sunnudagur, september 09, 2007

Fótbolti...F-Ó-T-B-O-L-T-I

Helgin búin að vera einn fótbolti eða svo gott sem. Byrjaði strax á föstudagskvöldinu þegar við Logi Snær viðruðum okkur og hittum hinn helming fjölskyldunnar á leik ÍR - KR í meistaraflokki kvenna, við Logi létum síðari hálfleikinn duga en hinn helmingur gat ekki annað en tekið allan leikinn. 0:8 tap fyrir Breiðhyltinga og framundan nánast úrslitaleikur við Þór/KA um veru í deildinni að ári.

Ísak Máni var svo að keppa í Egilshöllinni með ÍR á laugardeginum, hans síðasta mót í 7. flokki. Þrír leikir, tvö töp og eitt jafntefli en strákurinn var alla leikina í marki og stóð sig eins og hetja, pabbinn var þvílíkt sáttur þarna á hliðarlínunni. Þetta er ekki minna stress en að spila sjálfur, meira ef eitthvað er en rosagaman. Vona bara að guttanum haldi áfram að finnast gaman af þessu sjálfur, það er víst frumskilyrðið fyrir þessu öllu. Við feðgarnir smelltum okkur svo á Laugardalsvöllinn til að sjá Ísland spila við Spánverja. Frábær skemmtun í rigningu og roki og okkar menn 4 mínútum frá 1:0 sigri en 1:1 varð niðurstaðan.

Stefnan hafði verið sett aftur á ÍR völlinn í dag til að sjá heimamenn etja kappi við Mosfellinga en stórveldið úr Breiðholti er í harðri baráttu við KS/Leifur um sæti í 1. deildinni að ári. Við komuna á völlinn blasti hinsvegar við okkur fáni í hálfri stöng og ekkert merki um að leikur væri þarna að fara í gang. Þegar við fórum að grenslast fyrir um þetta þá kom í ljós að þjálfari liðsins, Ásgeir Elíasson, hafi orðið bráðkvaddur þá um morguninn og skiljanlega leiknum frestað. Minnir mann sem fyrr á að það er ekkert öruggt í þessu lífi og því er best að njóta dagsins á meðan maður getur.

Kvöldið í kvöld fór svo í spilamennsku hjá undirrituðum þegar Vatnsberar spiluðu við FC Dragon í margfrægu utandeildinni en ekki fór það á besta veg, 2:0 tap staðreynd í döprum leik að okkar hálfu. Tveir leikir eftir í sumar og ljóst er að niðurstaðan verður líklega miðjumoð í riðlinum okkar, vonandi ekkert verra en það.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Endilega alltaf merkja svona færslur vel svo ég slysist ekki til að lesa þær... TAKK FYRIR