Utandeildinni lauk í síðustu viku, þ.e. riðlakeppninni. Sumarið endaði ekki nógu vel fyrir okkur, tap í siðasta leik þýddi 7. sæti í riðlinum (af 11 liðum) á meðan jafntefli eða sigur hefði dugað okkur í 5. sæti. Meira moð en í fyrra þar sem við vorum einu marki frá því að komast í úrslitakeppnina en reyndar vorum við í sterkari riðli í ár. Þokkalega sáttur við mína frammistöðu en var reyndar nánast á annarri löppinni í síðustu leikjum sumarsins sökum ökklameiðsla sem sér ekki fyrir endanum á. Spurning hvernig næsta sumar verður, ljóst er að formaður klúbbsins er að flytjast búferlum í sveitina og því staða formannsins líklega á lausu. Stefnan er að sett á að bögglast í þessu a.m.k. eitt ár í viðbót, enda karlinn kominn á þann aldur að líklega er best að taka bara eitt ár í einu.ÍR - 2.deild
ÍR-ingar höfðu sett stefnuna á að komast upp um deild enda gáfu 3 efstu sætin í 2. deildinni sæti í 1. deildinni að ári sökum fjölgunar í úrvalsdeildinni. Leit vel út lengi sumars en ljóst var að baráttan um þessi þrjú sæti stæði á milli Hauka, Selfoss, KS/Leifturs og ÍR. 5 jafntefli í síðustu 5 leikjunum var dýrkeypt þegar upp var staðið, í fjórum þessara leikja voru þeir með 1 og 2ja marka forystu þegar skammt var eftir af leikjunum en tókst trekk í trekk að glopra leikjunum niður í jafntefli. 4. sætið í deildinni staðreynd og klárt mál að það verður erfiðara að komast upp á næsta ári, þar sem bara tvo liði fara upp og nú verða 12 lið í deildinni en ekki 10. Það verður athyglisvert að sjá hvern þeir fá til að þjálfa liðið fyrir næsta sumar og hvort hópurinn verður eitthvað styrktur, stefnan hlýtur að vera sett á 1. deildina.Liðin sem verða í 2. deildinni á næsta ári eru:
Reynir Sandgerði
ÍR Reykjavík
Afturelding Mosfellsbær
Höttur Egilsstaðir
Völsungur Húsavík
ÍH Hafnarfjörður
Magni Grenivík
Grótta Reykjavík
Víðir Garði
Hamar Hveragerði
Hvöt Blönduós
Tindastóll Sauðárkrókur
Valur - Úrvalsdeild
20 ára bið eftir meistaratitlinum lauk loksins í gær. Get ekki sagt að maður hafi verið fyrirmyndarstuðningsmaður þetta árið, fór bara á einn leik í sumar, lokaleikinn á móti HK þar sem þeir tryggðu sér titilinn. Hlutirnir þróast þannig að hverfisklúbburinn togar æ meira í, sem er kannski ósköp eðlilegt þegar maður er orðinn talsvert tengdari inn í innvið hans á meðan maður er svolítið eins og krækiber í helvíti á Valsleikjunum, þekkir ekki hræðu þar. Taugarnar samt sterkar á Hlíðarenda, það verður alltaf þannig. Það verður gaman að fara á nýja völlinn á Hlíðarenda næsta sumar, þetta tveggja ára dæmi á Laugardalsvellinum er ekki búið að vera nógu sniðugt og aldrei að vita nema maður fari á fleiri en einn leik næsta sumar.