föstudagur, nóvember 30, 2007

Rúmið góða

Við hjónaleysin erum vitaskuld nettklikkuð, staðreynd sem erfitt er að mótmæla og engin áætlun um að gera slíkt hér.

Mjög snemma keyptum við rúm fyrir Ísak Mána, þ.e. eftir að hann hætti að vera í rimlarúminu. Af einhverjum ástæðum keyptum við rúm í fullri stærð að því að það átti að vera svo hagkvæmt, skella sér beint í eitthvað sem endist. Mín niðurstaða af fenginni reynslu í kjölfar þeirrar ákvörðunar: Tóm tjara.

Við erum að tala um 90x200 skrímsli fyrir smágrísling. Ef menn eru kunnugir hefðbundinni herbergjaútfærslu í Bakkahverfinu í Breiðholti þá vita menn að herbergin eru ekkert voðalega stór. Að auki fannst okkur sniðugt að kaupa svona rúm sem er á einhverri upphækkun, t.a.m. gat Ísak Máni (þegar við keyptum rúmið) staðið undir því og þar töldum við okkur vera að fá auka pláss sem annars væri ekki til staðar með hefðbundnu rúmi. Önnur tóm tjara. Við fullorðna fólkið þurftum alltaf að vera bogra undir þessu gímaldi til að tína saman dót, ryksuga o.s.frv. Heildarniðurstaðan að helv... gripurinn tók allt herbergið og við vorum aldrei almennilega sátt.

Síðan þá hefur þessi gripur þvælst á milli herbergja með allskonar heimagerðum breytingum. Þetta er orðið svo mikið að ég man ekki þetta ekki allt 100% en hérna er þetta helsta, svona til að gefa innsýn inn í okkar brenglaða hugarheim:

1. Kaupum gripinn og hann fer inn í herbergi B.

2. Færum gripinn inn í herbergi A, sem er breiðara og látum taka lóðrétt úr undirstöðunum (ég veit, hljómar illa) til að rúmið passi upp við gluggavegginn.

3. Sigga fær pabba sinn til að smíða upphækkun á undirstöðurnar (ég veit, hljómar ekki betur) svo hægt sé að hafa skrifborð undir rúminu.

4. Logi Snær kominn til sögunnar og rúmið fært á sinn upprunarlega stað í herbergi B. Undirstöðuhækkunirnar rifnar undan aftur en þær notaðar sem endargaflar í nýtt heimasmíðað rúm handa Ísaki Mána en Logi Snær fær gripinn sem er hér í aðalhlutverki. Báðir sofa í herbergi B. Fótagaflinn á nýja rúminu, sem var haft 70 cm breitt, fer undir meðalháa gamla gripinn og ekkert meira pláss í herberginu. Foreldrarnir pirraðir á ástandinu.

5. Báðar græjurnar tættar í sundur og styttar þannig að þær passi við gluggavegginn á þessu herbergi B og jafnframt er gamla gímaldið mjókkað í 70 cm. Heimatilbúnu undirstöðuhækkanirnar, sem núna eru rúmið hans Ísaks Mána eru einfaldlega skellt undir gripinn og útkoman: Koja sem passar í endann á herberginu og allt í einu er herbergið sem maður þurfti nánast að bakka út úr orðið risastórt. Foreldrarnir sáttir.

Þetta hefur verið í gegnum tíðina rugl mikil vinna sem hefur aðallega lent á smiðnum á heimilinu. Ægilegt púsluspil til að láta allt passa saman. Núna höfum við heitið því að það verður ekki losuð ein skrúfa á þessum sambræðingi nema þegar hann fer á haugana. Mér finnst það skiljanlegt, sérstaklega eftir lestur á þessum punktum hérna að ofan, að menn muni taka þeirri fullyrðingu með semingi.

Nú þurfum við bara að vona að það slitni ekki upp úr bræðrakærleiknum í nánustu framtíð og þeir fáist áfram til að sofa í sama herberginu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég vildi að ég væri svona flínk með sögina og hamarinn

Nafnlaus sagði...

Ég ætlaði nú ekki að vera nafnlaus.
Kv Inga