föstudagur, desember 26, 2008

Jólin 2008

Opnaði augun í morgun og leit á klukkuna. 9:30. Hlustaði eftir einhverju hljóði en heyrði ekki múkk. Allir sofandi á heimilinu og ég rölti fram úr til að athuga með drengina sem voru frekar myglaðir. Svona eru víst jólin en gaman til þess að vita að manni finnst hálf stjarnfræðilegt að sofa til hálftíu.

Annars eru jólin búin að vera alveg hreint fín, tiltölulega róleg stemming á aðfangadag en þannig vill maður hafa það. Ég þurfti reyndar að fara í vinnuna fram að hádegi en það var bara í góðu lagi. Mjög rólegt þar yfir og maður gat notað tímann til að hreinsa til í tölvupóstinum og þessháttar. Drengirnir voru meira og minna límdir við skjáinn þennan dag en víst lítið annað hægt að gera til að minnka kvölina í kringum biðina miklu. Sem fyrr var hamborgarahryggur á borðum hér og hann heppnaðist vel. Logi Snær heimtaði að fá að vera í jakkafötunum sem honum áskotnuðust hérna um daginn, reyndar í stærra lagi en það var algjört aukaatriði. Ísak Máni með mun minni áhyggjur af sparifatnaði og lét sér kasjúal fötin frá því í fyrra duga og ekkert nema gott um það að segja.





Ég fékk heila fjóra pakka, nokkuð gott bara. Veit nú oft fyrirfram um einhvern hluta af innihaldi þeirra og svo var það líka í ár. En það var reyndar einn sem ég var alveg týndur yfir og hafði ekki grænan grun um. Risastórt ferlíki frá tengdó. Ekki minnkuðu heilabrotin þegar pakkarnir frá þeim til hinna á heimilinu opnuðust einn af öðrum og upp komu hágæða ullarnærföt. Miðað við útlitið á pakkanum þá innihélt hann varla ullarnærföt eða hvað? Auðvitað hefðu þau getað pakkað ullarnærfötunum mínum í einhvern gamlan kassagarm og fyllt hann af krumpuðum dagblöðum, svona til að afvegaleiða mig. En, loksins komst pakkinn í mínar hendur og eftir nokkur fumlaus handtök kom innihaldið í ljós. Hágæðapottur, og ekkert eitthvað smáræði heldur 12 lítra kvikindi. Mér skilst að þar sem aðeins mitt nafn var á merkimiðanum þá verði aðrir heimilisbúar að biðja mig um leyfi ef nota á pottinn. Pottinn minn. Assskoti kom hún sér vel þessi gjöf því núna stendur 12 lítra potturinn hennar Guðrúnar sem við erum búin að vera með í láni í alllttttooooffff langan tíma á gólfinu í forstofunni hjá okkur, tilbúinn í að halda heim á leið.

Fengum Íslandsspilið í einum pakkanum. Við Ísak Máni tókum einn reynsluhring á því og það kom bara ágætlega út. Ísak fékk svo spurningu sem snérist um höfund ljóðsins Tíminn og vatnið. Þegar hann svaraði spurningunni rétt án þess að hika gat ég ekki annað en forvitnast nánar um vitneskju hans á ljóðskáldinu. „Pabbi, þetta stendur á Cheerios pakkanum.“

Mér fannst ég vera svolítið tekinn í bólinu...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahahaaaaaaa Davíð minn þú verður greinilega að fara lesa á umbúðirnr á þvi sem selur í vinnunni

Villi sagði...

12 lítra pott?? Til hvers í ósköpunum?

Nafnlaus sagði...

Segi það nú... 12 lítra? Á að fara að massa það í kjötsúpugerð í kreppunni?