þriðjudagur, september 11, 2007

Daprar fréttir

Hver önnur óhuggulega andlátsfréttin sem dynur á manni, ekkert kannski alveg beint tengt manni en samt þó. Ég er búinn að minnast á Ásgeir Elíasson, ÍR þjálfara, hér á síðunni. Sömu helgi varð sömuleiðis bráðkvaddur ungur maður í veiðiferð en sá hafði verið verslunarstjóri í Bónus, tveggja barna faðir. Ég þekkti hann ekkert en aðrir strákar í vinnunni, þeir sem eru tengdari Bónus, þekktu hann vitaskuld. Svo var þriðja dæmið unga konan, sem vann með Tomma frænda, sem varð bráðkvödd. Tveggja barna móðir.

Er von að maður spyrji sjálfan sig?

Sá svo í Fréttablaðinu í morgun tilkynningu um að gamli bekkjarbróðir minn og æskufélagi, Úlfur Chaka Karlsson, hafi lútið í lægra haldi fyrir hvítblæði. Hann bjó á Hagamelnum eins og ég og við brölluðum margt saman þegar við vorum guttar en þegar ég flutti vestur í Grundarfjörðinn þá slitnuðu tengslin og ég hafði ekki séð hann í mörg ár. Hafði reyndar ekki hugmynd um að hann hefði verið að berjast við hvítblæði í einhver ár fyrr en ég rak augun í auglýsingu um styrktartónleika handa honum sem haldnir voru síðastliðinn fimmtudag. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri svona stutt í endalokin hjá kappanum.

Maður heldur í minningarnar um góðan dreng.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll Davíð,

ég rak augun í bloggið þitt þegar ég var að "googla" hann úlla. Við í gamla c-bekknum hittumst í gær, sunnudag, til að minnast hans og skrifa minnigargrein um kappann. Því miður vissum við ekki hvernig við gátum haft samband við þig en það væri mér sönn ánægja að setja þig á póstlistann okkar.

Kær kveðja, gamli c-bekkingur.

Arnar Steinn
arnarsteinn@gmail.com