völlinn og kíkt í eitt moll, sem Loga fannst nú ekki leiðinlegt þar sem hægt var að kaupa eins og 2 skópör.

En mikið ósköp var hann þreyttur þegar heim var komið, alveg búinn á því greyið.

Brottför á Keflavíkurflugvelli



Logi Snær og Erik




Heildarhópurinn

Hópurinn frá ÍR


Ívar, Erik og Logi

Menn sprækir að huga að heimferð


mánudagur, júní 26, 2017

Skagamótið - í sjötta og hið síðasta sinn

Í sjötta, og í hið síðasta sinn, arkaði ég upp á Akranes til að fylgja syni mínum þangað á hið árlega 7. flokksmót sem heitir í dag Norðurálsmótið.  Daði Steinn var að taka þátt í seinni skiptinu sínu en hann er svo að fara upp í 6. flokk í haust. Ísak Máni tók þátt í þremur svona mótum 2005, 2006 og 2007 en hann fékk, ásamt nokkrum öðrum úr 8. flokki að fara sem D-lið, á sitt fyrsta mót.  Logi Snær lét eitt duga, árið 2011, en var ekkert að æfa á sínu eldra ári í 7. flokk.  Hann tók reyndar síðar fram skóna að nýju og fór á Akureyri með 5. flokk.

Daði og Gabríel þakka fyrir leikinn
En við fórum uppeftir á föstudeginum eins og venjan hefur verið.  ÍR gisti þetta árið í Brekkubæjarskóla sem er nokkur spölur frá keppnisvöllunum en það bjargaðist nú allt saman.  Mótið hófst á skrúðgöngu og setningarathöfn í yfirbyggðu knattspyrnuhöll þeirra Skagamanna.  Daði Steinn var í A-liði og þeim gekk nokkuð vel á föstudeginum, sigruðu Fram og gerðu svo jafntefli við bæði ÍA og Þrótt.  2. sæti í riðlinum sínum þann daginn og því ljóst að menn fengju sterka andstæðinga á laugardegi og sunnudegi.  Sem varð raunin, mættu m.a. Breiðablik-1, Stjarnan-1 og FH-1, og töpin urðu í meiriflokki.  Laugardagurinn endaði þó á sigri á Selfossi þar sem Daði Steinn mætti gamla félaga sínum úr ÍR, Gabríel Úlfi, sem flutti á Selfoss fyrir síðasta vetur.  Mótið endaði svo á sunnudeginum með tveimur tapleikjum.

Fyrirliðinn fagnar
En heilt yfir var þetta gaman, Daði Steinn svaf með liðinu sínu báðar næturnar en við keyrðum á milli.  Logi Snær var á körfuboltabúðum á Spáni en Ísak Máni kom með okkur upp á Skaga á laugardeginum og fylgdist með þessu þann daginn.  Veðrið var þokkalegt, aðeins smávæta á föstudeginum þegar við vorum að spila en hellirigndi á þá sem voru síðar um daginn sem gerði það að verkum að vellirnir voru vel blautir á laugardeginum þótt það rigndi ekkert þá.  Skall svo á með sól og blíðu á sunnudeginum.
Á föstudeginum lentu þeir svo í viðtali hjá Gaupa, íþróttafréttamanni sem hefur verið að stýra hinum árlegum þáttum um þessi fótboltasumarmót.  Held að þetta hafi verið tíunda árið sem hann kom upp á Skaga.

Daði gekk reyndar ekki alveg heill til skógar, tókst að dúndra ristinni á sér í stöngina á trampólíninu þarna fyrir helgina og var hreinlega á köflum á öðrum fætinum en bar sig vel og vildi ekki almennt viðurkenna að það væri nokkuð að honum.  En maður sá það í leikjum að hann gat ekki beitt sér að fullu, honum tókst ekki að skora þetta árið.

En Skagamótskaflanum er s.s. lokið hjá mér, ég kveð það sáttur.




föstudagur, maí 26, 2017

Francesco Totti, þessu hlaut að enda...

Ég man varla eftir Rómverjunum mínum án Totti.  Smá ýkjur en samt ekki, enda svolítið síðan hann spilaði fyrsti leikinn sinn fyrir klúbbinn, 28. mars 1993.  Það er langur tími og á margan hátt góður.  Sigurinn í deildinni, 17. júní 2001, dagur sem hefur mikla þýðingu fyrir mig á fleiri hátt en bara þessi titill.  HM 2006, það var frábært.  Þetta er svo sem búið að vera erfitt líka, maður hefði gjarnan viljað að Ítalíumeistaratitlarnir hefðu verið fleiri, 7:1 tapið í Meistaradeildinni 2007 á Old Trafford var líka með því furðulegra sem ég hef upplifað í þessu.

