föstudagur, júní 29, 2007

Byrjunin lofar góðu

Vika liðin af sumarfríinu og ekki verður sagt annað en að byrjunin lofi góðu, a.m.k. veðurlega séð. Alltaf svolítið lotterí þegar maður er búinn að ákveða að halda sér á skerinu góða í sumarfríinu hvernig veður maður fær. Ekki það skemmtilegasta að koma aftur til vinnu eftir 3ja-4ra vikna frí þar sem uppskeran var kannski 4 sólardaga og slatti af rigningu. Karlinn er svo brunninn á höfði og upphandleggjum eftir þessa viku að þetta er ekki fyndið, verð að fara kynna mér þessar sólarvarnir...

Sigga lét rífa úr sér saumana eftir uppskurðinn á hendinni og fékk nýtt gifs. Það eru fjórar vikur í viðbót með það, eitthvað sem við vissum nú svo sem alveg. Hún lét það nú ekki stoppa sig í að mæta í æfingaleik með ÍR drottningunum núna í kvöld en var vitaskuld ekki í marki. Maður reynir að hægja aðeins á þessari elsku en ég veit af eigin reynslu að það er erfitt að sitja svona hjá, sérstaklega í ljósi þess að hún var tiltölulega nýbyrjuð í drottningarboltanum og er að finna sig svona déskoti vel í því.

Eitthvað var lítið af okkur í Skagamótsþættinum á Sýn í kvöld, rétt sást glitta í Loga Snæ og faðir hans sparka á milli sín bolta og þar með var það upptalið.

Stefnan sett á Grundarfjörðinn um helgina, annars verður þetta vonandi bara svona áfram í sumarfríinu. Lykilorðin eru: Sól, sund, shake, Subway og svolítill fótbolti.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ertu í fríi gamli...? Það er ég líka! Spurning að taka smá CopaAmerica á þetta? Það er að segja ef þú ert ekki kominn með sólsting í skallann...

Nafnlaus sagði...

Ekki vitlaus hugmynd, spurning um að finna góðan leik við tækifæri. Þú getur þá kannski hjálpað mér við að hreinsa húðflygsurnar úr skallanum, þessar sem eru farnar að flagna.