fimmtudagur, október 26, 2006

Getur vond tónlist verið góð tónlist?

Ég man að það var síðasti dagur síðasta árs, skömmu fyrir hádegi. Veit ekki af hverju ég man það en ég geri það samt. Logi Snær var að borða hafragrautinn sinn, aðeins á eftir áætlun en allt í lagi með það svo sem. Ísak Máni var inni í stofu að horfa á Star Wars III Revenge of the Sith, mér heyrðist að Obi-Wan væri kominn til Utapau að leita að General Grievous. Konan var í ræktinni. Ég var að raða í uppþvottavélina og kveikt var á útvarpinu, Bylgjan var í gangi. Gulli Helga var að tala við Björgvin Halldórsson söngvara og Bjarna Ármannsson bankastjóra Íslandsbanka (Glitnir heitir þetta víst í dag) en þeir voru að tala um sýninguna hans Bo sem ég held að hafi verið á Broadway. Snérist þá umræðan um að talsvert af ungu fólki hafi verið að koma á þessa sýningu, mörgum þætti líklegra að eldra fólk en yngra væri að koma á sýningu með Björgvini Halldórssyni. Voru þeir Bo og Bjarni sammála um að með tilkomu MP3 spilaranna og Ipodanna væri aðgengi að tónlist miklu meiri og auðveldari og fólk væri því að hlusta á allskonar tónlist og jafnvel eitthvað sem það myndi að öðru leyti kannski ekki vera að hlusta á.

Ég er nefnilega í smávandræðum. Málið er að ég hef alltaf haft ákveðin tónlistarsmekk, eða a.m.k. talið mér trú um það. Það er sumt sem maður hlustar á og annað ekki. Ég man þegar ég var að byrja í tónlistarpælingunum sem gutti að þá var sjóndeildarhringurinn ekkert rosalega breiður, skoðanir manns einskorðust við vinsældarlista Rásar 2 og svo tónlistarmyndbönd sem sýnd voru í þættinum Skonrokk á RÚV enda lítið annað að hafa. Svo fór maður aðeins að víkka þennan hring.

Nú hef ég lent í því öðru hvoru í gegnum tíðina að ég er að fíla einstök lög sem ég heyri einhversstaðar, lög sem mér finnst einhvern veginn að ég "eigi" ekki að fíla. Lög sem tengjast annað hvort tónlistarmönnum eða -stefnum sem ég hef hingað til ekki verið mjög ginkeyptur fyrir. Ég er ekki að tala um það þegar maður er að uppgötva nýja hljómsveit eða söngvara sem reynist svo við nánari skoðun vera nokkuð góð/góður. Nei, ég er meira að tala um þegar einstaka lög sem af einhverjum óútskýranlegum orsökum snerta einhverjar rásir í hausnum á mér en við nánari skoðun finnst mér allt annað sem viðkomandi listamaður hefur gert vera rusl, eða miður gott til að orða þetta ekki alveg svona sterkt. Svona mitt eigið one-hit-wonder.

Þetta minnir mig alltaf á eitt. Eitt sinn fyrir einhverjum árum var ákveðinn aðili í lífi Dabba litla sem viðurkenndi fyrir mér að lagið Total eclipse of the heart með Bonnie Tyler gerði eitthvað fyrir sig. Þetta sló mann nokkuð því þessi aðili var á þessum tíma meira að spá í bassaplokk að hætti Cliff heitins Burtons og skók höfðinu villt og galið í takt við tóna Iron Maiden. Ég hef stundum hugsað til þessa atburðar þegar ég lendi í þessum umdeildu tónlistaruppgvötunum.

Til að leggja áherslu á mál sitt er best að koma með dæmi. Og ég á þau nokkur. Ég er að hugsa um að henda einu hérna og svo koma kannski önnur við tækifæri, þau eru misslæm, þótt ég sjái einhverja fegurð í þeim öllum.

Fyrsta Bonnie Tyler lagið mitt er:



Robbie Williams - Old before I die
Take That var alls ekkert fyrir mig og mér hefur fundist það sem Robbie Williams hefur gert síðan þá ekkert spennandi. Svona þokkalega vönduð popptónlist sem er að gera ágætishluti fyrir fullt að fólki, en ekki mig. Nema þetta lag.

Þýðir þetta að tónlistarsmekkurinn er að breytast með árunum? Veit ekki. Þroskamerki? Veit ekki. Eða er ég einfaldlega í tómu rugli? Kannski. En niðurstaðan er einfaldlega sú að hvað tónlist varðar þá er ekki hægt að gera neitt í því hvað maður fílar og hvað ekki. Góð lög eru bara góð lög, þótt þau "eigi" að vera vond.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nákvæmlega, gæti ekki verið meira sammála. Hver var samt þessi Bonnie Tyler hommi???

Nafnlaus sagði...

Ööööööööööösssssss djö hafi það. Þetta var að sjálfsögðu ég sjálfur... DAMN, er ég orðinn elliær?

Davíð Hansson Wíum sagði...

Snilldin ein. Og að þú hafir í alvöru ekki munað eftir þessu strax... ómetanlegt!

Nafnlaus sagði...

hehehe....elliæru skrollarar!!
ehemmm...telst 50cent með...?
"...in da club...dúrúbbídú..." shit.....