mánudagur, september 03, 2007

Skottúr til Suðureyrar

Hvað er hægt að gera þegar manni er boðið í skírnarveislu á Suðureyri annað en að mæta? Veislan boðuð á sunnudegi þannig að það var hægt að taka helgina í þetta. Fjölskyldan lagði af stað um þrjúleytið á föstudeginum úr Reykjavík og hélt sem leið lá vestur á firði. Eftir að hafa stoppað á Búðardal, þeim geysiskemmtilega stað, til að næra sig þá var komið til Suðureyrar rúmlega níu um kvöldið. Fengum þetta fínasta hótelherbergi, reyndar var enginn bátur innifalinn, en prýðisgott. Laugardagurinn fór í dundur í rigningunni, rúntað yfir á Ísafjörð og þessháttar.


Skírnardagurinn rann svo upp en skírnin var heima hjá Ella og Jóhönnu og haldin í hádeginu svona fyrir okkur ferðalangana held ég. Súpa og brauð og kökur á eftir, einfalt og gott. Svo var lítið fyrir okkur að gera annað en að ferðbúast á ný og halda heim. Fengum aukaferðalang með okkur en mamma kom með í bæinn eftir að hafa verið þarna fyrir vestan síðan á mánudag. Keyrt í einum rykk í Borgarnes, rúmir fjórir tímar, fyrir utan eitt stutt ferskt-loft-stopp eftir að Logi Snær hvítnaði og ældi smá eftir einhvern malarófögnuðinn. Sjoppufæði í Borgarnesi og komin bæinn sex tímum eftir brottför, um klukkan níu.

Þá var farið beint upp í Æsufell til að kíkja á Gullu og athuga stöðuna á flutningunum. Þar var allt á réttri leið þrátt fyrir mikið af kössum sem víst var búið að útvega eftir alkunnri leið á Akranesi, í ríkinu. Hinsvegar setti það flutningana í talsverðan bobba að drykkja Skagamanna var ekki nóg og því þurfti Gulla að fara á biðlista eftir kössum. Brá hún á það ráð að halda gott kennarapartí og það var ekki að sökum að spyrja, nóg fékk hún af kössunum. Vodka, Becks, Bacardi ... nefndu það, hún á kassann.


Það var því frekar þreytt stemming í Eyjabakkanum í morgun eftir allt þetta helgarbrölt. Enn finnst mér alveg ótrúlegt hvað drengirnir eru duglegir í svona bílferðum, biði ekki í þetta ef þeir væru ekki að „höndla“ þetta svona vel. Ég held samt að ég sé ekki að fara keyrandi aftur í helgarferð á Vestfirði í bráð.

Og já... Aron Kári.

1 ummæli:

Villi sagði...

Ha, kennarapartí? Hef ekki heyrt orð um þetta. Gulla sem sagðist hafa farið í Kassagerðina...???