sunnudagur, desember 17, 2006

Þetta er bara rugl

Kæri Jóli.

Ég er að gera mitt besta til að anda rólega yfir hátíðirnar en þetta er bara rugl. Ákvað í gær að reyna að tækla eitthvað af þessum fáu jólagjöfum sem ég þarf að redda. Fór fyrst í litla sérverslun niðri í miðbæ. Fékk ekki stæði nema einshversstaðar lengst í rassgati og svo þurfti ég nánast að bakka inn í þessi litlu búllu því það var svo stappað þarna inni. Barðist með straumnum í smástund þangað til ég sá útganginn aftur og náði að klóra mér aftur leið út.

Tók stefnuna niður í Skeifu, bara til að lenda í umferðarteppu þar. Komast þar í þessa einu búð sem ég þurfti að fara í þar, bara til að komast að því að það sem ég var að leita að var uppselt. Ætlaði svo aldrei að komast út úr þessari umferðarmenningarleysu sem er þarna.

En Jóli, ég var samt enn bjartsýnn og gerði heiðarlega tilraun til að fara í Kringlunna. Eftir að hafa leitað af stæði í 20 mínútur innan um alla hina bílana sem voru þarna í sömu erindagjörðum þá nennti ég því ekki lengur og ákvað að snúa heim á leið. Stoppaði á einum stað þó og náði að versla einn hlut, svona til að klára a.m.k. einn hlut í þessari verslunarferð.

Vaknaði svo í morgun og fór að endurhugsa hvernig best væri að versla þær gjafir sem ég á eftir. Var að fletta blaðinu á eldhúsborðinu og sá þá þennan eina hlut sem ég verslaði í gær auglýstan á tilboði í sömu búð og ég keypti þetta í, tilboð sem var ekki byrjað í gær. Frábært.

Gleðileg jól kæri Jóli.

Þinn Davíð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þá er bara að taka fram hjólið og hjóla í kringluna, en við hjólum allt hérna eða tökum almenningssamgöngurnar, miklu betra en að vera á bíl :-)