Hann var einn af fyrstu hetjunum sem var yngri en ég, sem var ákveðið sjokk.  En aldrei fór ég til að sjá karlinn spila.  Sem er eiginlega alveg fáranlegt.  Ég stökk til og athugaði flug + þessháttar, núna fyrir síðasta heimaleikinn á móti Genoa, þegar þetta fór að fréttast að þetta yrði mögulega síðasta seasonið hans.  Þetta hefur nú legið í loftinu en það var bara núna fyrir einhverjum dögum að þetta var staðfest.  Ekkert beint flug til Rómar í boði og hlutirnir ekki alveg að smella en ég var búinn að sjá þetta fyrir mér í heilmikilli rómantík, helgarferð til Rómar, ég á vellinum á síðasta heimaleiknum hans, daginn eftir afmælið mitt.

Og á sunnudeginum lýkur þessu einfaldlega og aldrei fór ég til að sjá hann sparka í tuðruna.   Andskotinn.


þriðjudagur, maí 09, 2017

Þar kom að Íslandsmeistaratitlalausum vetri

Eftir að hafa hirt Íslandsmeistaradolluna síðustu þrjú ár í röð, í 9. flokki 2014, í 10. flokki 2015 og svo í drengjaflokki 2016 þá slitnaði sú sigurganga hjá Ísaki Mána og félögum í ÍR um síðustu helgi.  Annað árið sem hann var í drengjaflokki og eftir gott sigur í riðlinum þá tók útsláttarkeppni við.  Skallagrímsmönnum var skellt á heimavelli í 8-liða úrslitum og því var úrslitahelgin framundan sem spilað var í Dalhúsum um síðustu helgi.  Undanúrslit á föstudegi og sigurvegarar þar spiluðu úrslitaleiki á sunnudeginum.  Því miður fór það þannig að Haukar voru of sterkir og sigruðu ÍR-inga 75:81, og reyndar fór það svo að Haukarnir hömpuðu titlinum þetta árið eftir sigur á KR í úrslitaleik.  Staðreynd sem erfitt var að kyngja eftir sigursæl ár en vitaskuld var alltaf möguleiki að þetta færi svona.

Núna færist minn upp í unglingaflokk og það verður athyglisvert og spennandi að sjá hvernig það verður.


þriðjudagur, mars 14, 2017

ÍR 110 ára og karlinn heiðraður með silfri

110 ára afmæli ÍR var haldið á afmælisdaginn, 11. mars síðast liðinn.  110 ár, mér finnst tiltölulega stutt síðan félagið átti 100 ára afmæli þegar Ísak Máni var í fótboltanum.  En svona er þetta víst, tíminn er ekkert að vinna með manni.

En á þessum tímamótum var haldið afmælishóf í ÍR heimilinu með dagskrá þar sem m.a. var farið í stuttu máli yfir sögu félagsins til dagsins í dag, einnig núverandi stöðu félagsins og framtíðarsýn þar sem aðstöðuuppbygging sem er fyrirhuguð næstu árin var fyrirferðamikil.  M.a. tóku Þráinn Hafsteinsson, íþróttastjóri ÍR og Ingigerður Guðmundsdóttir formaður til máls og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur hélt svo einnig smá tölu.  En í lokin voru veittar heiðursviðurkenningar þeim aðilum sem hafa starfað í þágu félagsins, silfur og gullmerki ásamt heiðursfélaganafnbótinni sem er víst sú allra æðsta viðurkenning sem félagið veitir félagsmönnum sínum.

En ástæða þessa pistils er að undirritaður fékk þarna sitt silfurmerki, fyrir störf sín fyrir körfuknattleiksdeildina í gegnum tíðina.  Þegar ég fékk boðið, um að minnar nærveru væri óskað undir þessum lið þá fór ég aðeins að rifja það upp að ég kom inn í unglingaráðið hjá körfunni um haustið 2011, að undirlagi Hjálmars Sigurþórssonar, og hef verið í því óslitið síðan.  Tengdist því vitaskuld að Ísak Máni var kominn í þetta á fullu og maður var auðvelt skotmark í svona starf ásamt því að vera ekki mikið í því að segja nei.  Þetta er búið að vera mikil vinna á köflum en mjög gaman og gefandi.  Ég er alls ekki að segja að ég sé að stefna á gullið eða heiðursfélagann en á meðan þetta er gaman og hægt að nota mann í þetta þá heldur maður eitthvað áfram. 

Silfurmerkishafar 2017

þriðjudagur, desember 27, 2016

Endalok prinsessunnar

Eins skrítið og það er, þá fer maður að tengja jólin við að fara á nýja Star Wars mynd.  Í fyrra var það The Force Awakens og fór maður þá með alla strákana og núna í ár var það Rogue One.  Sami hópur nema að Markús vinur hans Daða kom með.  Líklega gæti þetta orðið hefð næstu árin skilst mér þar sem Disney á núna réttinn af þessu og getur dælt út sögum næstu jól.  Skemmtileg hefð á meðan myndirnar eru skemmtilegar.

