miðvikudagur, desember 13, 2006

Jólaandi

Kæri Jóli.

Ég er í smávægilegum vanda. Núna styttist í jólin og ég er eiginlega ekki að nenna þessu. Ekki misskilja mig, stemmingin kemur án efa til með að batna þegar nær hámarkinu dregur og ég verð án efa í fínum gír á aðfangadag þegar steikin er komin í ofninn og verð ekki í verri málum þegar börnin mín fara að opna pakkana o.s.frv. En núna er ég bara eiginlega ekki að nenna þessu. Allar búðir kjaftfullar af fólki sem verða að kaupa allt sem í boði er, hvort Diddi móðurbróðir hennar Fíu frænku vilji þennan geisladisk eða hvort eigi frekar að kaupa handa honum bók...

Núna hamast allir að segja mér að það sé líka nauðsynlegt að kaupa sér flatskjá eða fá sér nýja eldhúsinnréttingu, allt til að klukkan 18 á aðfangadag verði heimilið eins og klippt út úr einhverju tískublaði og allt verði fullkomið. Það er nefnilega málið, þetta á allt að vera svo fullkomið að ég gæti kastað upp.

Þú verður bara að fyrirgefa kæri Jóli að núna tæpum tveimur vikum fyrir jól er ég ekki að fíla stútfullar verslunarmiðstöðvar og endalausa auglýsingabæklinga með hinu og þessu hégómadrasli sem gerir það að verkum að ef maður dansar með þá fer Visa reikningurinn í febrúar með allt til fjandans og maður upplifir timburmenn dauðans. Til hvers? Til að upplifa einhverja fullkomnun þegar maður er að skera hamborgarahrygginn á aðfangadag?

Æi Jóli, ég reyni samt bara að draga andann djúpt og chilla þessa daga fram að jólum, ég neita að taka þátt í allri þessari hlaup-kaup vitleysu. En núna verð ég samt að fara að huga að jólakortunum.

Þinn Davíð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr, þetta er komið út í rugl