miðvikudagur, apríl 11, 2007

Football... bloody hell

Þá er einvígið sem ég vissi ekki hvernig ég átti að takast á við lokið. Ég hef þurft þennan sólarhring síðan síðari leiknum lauk til að jafna mig. Fyrri leikurinn sem spilaður var á Ítalíu var skrítinn, Scholes rekinn út af eftir rúmlega 30 mínútur og 1:2 tap United staðreynd. Mér leið rosalega furðulega allan leikinn. Fann ekki fyrir neinu þegar Scholes fékk rauða spjaldið né heldur þegar Roma komst yfir. Leið eiginlega hálfilla bara, vissi að það skipti engu máli hvað myndi gerast, ég yrði aldrei alveg sáttur. Leið reyndar vel með markið sem United skoraði, fannst það gefa seinni leiknum smá meira gildi.


Seinni leikurinn var sem sagt í gærkvöldi. Ég var farinn að undirbúa mig undir það að Roma kæmist áfram og reyndi að sjá kosti þess fyrir United. Meiri hvíld fyrir lokabaráttuna í ensku deildinni o.s.frv. Hvað getur maður sagt? 7:1 fyrir United. Þetta er náttúrlega ekki í neinu samhengi við raunveruleikann. Í stöðunni 5:0 í byrjun seinni hálfleiks var mér orðið flökurt og farinn að grátbiðja um að leiknum yrði hætt. Þetta var orðið meira en nóg og óþarfi að snúa hnífnum í sárinu. Aftur og aftur. Ef þeir hefðu verið að spila við eitthvað annað lið þá hefði hlakkað í mér fyrir allan peninginn en þetta var ekki gott. Svona vont-gott en óþarflega mikið vont.


En United er sem sagt komið í undanúrslit meistaradeildarinnar og tímabilið er búið fyrir Roma. Ég hafði loksins látið verða af því og verslað mér United treyju daginn sem fyrri leikurinn fór fram. Hann tapaðist eins og fyrr segir 2:1 og síðan spiluðu þeir við Portsmouth í deildinni og töpuðu líka 2:1. Mér var alveg hætt að lítast á þetta og var staðráðinn í að skila treyjunni ef þessi leikur myndi tapast líka, og hvað þá 2:1. En þetta fór eins og það fór og það er því allt í lagi með treyjuna.

Hitt var svo að ég held að Gunni hennar Ingu hafi verið á vellinum í gærkvöld. Ef svo er rétt, hvernig er hægt að grísa á svona leik, ég bara spyr? Ekki það að kappinn hafi ekki verið nýkominn af Old Trafford og séð 4:1 sigur á móti Bolton. Svona karlar...

Næst þegar Gunni fer á Old Trafford þá vil ég fara líka.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyrðu... Ég vil líka fara þegar Gunni fer

Nafnlaus sagði...

Mikið rétt, kallin var á leiknum og fór síðan til Liverpool og sá sigurleikinn þar, svona geta sumir verið heppnir.