mánudagur, janúar 15, 2007

Kominn heim frá Köben

Þá er kappinn kominn aftur á klakann eftir vel heppnaða ferð til Köben. Fórum eins og planið var út á föstudeginum og áttum flug rúmlega 14:00. Skítakuldi og skafrenningur þegar haldið var í hann en minn sýndi mikla takta og tók upp á því að fljúga á hausinn í hálkunni nánast við innganginn á flugstöðinni. Hruflað hné og olnbogi en fall er víst fararheill. Stóð svo við allar yfirlýsingar og verslaði mér ipod, silfraðan, 4GB, 18.900 kall og málið dautt. Næsta mál hvað hann varðar er að skoppa til Tomma frænda og versla mér líkamsræktarhylki, nýja tappa í eyrun, bíltengitæki með hleðslu og allt sem nauðsynlegt er til að vera hipp og kúlaður ipoddari.

Hvað um það, flugferðin út gekk vel og allur mannskapurinn smellti sér upp á hótel. Þegar búið var að skoða aðstæður var farið að éta á Hard Rock og smellt í sig ofurelduðum beikonborgara. Eftir var farið á pöbbarölt með tilheyrandi bjórdrykkju og þrammi. Endaði svo upp á hótel í lobbýinu að spila kana og Opalsnafs með því til klukkan 5 um morguninn, ekkert smáklikkaðir þessir Íslendingar! Það var því þokkalega myglaður Wíum sem mætti krumpaður í lobbýið fimm tímum seinna en þar hafði ég mælt mér mót við Ingu til að skiptast á sendingum og hún ætlaði aðeins að rölta með mér niður í bæ sem við og gerðum.

Laugardagurinn fór að mestu leyti í Strikið og nánasta umhverfi. Hópurinn fékk sér svo að éta á einhverjum ægilegum smurbrauðskofa, voða danskt eitthvað. Um kvöldið var svo farið fínt út að borða og nánari skoðun á dönsku næturlífi. Ég var entist nú ekki lengi enda kominn á fertugsaldurinn og þarf minn svefn.

Tékkað út af hótelinu á sunnudeginum og rölt niður í bæ. Allt lokað á Strikinu og hífandi rok. Lítið hægt að gera á meðan menn biðu eftir því að fara út á flugvöll en að hanga á einhverjum knæpum og sötra öl. Hópurinn skiptist á sögum frá gærkvöldinu og eins og eðlilegt er þá voru ævintýrin misathyglisverð. Svo var bara flugvöllurinn tekinn á þetta, ekkert eytt í þessari rándýru flughöfn, bara feginn að komast upp í vél.

Eitt fannst mér nú alveg hreint svaðalega fáránlegt, get bara ekki orða bundist. Þegar við komum heim til landsins var búið að snjóa og skafa alveg slatta. Við félagarnir vorum með bíl á þessu langtímabílastæði sem maður þarf að borga fyrir. Anyway, þegar við komum út úr flugstöðunni, klukkan að nálagst miðnætti og -6 stiga gaddur út, þá var búið að ryðja helstu "aðalgöturnar" á þessu blessaða bílastæði sem gerði það að verkum að fyrir aftan alla bílana var myndarlegur snjóbunki. Það var því lítið annað en að gera en að grafa sig út úr þessu, þreyttur, kaldur og hrakinn. Og fyrir þetta er maður að BORGA. Algjört rugl og rán. Þegar þetta er orðið yfirbyggt þá er ég tilbúinn að borga, ekki fyrr.

En heilt yfir var helgin góð en ég verð líklega að fara aftur þarna út. Það þýðir ekkert að fara aftur þegar tívolíið er lokað og svo á ég eftir að kíkja á hafmeyjuna frægu.

Engin ummæli: