Byrjuðum föstudaginn snemma, eftir samdóma álit hjá okkar helstu álitsgjöfum og reynsluboltum í New York-ferðum og tókum Empire State Building á þetta. Fyrir þá sem til þekkja þá létum við okkur ekki nægja 86 hæðirnar sem er svona hefðbundni túrinn heldur fórum alveg upp á nr 102, en hærra komast menn víst ekki. Magnað að horfa yfir borgina í allar áttir. Eyddum svo deginum í rölt þarna í kringum 34. stræti í að skoða búðir og mannlíf. Byggingarnar þarna eru náttúrulega bara rugl. Enduðum svo inn á Hard Rock.
Lokadagurinn var svo tekin í að klára það sem eftir stóð á innkaupalistanum og frekari mannlífsúttektir með tilheyrandi kaffihúsastoppi, stungum m.a. tánni inni í Central Park bara svona til að hafa gert það. Svo var ekkert annað en að koma sér upp á flugvöll, áttum flug 20:35 og lentum um kl 06:30 í morgun að íslenskum tíma. Maður náði að sofa þokkalega í vélinni, eins þokkalega og hægt er að sofa í flugvél. Komum heim og pústuðum aðeins áður en farið var að sækja drengina. Dagurinn í dag er því búinn að vera nokkuð stífur og augnlokin þung eftir því. Þýðir ekkert að væla það, vinna á morgun og hversdagsleikinn tekur við á ný. Sem er bara fínt.
Skemmtileg ferð, að hugsa sér að þegar við vorum að spá í að fara eitthvað út í heim þessa helgi þá fékk ég í alvöru þá flugu í höfuðið að reyna að plata konuna til Manchester í verslunarferð og nota tækifærið og sjá borgarslaginn United - City. Það hefði nú verið sorglega stemmingin að þurfa að upplifa þessa 1:6 flengingu á staðnum. Þá var nú betra að vera bara staddur á Times Square þar sem ekki nokkur maður hafði áhuga á soccer.
1 ummæli:
1-6 ??? Hvað ertu að tala um??? Manchester slag??? Hvenær var hann? Er hann búinn??? Ég veit ekki hvað þú ert að tala um. GO YANKEES
Skrifa ummæli