Varla hægt að frétta á meiri viðeigandi hátt um andlát Carrie Fisher heldur en á ganginum á leiðinni út úr bíóinu en hin unga Leia var tölvumixuð inn í lokaatriði myndarinnar.  RIP.


sunnudagur, október 09, 2016

Með celeb á bakinu

Skellti mér á landsleik í fótbolta þar sem Ísland og Finnland voru að spila í undankeppni HM.  3:2 sigur hafðist með ævintýralegum lokamínútum þar sem Ísland skoraði hálfvafasamt mark í blálokin en við tökum því.  Ég fór með Loga og Daði + Theó, vinur hans Loga komst með þar sem Ísak gat ekki mætt.
Allavega, ég veitti nú ekki mikilli athygli parinu fyrir aftan mig sem talað ensku og var greinilega í semi-túristagír.  Áttaði mig ekki á því fyrr en ég sá Fréttablaðið að þarna var kominn enski lögregluþjónninn sem var stunginn eftir leik Íslands og Frakklands á EM og talsvert var fjallað um á miðlunum hérna heima.  Svo mikið að það var safnað fyrir hann ferð til landsins og honum m.a. reddað miðum á þennan leik ásamt einhverjum hefðbundnari túristaviðburðum.  Maður hefði kannski hent í eina mynd með kappanum og frú ef maður hefði bara vitað.

Fréttin í Fréttablaðinu

Theó, Logi og Daði náðust á mynd hjá fulltrúa KSÍ

föstudagur, ágúst 19, 2016

Norðurá - Wíum 3:0

Í þriðja skiptið hélt ég í Norðuránna til laxveiða en ég hafði farið 2011 og svo aftur 2013.  Hvað er hægt að segja, enn var lítil sem engin veiði og ekki veiddi ég neitt, þriðja skiptið í röð.  Eitthvað sá maður af fiski stökkva en lítil stemming var hjá þeim að bíta á.
Þetta er ekki alveg að heilla mann, enn hef ég ekki stokkið út í búð og græjað mig frá toppi til táar og hellt mér út í fluguhnýtingapælingar.  Mögulega er eitthvað að hafa áhrif að þessi skipti eru þau einu sem ég hef verið í því að kasta flugu, og í sannleika sagt er ég alveg guðdómlega lélegur í því.

Spurning hvort allt er þá þrennt er?

miðvikudagur, júlí 27, 2016

Á góðri stund í Grundarfirði 2016

Enn vorum við mætt í fjörðinn fagra á þennan viðburð þeirra Grundfirðinga, um nýafstaðna helgi.  Eins og í fyrra vorum við Ísaks Mána-laus, aftur var hann að vinna í Hagkaup þessa helgina.  Við mættum á föstudeginum, í tíma fyrir froðugamanið.  Mamma á nýja staðnum, nú í bláa hverfinu, en ekki mjög mikið lengri spotti í franska garðinn.  Froðan var nú eitthvað öðruvísi en áður, freyddi ekki eins mikið eins og undanfarin ár.  Annars var Logi Snær hálfónýtur, hafði fengið einhvern hálsríg og var allur stífur og skakkur.  Ingó Veðurguð með brekkusöng á kirkjutúninu svo um kvöldið.
Á laugardeginum vorum við svo á leiðinni niður á höfn til að kíkja á skemmtunina þegar Daði Steinn, sem var aðeins á undan okkur, dettur fram fyrir sig og tekst að fá þetta myndarlega sár á milli efri vararinnar og nefsins.  Fossblæðir og krakkinn fær algert kast.  Við hlaupum aftur heim með hann og ég bjallaði í Tomma sem græjaði það að starfandi hjúkka á staðnum hitti okkur niður í heilsugæslunni.  Ekki þurfti að sauma en það þetta var límt saman og drengnum tókst að æla yfir löppina á lækninum sem var þarna líka, reyndar út af öðru máli.  Hann fór bara aftur heim til ömmu sinnar með mömmu sinni en ég og Logi tókum röltið áfram niður á höfn.  Ekki fyrst skipti sem við heimsækjum heilsugæsluna á þessari hátíð, Logi flaug á hausinn hérna um árið við íþróttahúsið og þá þurfti að moka einhverjum steinum úr enninu á honum.  Við náðum þó öll að fara
í skrúðgönguna um kvöldið en núna í fyrsta sinn fórum við með þeim bláu.  Það var rosalega skrítið.
Svo dóluðum við okkur heim á sunnudeginum, létum okkur nægja að gjóa augunum á Eldborg þetta árið.

Bræðurnir í froðunni
Tekinn snúningur á þessu

Búið að líma kallinn saman

Bláir í ár - annar skakkur og hinn tjónaður