miðvikudagur, janúar 24, 2007

Hvetjandi á brettinu

Maður er rosalega ánægður með handboltalandsliðið um þessar mundir eins og megnið af þjóðinni. Eins og maður var fúll eftir tapið á móti Úkraínu þá var maður í skýjunum eftir sigurinn á móti Frökkum. Fyrsti leikurinn í milliriðlinum í dag kl 16:30 við Túnis og það var tekinn ákvörðun um að drífa sig strax eftir vinnu niður í rækt og gerð tilraun til að horfa á leikinn af hlaupabrettinu. Var búinn að gera allt klárt, nýju 17.000 kr. íþróttaskórnir voru gerðir klárir í töskunni, sem kostuðu ekki "nema" 9.500 á útsölunni. Þetta eru fínustu Asics skór en svo skemmtilega vill til að konan á dömuútgáfuna af þessum skóm en hún reyndar borgaði tæpar 17.000 fyrir sína. Hún myndi segja að þetta væri enn eitt dæmið um naskni mína í fjármálum eins og dæmin hafa sannað síðustu mánuði.

Maður náði með herkjum tæki í ræktinni, margir voru áhugasamir um að slá tvær flugur í einu höggi, horfa á leikinn og léttast í leiðinni. Maður datt alveg inn í leikinn þarna á brettinu, dúndraði heyrnatólunum úr eyrunum í einum fagnaðarlátunum og þegar Guðjón Valur komst í hraðupphlaup og tók snögga færslu til vinstri þá var ég næstum því farinn til vinstri með honum, en það hefði vægast sagt endað illa. Hefði líklega farið beinustu leið og sagt upp kortinu í Hreyfingu ef ég hefði hrunið niður af brettinu þarna í beinni útsendingu.

Engin ummæli: