föstudagur, desember 25, 2009

Skilaboð?

Aðfangadagur jóla í gær. Gekk nokkuð vel fyrir sig. Hinsvegar olli einn pakkinn (reyndar var hann tvískiptur) smá hugarangri. Allir hinir pakkarnir voru svona jólapakkar en þessi var aðeins öðruvísi, þ.e. þegar við vorum búin að opna hann. Svona meira ef-ég-væri-að-gifta-mig-pakki.

Veit ekki alveg hvaða skilaboð tengdó er að senda.
„Hérna er gjöfin sem ég er búin að ætla gefa ykkur þegar þið mynduð dröslist upp að altarinu, nú bíð ég ekki lengur en þið megið alveg drífa nú í þessu.“

Nammivélin í Nettó

Velti því fyrir mér á þessari síðu fyrir nokkrum árum (djö... hljómar þetta kempulega) hvort hinn almenni ungviður sem væri að stunda íþróttir væri frekar að horfa til þeirra efnislegu gæða sem afreksmenn í íþróttum eru oft aðnjótandi, meira heldur en það andlega kikk sem kæmi við það að sigra í kappleikjum eða skara fram úr á sínu sviði.

Logi Snær kom til mín eftir að hafa verið að horfa á þátt í seríunni um Atvinnumennirnir okkar með eldri bróðir sínum og tilkynnti mér að Hermann Hreiðarsson, knattspyrnumaður með meiru, væri sko flottur gaur. Hann ætti risastórt hús með sundlaug út í garði sem væri með rennibraut. Einnig ætti hann marga bíla og svona prik til að nota á grænu borði (snookerborð) og tölvuleikjatæki og nammivél eins og er í Nettó. Ástæðan? Hann fær svona mikla peninga fyrir að spila fótbolta.

Illa hefur gengið að fá Loga til að nýta orku sína í einhverja íþróttatengdar æfingar. Spurning hvort ég gæti notað þetta sem hvatningu?

„Ef þú ferð á æfingar og verður rosalega duglegur að æfa þig þá getur þú mögulega keypt nammivélina í Nettó...“

fimmtudagur, desember 24, 2009

Beðið eftir jólum

Styttist í þetta, búið að redda því mesta sem þurfa þykir. A.m.k. var jólasteikin komin í hús, þá hlýtur þetta að vera komið langleiðina.



Það er þá lítið annað að gera en bara chilla og bíða eftir að blessuð klukkan slái sex.

föstudagur, desember 11, 2009

Týndi sonurinn snýr heim

Allen Iverson snéri heim til Philly á dögunum eftir 3ja ára fjarvera í tómu rugli. Grét hjartnæmum gleðitárum á blaðamannafundi og allt í gangi en toppstykkið á karlinum hefur nú alltaf verið hálftæpt. Sixers liðið hefur nú verið í tómu rugli það sem af er tímabilinu, tapað 11 leikjum í röð og þar af tveir eftir að kóngurinn kom aftur.

Held samt að hann sé búinn með sitt besta, enda fær kappinn líklega ekki meira en samning út tímabilið. Vona reyndar að ég hafi rangt fyrir mér í báðum þessum atriðum. Svíður enn svolítið tapið í úrslitunum 2001 á móti Lakers, unnu fyrsta leikinn í framlengingu en töpuðu svo næstu fjórum og áttu í raun lítinn sjéns. Eftir það hefur Iverson ekki komist nálægt hringnum góða.

Engin djúpstæð ástæða fyrir þessum skrifum, fékk bara netta gæsahúð þegar karlinn var kynntur í sínum fyrsta leik á móti Denver:

fimmtudagur, desember 10, 2009

Skólalok


9. desember er liðinn. Búinn að setja punkt fyrir aftan HR. Allavega kommu en punkt í bili, löngu bili.

Skólinn er sem sagt búinn og þetta diplómadæmi líklega komið í hús. Hættulegt að tala svona þar sem ég var bara að klára síðasta prófið í gær og hef vitaskuld ekki fengið niðurstöður úr því. Held að þetta hafi samt gengið alveg þokkalega.
Þessi síðasti kúrs var klárlega með stífasta vinnuálaginu, stórt verkefni og maður er búinn að vera frekar lítið heima hjá sér síðustu vikur. Ef maður á að tína til eitthvað jákvætt við það þá hefur maður séð heldur lítið af sjónvarpi og hef lítið heyrt af Icesave og tengdum málum.

Núna ætla ég bara að chilla takk fyrir, held að ég eigi það alveg skilið. Gaman að geta komið heim eftir vinnu og þess háttar. Grunar reyndar að sumir fjölskyldumeðlimirnir séu sáttir við endalokin á þessu, eða ég vona það a.m.k.

sunnudagur, nóvember 22, 2009

Skutlast norður og heim aftur

Skelltum okkur norður til Akureyrar um helgina. Jú, jú, Ísak Máni var að keppa, hvað annað fær okkur til að rífa okkur upp úr sófanum og þeysast um landið, körfubolti var það núna. Í þetta skiptið var einn-fyrir-alla-allir-fyrir-einn þema, þ.e. allir fjölskyldumeðlimir voru tjóðraðir niður í bílinn með aukaföt í tösku, hvort sem þeim líkaði það betur eða verr. Pöntuðum svefnpokapláss í tvær nætur fyrir fimm manna fjölskyldu hjá Hótel Jóhönnu og fengum rúmlega það. Fengum alla fjórðu hæðina útaf fyrir okkur og matur innifalinn. Greiddum fyrir það með einum Cocoa Puffs 690 gr pakka, sem við átum að mestu leyti sjálf, ekki slæmur díll það.

Körfuboltinn gekk svona upp og niður, fer svona eftir hvernig menn líta á það. Allir leikirnir þrír töpuðust en mínum manni gekk nokkuð vel. Ekki stór hópur sem fór norður og einhverja „lykilmenn“ vantaði svo aðrir í liðunu þurftu að stíga upp og skila af sér meiri ábyrgð. Menn læra bara af því.


Full mikill tími sem fer í það að keyra norður en var samt nokkuð auðvelt, hversu þversagnakennt sem það kann að hljóma. Drengirnir þrír stóðu sig allir vel í bílnum þrátt fyrir að enginn ferða-DVD spilari sé með í för. Menn verða bara að lesa og dunda sér og svo er iPodinn notaður til að slá upp partýi þegar þurfa þykir. Og allir komu heilir heim.

sunnudagur, nóvember 08, 2009

Að gera næstum í buxurnar

Kíktum í stutta heimsókn í Grundarfjörð um helgina, ákváðum að nýta okkur sæmilega hagstaða veðurspá sem og þá staðreynd að Ísak Máni er að fara keppa tvær næstu helgar ásamt því að undirritaður er staddur undir lokin á vikufríi í skólanum.
Bara almenn rólegheit að mestu leyti í firðinum en helst var það að frétta að Daði Steinn tók eitt „skref“ í sinni eigin framþróun um helgina má segja. Hann var búinn að komast upp á lagið með að draga sig áfram og var aðeins farinn að fikta við næsta stig, það að skríða á fjórum fótum. Veit ekki hvort sveitaloftið gerði honum svona gott eða hvað en allavega sýndi hann miklar framfarir í skriðinu. Svo miklar að mamman var klár með myndavélina en pabbinn var ekki alltaf að kveikja.
Meðfylgjandi myndbrot náðist um helgina. Til að útskýra aðstæður þá var eitt stykki fartölva við hinn enda borðsins, ofan á dúknum sem kemur við sögu. Fyrir framan tölvuna sat pabbinn frekar niðursokkinn og áttaði sig hvorki á því að Daði Steinn væri á ferðinni né að verið væri að mynda herlegheitin.

laugardagur, nóvember 07, 2009

Smá áhyggjur

Ég get ekki neitað því að hafa smá áhyggjur af færasta knattspyrnumanni þjóðarinnar. Hafði smá blendnar tilfinningar þegar ég heyrði að hann hefði samið við Monaco en eftir einhverja umhugsun var alveg hægt að réttlæta þetta. Karlinn kominn af léttasta skeiði kannski, búinn að taka flott skref í gegnum ferilinn eftir meiðslin hérna í den, Bolton - Chelsea - Barcelona. Var ekki bara flott að taka smá furstadæmi á þetta? Taka á því þar í tvö ár með hagstæða skattastefnu og allir sáttir?


Eyddi hérna góðum tíma í kvöld að horfa á Monaco - Grenoble í franska boltanum. Eiður Smári hoppaði beint inn í byrjunarliðið eftir að hafa misst af þremur leikjum vegna meiðsla og fyrir fram átti þetta að vera kjörinn leikur. Grenoble búnir að tapa fyrstu 11 leikjunum sínum í deildinni og voru einum tapleik frá því að jafna eitthvað franskt met í getuleysi. Rakið dæmi til að setja sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn og komast almennilega í gang í Frakklandi. Hvað getur maður sagt, varla hræða á pöllunum og 0:0 niðurstaða í almennum leiðindum. Reyndar stóð ég upp á 60. mínútu þegar Smárinn var tekinn af velli og ákvað með semingi að skipta frekar bara um stöð en ekki grýta fjarstýringunni í tækið. Ákvað samt að skipta ekki yfir á Barcelona - Mallorca sem fór víst 4:2 á kjaftfullum Nou Camp.

Djö... ætla ég að vona að þetta fari að detta fyrir karlinn, það eru tóm leiðindi að hafa þetta svona.

fimmtudagur, nóvember 05, 2009

Af mér og mínum

Maður er á lífi á þessum síðustu og verstu en hef það bara nokkuð gott. Merkilegt nokk. Síðustu vikur hafa verið nokkuð stífar, alltaf eitthvað verið að dunda sér í HR og var einmitt í prófi núna á mánudaginn. Það gekk bara fínt og núna er bara einn kúrs eftir og sá pakki klárast með prófi 9. desember. Þá er ég góður í bili, læt það duga enda verð ég að viðurkenna að maður er kominn með svolítið upp í háls. Þetta er náttúrulega algjört rugl að vera eyða helgunum upp á Þjóðarbókhlöðu eins og trefill. En þetta er verkefni sem maður ákvað að ráðast í og maður klára það bara.
Svo þykist maður vera í stjórn húsfélagsins sem stendur í þvílíkum framkvæmdum að það hálfa væri nóg með tilheyrandi fundarhöldum og almennu stappi. Í miðri kreppu!
Karlinn var líka með hálfgerðan hnút í maganum þegar hann kom heim eftir fund vegna fótboltans hjá Ísaki Mána núna í kvöld og þurfti að tilkynna konunni að hann væri kominn í foreldraráð í fótboltanum...

Annars er allt þokkalegt. Ísak Máni æfir eins geðsjúklingur, bæði í fótbolta og körfuboltanum og maður sér fram á næstu helgar undirlagðar mótum út um allt land þess vegna. Logi Snær er ekki alveg eins íþróttalega sinnaður en er þó í íþróttaskólanum einu sinni í viku. Daði Steinn er að verða efnilegur, nánast vonlaust að líta af honum enda farinn að reyna ýmsar kúnstir án þess að ráða nokkuð við það og getur því endað með skell ef aðrir eru ekki á tánum.

föstudagur, október 09, 2009

fimmtudagur, október 08, 2009

Engin vanvirðing en...

Þegar ég byrjaði að láta sjá mig niðri í HR þá var alltaf einhver hluti af skólafólkinu í jakkafötum og voru í einhverjum þvílíkum viðskiptafræðikúrsum að manni leið eins og hálfvita með hor. Nánast eins og maður hefði komið með rútunni frá sambýlinu. Bara til að hafa það á hreinu þá hefur hardcore viðskiptafræði aldrei kveikt neitt í mér. En þetta átti allt að vera svo skothelt hjá þessu liði, þetta var bara spurning hvort menn færu að vinna hjá Kaupþingi, Landsbankanum eða Glitni.


Var að gúffa í mig samloku í einu hléinu um daginn niðri í skóla þegar jakkafatastóð kom niður stigann. Eitt þeirra kannaðist við einn af þeim sem sat við borðið mitt. Þeir fóru eitthvað að spjalla um í hvaða erindagjörðum þeir væru þarna. „Ég er í verðbréfamiðlun“ sagði jakkafötin.

Þetta hljómaði einhvern veginn ekki eins glæsilega eins og þegar ég steig fyrst inn í HR.

fimmtudagur, október 01, 2009

Dagbók fótboltabullunnar - Sumarið 2009

Ég ákvað það í vor að halda lista yfir fjölda skipta sem ég færi á völlinn í sumar. Klikkað? Já, en ég er klikkaður. Þetta eru þeir meistaraflokksleikir sem haldir voru á vegum KSÍ, þ.e. inn í þessu eru ekki utandeildarleikir sem ég tók þátt í eða var á hliðarlínunni og ekki þeir leikir/mót sem Ísak Máni tók þátt í.

Svona lítur þetta út:

11. maí Kórinn 1. deild karla
HK - ÍR 3:1
- Fyrsti leikur sumarsins og við Ísak Máni skelltum okkur í Kórinn. Slagveðursrigningin gerði það að verkum að maður var guðs lifandi feginn að leikurinn var færður inn í Kórinn sökum leikjaálags á Kópavogsvelli. Erfiður leikur fyrir okkar menn og greinilegt hvort liðið spilaði í efstu deild og hvort í þeirri annari árinu á undan.

15. maí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Selfoss 2:5
- Fyrsti heimaleikurinn og að sjálfsögðu lét maður sig ekki vanta, ný sæti komin í stúkuna í Breiðholtinu. Villtur varnarleikur og Ingó úr Idolinu meðal markaskorara hjá sveitaliðinu.

29. maí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Leiknir 2:1
- Baráttan um Breiðholt part I. Þrátt fyrir að lenda undir komu mínir menn sterkir til baka og kláruðu Breiðholtsslaginn.

6. júní Laugardalsvöllur Undankeppni HM
Ísland - Holland 1:2
- Keypti 3 miða fyrir mig, Ísak Mána og mögulega Loga Snæ. Sá fram á það að Logi hefði lítið að gera þarna svo við tókum Kjartan, vin hans Ísaks með. Sátum á móti steikjandi sól allan tímann svo derhúfurnar og sólgleraugun komu sér mjög vel. Ísland átti aldrei möguleika í léttleikandi lið Hollands og 1:2 gáfu ekki rétta mynd af gangi mála.

11. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Afturelding 2:1
- Vinnufélagi að spila á kantinum með Mosó þannig að það dró ekki úr manni að mæta. Sá spilaði vinstra megin í fyrri hálfleik en færði sig yfir á þann hægri í síðari og var alltaf fjær okkur úr vinnunni sem mættum á pallana. Kannski of mikil pressa að vera með vinnufélagana alveg ofan í sér? Fékk eitthvað fyrir allan peninginn, ÍR komst í 2:0 og Mosómaður með rautt fyrir tveggja fóta tæklingu alveg fyrir framan okkur. Átti að vera þægilegt en ÍR-ingar hafa verið lítið fyrir það síðust ár. Afturelding fékk víti en skutu yfir áður en þeir minnkuðu muninn einum færri og nagandi lokamínútur fóru í hönd.

14. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Víkingur R. 2:4
- Sigga og strákarnir í Baulumýri og ég rölti og kíkti á þetta. Nóg af mörkum en að öðru leyti dapurt.

17. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - HK 3:1
- Sigga og co enn í Baulumýri og ekkert annað að gera en að taka þetta út. Elías Ingi Árnason, markakóngur klúbbsins frá því í fyrra sem hafði farið til úrvalsdeildarliðs ÍBV og fengið að spila þar heilar 55 mínútur í allt sumar kom aftur „heim“ en byrjaði á bekknum. Ekkert varð af endurkomu Gunnleifs Gunnleifssonar landsliðsmarkvarðar í lið HK fyrir þennan leik eins og hafði stefnt í á tímabili. Miklu betri leikur hjá breiðholtsbúum heldur en fyrri leikur liðanna og þrátt fyrir að lenda 0:1 eftir einhverjar 5 mínútur komu þeir sterkir til baka og kláruðu leikinn. Elías lék síðustu 6-8 mínúturnar og fékk tvö góð færi, líklega tveimur fleiri en allan ferilinn hjá ÍBV.
Ekki nóg með að leikurinn væri hin besta skemmtun heldur gat ég nú ekki annað en skemmt mér konunglega með umræðurnar hjá unglingsstúlkunum sem sátu í næstu sætum við mig. Ein var mikið að pæla í hversu rosalega einn leikmaður HK væri líkur frænda sínum þangað til hún álpaðist til að kíkja í leikskránna og fattaði að þetta var frændi hennar, með tilheyrandi píkuskrækjum. Svo var allskonar umræða um hvort Gunna væri kominn með kæró, hvort kona gæti átt tvíbura með tveimur mönnum, hvort áðurnefndur Gunnleifur eða Hannes markvörður Fram væri betri (sem þær kölluðu Helga í nokkrar mínútur áður en þær kveiktu) o.s.frv.
Sem sagt: Menn fengu eitthvað fyrir allan peninginn í þessum leik.

23. júlí ÍR völlur (gervigras) 3. deild karla
Léttir - Afríka 0:1
- Var á fundi niðri í ÍR-heimili út af móti sem Ísak Máni var að fara á. Ísak Máni fór með og fylgdist með þessu leik, m.a. vegna þess að Dóri þjálfarinn hans var að spila með Léttismönnum. Fundinum var lokið í hálfleik og ég tók fyrstu 20-25 mínúturnar í seinni hálfleiknum. ÍR-ingar höfðu fengið þetta Léttisnafn lánað fyrir sumarið og sendu inn B-lið í 3ju deildina. Það sem ég sá var ekki merkilegt.

28. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Þór 1:0
- Kíkti með Loga Snæ og Ísak Mána á völlinn og við tókum Svein Brynjar með okkur. Létt rigning allan tímann en þokkalega hlýtt, pollagallar á línuna var eina vitið. Fyrsti leikur sumarsins sem ÍR hélt hreinu í deildinni, sem var ansi ótrúlegt enda sóknarþungi norðanmanna ansi hreint hressilegur. En það hafðist.

2. ágúst Hlíðarendi VISA-bikar karla
Valur - KR 1:3
- Lágmark að taka alla vega einn leik með Val á hverju sumri. Fannst tilvalið að skella mér þegar brotið var blað í knattspyrnusögunni á Íslandi þegar spilað var um verslunarmannahelgi. Við Ísak Máni fórum í þessari rjómablíðu og létum grilla á okkur nefið. Valsarar yfir í hálfleik en hlutirnir fóru að gerast í seinni hálfleik. Sitt hvort rauða spjaldið á lið og víti fyrir KR, hlutirnir ekki að detta með þeim rauðklæddu og KR fór í undanúrslitin.

14. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Fjarðarbyggð 0:1
- Fór í grillveislu á vegum vinnunnar með fjölskylduna og komst því ekki á völlinn fyrr en eitthvað var liðið á síðari hálfleikinn. Kom þó nógu snemma til að sjá mark Fjarðarbyggðarmanna en annað var ekki boðlegt. Spjallaði við aðra vallargesti á leiðinni af vellinum sem fullyrtu að fyrri hálfleikurinn hefði verið verri en sá síðari. Það var kannski eins gott að maður var bara rólegur í steikinni og náði að tyggja vel áður en maður lét sjá sig. Fjórða neðsta sætið staðreynd og orðið óþægilega stutt í fallsæti.

17. ágúst Valbjarnarvöllur Pepsi-deild karla
Þróttur - Valur 0:1
- Kíkti með vinnufélaga, sem er Köttari, í Laugardalinn. Tvö lið sem hafa ekki sýnt mikið í sumar og gerðu það ekki í þessum leik. Fyrsti sigur Valsara í talsverðan tíma en í fimm leikjum liðsins á undan hafði aðeins komið eitt stig í hús. Bjarki Gunnlaugsson kom inná í fyrsta sinn fyrir Val. Þótt leikurinn væri ekki merkilegur þá var gaman að Kötturunum, alltaf nett gleði þar á bæ þrátt fyrir að sæti í 1. deildinni hafi orðið ansi raunverulegt með þessu tapi.

18. ágúst Varmárvöllur 1. deild karla
Afturelding - ÍR 3:3
- Stórfurðulegur leikur sem við Ísak Máni urðum vitni af. ÍR fékk tvö færi á fyrstu mínútunum en lögðust svo í dvala í 70 mínútur eða svo. Voru 3:0 undir í hálfleik en náðu að laga stöðuna þegar korter var eftir. Afturelding fékk víti í stöðunni 3:1 en það var varið. Svo á síðustu þremur mínútunum settu gestirnir tvö kvikindi og náðu jafntefli á einhvern lygilegan hátt.

21. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Haukar 3:0
- Flottur leikur gegn toppbaráttuliðinu úr Hafnarfirði og 6 stig í hús gegn þeim í sumar. 3:0 í hálfleik en minnugur síðasta leiks þá tók maður engu gefnu. Seinni hálfleikurinn leið þó nokkuð þægilega í gegn án þess að mikið gerðist, hægt að færa rök fyrir því að það væri hið besta mál.

22. ágúst Fylkisvöllur Pepsi-deild karla
Fylkir - Fjölnir 2:2
- Sá nú reyndar ekki nema tæplega síðasta hálftímann í þessum leik. Ísak Máni fékk að fara með sjúkraþjálfaranum sínum og fékk að vera fluga á vegg í búningsklefa Fylkismanna klukkutíma fyrir leik. Ætlaði svo að koma heim en honum var boðið að vera boltastrákur í leiknum sem hann þáði. Ég kíkti sem sagt aðeins á þetta, fannst þetta ekki nógu spennandi leikur til að taka hann frá fyrstu mínútu. Sá svo helminginn af mörkunum þannig að ég var bara góður.

4. september ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - KA 2:0
- Fór með Ísaki Mána og Loga Snæ. Hrútleiðinlegur fyrri hálfleikur og sá síðari ekki mikið skárri fyrir utan mörkin tvo. Toppurinn var að fá Pepsideildarmyndirnar drengjanna af Elías Inga í ÍBV-búningi áritaðar í lok leiksins.

12. september ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Víkingur Ólafsvík 4:3
- Uppskeruhátíð knattspyrnudeildar ÍR var haldin fyrir þennan leik. Víkingarnir voru fallnir fyrir þennan leik en ÍR-ingar öruggir með 1. deildarsæti sitt að ári. Sigga og Daði Steinn höfðu farið í Baulumýri m.a. til að taka upp kartöflur en aðrir fjölskyldumeðlimir fóru á uppskeruhátíðina. Eftir hana var þessi leikur en veðrið var ekkert sérstakt, gekk á með rigningarsudda og eftir bragðdaufan fyrri hálfleik þar sem ÍR var 2:0 yfir var ákveðið að halda heim í hálfleik enda menn (sérstaklega Logi Snær) orðnir frekar drullugir og blautir. Það var því alveg týpískt að seinni hálfleikurinn var hádramantískur spennutryllir. Víkingar komu víst sterkir í seinni hálfleikinn og settu þrjú kvikindi áður en ÍR-ingar náðu að skora tvisvar, á 86. og 93. mín. Mér var nær að setja menn ekki strax í pollafötin sem voru by-the-way út í bíl.


Svona til að súmma þetta upp, 17 leikir en þar af voru 8 sigurleikir hjá mínum liðum, 2 jafntefli og 7 töp. Náði 12 leikjum af 22 hjá ÍR í deildinni, það er bara nokkuð gott held ég. Gaman að þessu, að vera svona klikkaður.

miðvikudagur, september 30, 2009

HRollur

Ég verð að viðurkenna að það fór um mig nettur hrollur í dag þegar sjálfvirka hurðin í Háskólanum í Reykjavík opnaðist og ég gekk inn. Kannski var það unaðshrollur, er ekki alveg viss. Tveir kúrsar eftir og 9. desember er dagurinn sem horft er til, líklegast réttast að klára þetta verkefni sem maður tók að sér. Það var fínt að sjá aftur andlitin sem maður þekkti frá því í vor. Svo náði ég líka eina eintakinu af kennslubókinni sem var á bókasafninu og sparaði mér því 8.490 kr. Maður verður víst að bjarga sér í kreppunni. Það er þó ekki hægt að segja annað en að þessi kúrs byrji vel.

þriðjudagur, september 15, 2009

Í ruglinu

Ég rífressaði afruglarann minn um daginn og inn duttu Eurosport og Eurosport2, af hverju veit ég ekki. Síðustu daga hef ég notið góðs af því og tók upp á því að detta inn í US Open mótið og fylgst með svona með öðru. Jú, jú, tennis.
Prófaði að æfa þetta sport í smátíma hérna í den í Grundó þegar nýja íþróttahúsið reis forðum daga. Ástralski enskukennarinn dró fram spaðann og kenndi okkur þetta sport. Reyndar var frekar fúlt að gólfflötur íþróttahússins er bara rétt svo rúmlega einn tennisvöllur sem setti okkur óneitanlega skorður í því að stunda sportið eins og á að gera það.

Hvað um það, mér þótti í byrjun frekar meira spennandi að fylgjast með stelpunum á US Open, kannski er alltaf meiri drama í kringum þessar elskur. Það var ekki annað hægt en að hrífast með þessari endurkomu hinar belgísku Kim Clijsters sem kom, sá og sigraði eftir 2ja ára hlé frá íþróttinni. Magnað líka með þessa staðreynd að hún sé fyrsta móðirin sem sigrar eitt af hinu fjóru stóru mótum síðan 1980.
Allavega, úrslitaleikurinn í karlaflokki var í gær og ég var nú svo sem alveg rólegur. Við áttust Davíð og Golíat, hinn tvítugi Del Potro frá Argentínu og sigurvegari mótsins síðustu fimm ára, hinn svissneski Roger Federer. Ég sýndi góð tilþrif á fjarstýringunni og horfði m.a. á heilan CSI:NY þátt á meðan leik stóð. Var bara kominn á það að fara að sofa en spennan var hreinlega orðin óbærileg. Eftir rúmlega 4ra tíma maraþonleik stóð guttinn uppi sem sigurvegari og ég skreið alltof seint upp í rúm. Djö... magnað.

Ekki fyrir hvern sem er

3/5 hlutar fjölskyldunnar voru heima um síðastliðnu helgi á meðan 2/5 fóru í sveitina. Meirihlutinn fór á rúntinn niður í bæ og mættu á ferð sinni þar svona tveggja hæða „sightseeing“ rútu, fulla af túristum myndi ég giska á.

Ísak Máni: „Pabbi, getum við einhverntímann farið í svona strætó?“
Pabbinn: „Humm...“
Logi Snær: „Jáááááá, mig langar í svona strætó.“ Smá þögn en hann hélt svo áfram: „En við erum ekki einu sinni Pólverjar!“

Ég er að segja það, 5 ára er snilldaraldur.

fimmtudagur, september 10, 2009

Gullkorn úr leikskólanum


-Klikkið á myndirnar til að stækka-

miðvikudagur, september 09, 2009

Tímasetningar

Núllníunúllníunúllníu. Flott dagsetning, mjög töff fæðingadagur og nýjasti Haraldssonur Hallsteinssonar fannst tilvalið að mæta á svæðið í dag. Því bíða eitthvað fram í október?

Einhvern tímann ekki svo alls fyrir löngu kom til umræðu að gifta sig núllfjórirnúllníunúllníu. Með kyrrþey-ívafi minnir mig, en samt ekki beint í kyrrþey. Varð alla vega aldrei meira en hugmyndarskissa á teikniborðinu. Staðan er sem sagt óbreytt.

Þangað til næst...

þriðjudagur, september 08, 2009

Tímaskekkja?

Ég kom heim í dag og komst að því að þar hafði verið stunduð jólainnpökkun af einhverjum krafti fyrr um daginn. Eitthvað hringsnérist í hausnum á mér og ég leit á klukkuna til að reyna að átta mig á stað og stund. Mun samt örugglega hugsa með þakklæti til þessa dags þegar jólapakkarnir verða allir teknir fram tilbúnir með góðum fyrirvara fyrir jól og ég get afslappaður einbeitt mér að því að innbyrða jólin.

miðvikudagur, ágúst 26, 2009

Komdu með kylfur en enga krakka

Datt niður á þessa mynd á Daily Mail í fréttinni um slagsmálin og lætin í leik West Ham og Millwall í gær. Þegar ég sá myndina þá mundi ég eftir að hafa verið staddur á þessum pöbb í fyrra og þá var rólegheitarstemming á svæðinu, annað en í gær. Fórum hins vegar af þessum bar yfir á The Boleyn og þar voru bullurnar, maður lifandi. Krúnurakaðir gaurar í sveittum West Ham treyjum hellandi bjór yfir hvorn annan og kyrjandi söngva sem ég gat ekki fyrir mitt litla líf fengið nokkurn botn í nema það að þetta voru ekki kurteisisvísur um önnur lið í deildinni. Gat nú ekki fundið neina mynd af þeim stað í fréttinni, reikna með að þær hafi verið eitthvað blóðugri eins og sumar myndanna þarna. Meiru vitleysingarnir, ég er allavega búinn með Upton Park, reyndar bæði kylfu- og krakkalaus, en kom tiltölulega heill heim.

laugardagur, ágúst 22, 2009

V.I.P. meðhöndlun

Ég veit ekki hvort það er að maður á svona mikið af börnum eða hvað en einhvern veginn virðist það vera þessa dagana að það eina merkilega sem gerist er eitthvað í gegnum börnin.

Ísak Máni er hjá sjúkraþjálfara, einu sinni í viku. Ekkert alvarlegt svo sem en Ísak fer til hans til að láta teygja á sínum stuttu vöðvum. Þessi sjúkraþjálfari hefur verið í tengslum við meistaraflokk Fylkis í fótbolta og Ísak Máni hafði notað þessi sambönd sín til að fá íslensku fótboltamyndirnar sem hann er að safna áritaðar, þ.e. myndirnar af Fylkismönnunum. Svo fór það að sjúkraþjálfarinn spurði hvort Ísak vildi ekki koma bara fyrir einhver heimaleikinn og kíkja á þetta, fá restina áritað o.s.frv. Þið getið ímyndað ykkur að drengurinn var alveg að kaupa þessa hugmynd og menn mæltu sér mót í dag, á leik Fylkis og Fjölnis. Ég skilaði drengnum af mér í anddyrinu á Fylkisheimilinu góðum klukkutíma fyrir leik, með bunka af Fylkis- og Fjölnismyndum meðferðis. Þar sem þessi ágæti sjúkraþjálfari ætlaði bara að vera með í undirbúningnum en ekki í leiknum sjálfum þá hafi ég ráðgert að pikka drenginn upp fyrir upphaf leiksins og halda heim á leið, fyrir mér var Fylkir-Fjölnir ekkert rosalega spennandi. Fékk svo upphringingu skömmu fyrir þann tíma þar sem Ísak Máni tilkynnti mér að það vantaði boltastráka á leikinn og honum hefði verið boðin sú staða í leiknum. Ég rúllaði því þarna upp eftir og tók síðasta hálftímann á leiknum og hitti svo drenginn eftir leik, helsáttur með fullan vasa af árituðum Fylkis- og Fjölnismyndum.

Körfuboltanámskeið hjá Val og boltastrákur hjá Fylkir, ÍR-ingurinn fer víða í reynslusöfnun. Sem hlýtur að teljast besta mál.