Mér finnst rétt að aðvara lesendur þessa pistils að innhald hans felur m.a. í sér lýsingar af uppköstum, niðurgangi og tengdum viðbjóði. Því vil ég benda viðkvæmum á að skella sér inn á einhverjar aðrar síður ef það treystir sér ekki í þetta.
Fórum í ferðalag þessa helgi. Forsaga málsins var sú að Sigga fór ein helgina þar á undan í réttir. Hluti af ástæðu þess að hún fór ein var að leiðindarveður var þá helgina og Loga Snæ fannst í kjölfarið hann svolítið svikinn. Þá var samið um það að ef veðrið yrði betra næstu helgina yrði málið skoðað að hann fengi að fara með mömmu sinni í eitthvað rollustúss. Þegar leið á vikuna var spáin svona allt í lagi og var stefnan tekin á þetta. Við hinir þrír sem eftir sátum veltum því fyrir okkur að kíkja til Grundarfjarðar á meðan, taka eina heimsókn svona áður en allar íþróttaæfingarnar hjá drengjunum fara á fullt og áður en menn þurfa að huga að færð á vegum o.þ.h.
En í vikunni kom smá babb í bátinn. Um kvöldmatarleytið á miðvikudeginum tók Daði Steinn upp á því að skila öllu magainnhaldi sínu sömu leið og það fór inn. Tók nokkrar spýjur eftir það, fyrst einhverju slímgummsi og svo tók græna gallið við. Hann svaf samt ágætlega um nóttina og daginn eftir var mamma hans með hann heima og strákurinn var alveg ágætur. Að því leytinu til að hann var ekki að skila neinum mat en vitaskuld var hann í hálfgerðum hægagangi. Ég var heima á föstudeginum, strákurinn þokkalegur og við ákváðum að vera ekkert að tvínóna við þetta heldur skella okkur öll af stað.
Planið var einfalt, stefnan sett á Baulumýri en þar fóru Sigga og Logi Snær úr en við hinir héldum áfram til Grundarfjarðar. Komum í fjörðinn um kvöldmatarleyti og hamborgarar á boðstólnum. Mér var búið að vera smá illt í maganum en það var fullkomlega eðlilegt þar sem eina sem ég var búinn að borða þann daginn var Cheerios í morgunmat, roast-beef samloka rúmlega 11 og svo eitthvað kex á leiðinni. Þetta var fullkomlega eðlilegt. Daði Steinn var reyndar með einhvern afturkreisting sem lýsti sér í því að ég var varla búinn að skipta á honum fyrr en ný sprengja kom með tilheyrandi mengun á samfellur og sokkabuxur. Við vorum því varla búnir að vera á svæðinu í klukkutíma þegar hann var búinn að skíta út, í bókstaflegri merkingu, flest af þeim fötum sem ég kom með fyrir hann. Svo vorum við bara að chilla fyrir framan sjónvarpið eftir matinn þegar ég fór að velta fyrir mér af hverju magaverkinn fór ekki, ég meina núna var ég búinn að borða og ætti því að vera góður.
