föstudagur, apríl 13, 2007

Bræðurnir og snuddurnar

Seinni part vetrar þegar Ísak Máni var á þriðja ári þá var farið að ræða það að hann myndi hætta að nota snuddur. Einhversstaðar í þessum umræðum innan fjölskyldunnar þá var ákveðið að þegar sumarið kæmi þá myndi hann hætta þessari notkun fyrir fullt og allt. Voru allir, þ.a.m. Ísak Máni sáttir við þessa niðurstöðu. Mig minnir að foreldrar hans hafi nú ekkert mikið velt sér upp úr því hvernig ætti að standa að þessu að öðru leyti, né hvernig framkvæmdin ætti verða þegar sumarið kæmi.

Að morgni sumardagsins fyrsta þetta ár, 2002, skreið drengurinn upp í rúm til foreldra sinna með snudduna sína. Svo var eitthvað verið að ræða um lífið og tilveruna og upp kom umræðan um sumarið, að nú væri sumarið komið. Hann var nokkuð spenntur með það en talaði jafnframt um það hvort það væri því tími kominn að kveðja snuddurnar. Við játuðum því vitaskuld og þá tók drengurinn sig til, dreif sig úr rúminu og safnaði saman þeim snuddum sem hann átti, fór fram í eldhús og henti snuddunum í ruslið. Og þar með var þeim kafla í lífi hans lokið án þess að það hafði nokkra eftirmála. Aldrei bað hann meira um snuddur þannig að þessi endalok voru algjör draumur í dós.

Logi Snær er aðeins á eftir bróður sínum því hann er víst orðinn þriggja ára og finnst enn voða gott að totta snuddurnar sínar. Kerfið var þó orðið þokkalegt fyrir nokkru, hann var aldrei með þetta nema þegar hann fór að sofa á kvöldin. En svo varð hann veikur og þá datt hann í eitthvað rugl og fór að nota þetta í tíma og ótíma. Við erum að reyna að fá hann til að samþykkja að hætta með snuddurnar þegar sumarið kemur, gengur ekkert rosalega vel. Hann er alveg samþykkur því að hætta með snuddurnar, ef það felur í sér að sá tímapunktur sé einhvern tímann seinna.

Nú styttist í sumarið, spurning hvað gerist.

Engin ummæli: