þriðjudagur, desember 23, 2008

Kæst stemming

Búinn að vera hálftuskulegur þessa síðustu daga, það slæmt að maður tók trefilinn fram og spásserar með hann kvölds og morgna. Vona að það versta sé að baki og karlinn fari að hressast.

Skelltum okkur í Mosó á laugardeginum í skötu. Ansi magnað að þegar við renndum í hlað þá stóð pottur á hlóðum fyrir utan og þegar við stigum út úr bílnum fylltust vit okkar af skötuilmnum. Þetta nokkra stiga frost sem var úti var ekki nóg til þess yfirbuga kæstan ilminn. Auðvitað var matseðill fyrir okkur hin, saltfiskur og steiktur koli. Ég hef aldrei dottið inn í þessa stemmingu en þetta er ómissandi fyrir suma. Það var samt ekki annað hægt en að skella öllu því sem menn klæddust í þvottavélina þegar heim var komið. Kæst maður.

Við höfðum byrjað þennan laugardag á fótboltaæfingu hjá Ísaki Mána en þar sem þetta var síðasta æfing fyrir jólafrí þá var tekið létt á því, foreldrar vs. strákar. Það var því ekkert annað hægt en að reima á sig fótboltaskóna og láta finna fyrir sér eða svoleiðis. Karlinn skoraði glæsilegt mark sem vitaskuld náðist ekki á band en Ísak náði ekki að finna netmöskvana enda í stífri gæslu allan leikinn. Hann komast þó ansi nálægt því að setja´ann eins og náðist á band. Vil samt koma því á framfæri að markið í lokin taldi ekki því það var búið að flauta til leiksloka, maður gefur ekkert mörk í svona leik...

Gleðileg jól annars öll sömul.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól
Jólakveðja, Inga

Villi sagði...

Þvílíkt þrumuskot! Það hefði verið sætt að sjá skeytin-inn þarna. Frábært að sjá boltann tekinn svona viðstöðulaust, ekkert verið að taka boltann niður og gefa vörninni séns.

Villi