föstudagur, ágúst 26, 2011

Að kasta perlum fyrir svín

Karlinn steig aðeins út fyrir þekkingarkassann í vikunni og fór í laxveiði í fyrsta sinn. Eitthvað vinnudæmi sem kom upp og ekki annað en að láta sjá sig í það. Það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og farið í Norðurá í Borgarfirðinum. Ég þurfti að leita til nokkra reynslubolta með hvernig best væri að snúa sér í þessu og einn þeirra fór í það að lána karlinum græjur enda algjörlega tómur kofi heima hjá mér hvað þetta varðar. Hnussaði nú flestum þessum boltum og létu í það skína að þetta væri nú hálfgerð sóun á árbakkaplássi að skella svona grænjaxli eins og mér þangað. Ég hef nú líks ekki verið þekktur á þessu sviði, einhvern tímann dorgaði maður í Grundarfjarðarhöfn og fór nokkrum sinnum að veiða í einhverjum sprænum þarna í sveitinni, varla samt hægt að kalla það veiði. Ég hef líka haft mínar efasemdir um þetta, standandi út í læk í fleiri tíma með einhverja stöng, var ekki alveg að sjá pointið við þetta.

Þetta reyndist nú, þegar á hólminn var komið, alveg fínt. Bara svo við höfum það strax upp á borði þá veiddi ég ekki neitt enda heilt yfir frekar dauft í þeim efnum í ánni um þessar stundir. Í þessum 20 manna hóp veiddust 4 fiskar seinnipart miðvikudagsins og heilir 3 fyrripart fimmtudags þannig að tölfræðin var nú ekki með mér. Við vorum nú með einhvern guide sem leiddi okkur í gegnum þetta, sá sem var með mér á stöng var ekki mikið reyndari en ég en eitthvað þó. Þetta var nú samt ekki nóg til að ég sé kominn með einhverja bakteríu á háu stigi, maður þyrfti að vera aðeins öflugari í að kasta flugunni og þessháttar. Veit að ég fékk ekki mikið fyrir stíl í þeim efnum, þetta var meira svona stílbrot. Maður skynjaði þó kick-ið á þeim stundum þegar maður hélt að eitthvað væri búið að bíta á agnið, og að því leyti skil ég þetta alveg. Mér fannst svo ótrúlegt hvað tíminn flaug áfram í þessu öllu sem hlýtur að þýða að maður hafi nú ekki verið að drepast úr leiðindum.

Þegar ég kom heim þá var Logi Snær ekki heima, hafði skotist með afa sínum og ömmu í Reynisvatn. Og hann, annað en ég, hafði eitthvað til að sýna við heimkomuna.

1 ummæli:

Villi sagði...

Stundum fellur eplið smáspöl frá eikinni...