Ég fann að þetta var ekki í lagi, svitaperlu fóru að kreistast fram úr enninu og ef það er hægt að segja að maður geti fundið fölleikann færast yfir sig þá var það þarna. Ekki var hægt að sitja við svo búið heldur skellti ég mér inn á kamarinn og settist á hann til að hafa það á hreinu. Ég man einu sinni eftir því að útvarpsmaður einn tilkynnti veikindi hjá samstarfsmanni sínum með þeim orðum að hann væri heima að „míga með rassgatinu“. Þetta lýsti vel stemmingunni. Ég staulaðist fram frekar myglaður og fór í það að koma Daða í rúmið. Notaði tækifærið og lagðist hjá honum aðeins til að slaka á en í þann mund hringdi konan. Hún heyrði að stemmingin var ekkert sérstök en hughreysti mig með þeim orðum að þetta væri þó á niðurleið en ekki uppleið. Ég var varla búinn að leggja frá mér símtólið þegar líkaminn öskraði á mig að hlutirnir væru ekki í lagi. Aftur staulast karlinn inn á náðhúsið og sest á postulínið. Rétt búinn að ganga frá málum og er í þann mund að standa upp þegar ég finn að uppleið nálgast. Næ að snúa mér við með ótrúlegri snerpu miðað við ástandið á karlinum um leið og ég sturta niður og skila kvöldmatnum í klósettið, sömu leið og hann fór inn. Það var greinilegt að salatblöð eins og voru á hamborgaranum þurfa lengri tíma en tvo til að meltast. Djöfulgangurinn var svo mikill að mér fannst réttast að henda mér í sturtu þegar öllu var lokið, þ.e. þegar ég var búinn að þrífa klósettið sjálft, gólfið, vegginn og hornið á baðkarinu sem er þarna við hliðina. Svo var lítið annað að gera en að staulast hríðskjálfandi upp í rúm þarna um hálftíu leytið, koma sér í fósturstellinguna og reyna að sofna. Verst var stöffið sem hafði þrýst sér upp í nefið og var farið að losna, lítið annað að gera en að drösla því fyrst niður í háls og svo áfram niður. Ekki hægt að segja að þetta hafi verið þægindasvefn en svo sem ekki nema tvær ferðir á klósettið, með mismiklum árangri.
Var slumpufær á laugardeginum, hélt tveimur ristuðum brauðsneiðum niðri ásamt einhverjum orkudrykkjum og kóki. Sigga hringdi svo í mig. Logi Snær hafði dottið í sama uppleiðarpakka og ég á föstudagskvöldið. Það var með einskærri lagni að hann var yfir klósettskálinni þegar gusan kom, það hefði ekki verið neitt sérstakt að fá allan pakkann yfir timburgólfið í Baulumýri. Mín megin hélt Daði Steinn áfram að gera í bleyjuna eins enginn væri morgundagurinn og þvottavélin og þurrkarinn voru langt í frá að halda við stórskotahríðinni hans, sem var í mýkri kantinum.
En sögunni er ekki lokið, ónei. Á laugardeginum vildi Ísak Máni fá að fara að kíkja á Sunderland - Man Utd. Ég var náttúrulega ekkert spes og Daði Steinn í engu ástandi til að verða skilinn eftir þannig að það var ekkert annað hægt en að senda frumburðinn á bæjarpöbbinn, Kaffi 59. Með 500 kall, nóg fyrir litlum skammti af frönskum og kók í gleri, fór hann einn á hlaupahjólinu sínu á pöbbinn. Svo, einhverju síðar, þegar ég var á leiðinni út í rusl með eina af mjúksprengjunum hans Daða mæti ég honum í dyrunum. Helfölum. Þá hafði karlgreyinu orðið illt og tekið eitt stykki uppkast á pöbbnum, kannski vel þekkt athöfn meðal gesta staðarins, en ekki ef þú ert bara 11 ára. Hann náði samt að bjarga sér, fékk Óla Sigga til að skutla sér heim og krumpaðist niður í sófann. Hann var nú orðin vel rólfær um kvöldið.
Allir svona la-la á sunnudeginum, við strákarnir fórum og sóttum Siggu og Loga Snæ og héldum áfram heim. Það var ekkert annað í stöðunni fyrir mannskapinn en að halda til sinna starfa í dag sem gekk ágætlega, Gatorade dröslaði mér í gegnum daginn. Það má því segja að við höfum gert okkar til að útbreiða pestina en samkvæmt síðustu fréttum hafa flestir komið betur út úr þessu en við.
Þetta var ljóta vitleysan.
mánudagur, október 04, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Ótrúlega lifandi lýsing á ástandinu. „Míga með rassgatinu” er náttúrulega virkilega nettur og skemmtilegur frasi. Einhver svona stuðstemming við þetta.
Faxe og lifrarpylsa fara bara ekki vel í maga, svo einfalt er það.
Takk Davíð ég er búim að missa lystina á seríjosinu mínu.....
Gott hjá ykkur að mæta með flensuna í Grundarfjörðinn, eða þannig :-)
En vonandi er heilsan orðin góð.
Skrifa ummæli