fimmtudagur, apríl 19, 2007

Endalok snuddunnar?

Myndin sem fylgir þessum pistli sýnir Loga Snæ sofandi í rúminu sínu eftir að hann sofnaði núna í kvöld. Aðalatriðið við þessa mynd er að drengurinn er snuddulaus með öllu sem verður að teljast óvenjulegt. Eins og ég nefndi hér í pistli um daginn þá var ákveðið að athuga stemminguna núna sumardaginn fyrsta sem er jú í dag. Sigga ræddi þetta eitthvað við hann í morgun og sem fyrr var hann alveg til í að hætta með snudduna en með ákveðnum fyrirvörum: "Á morgun" sagði hann við mömmu sína. Síðar um daginn fékk hann sumargjöfina sína, forlátan Buff-klút sem svo skemmtilega vill til að hann er með á hausnum á myndinni. Þegar honum var afhentur klúturinn þá gekk móðir hans á hann og sagði að nú þyrfti hann að henda snuddunum sínum. Okkur til mikillar furðu þá fannst honum það alveg sanngjarnt og gekk í það mál, náði í þessi tvö eintök sem hann átti eftir og fór með þær í ruslið.

Móðir hans var ekki alveg að treysta þessu og kom því í kring að snuddurnar færu nú ekki alveg í ruslið heldur upp í skáp, án vitneskju Loga vitaskuld. Svo leið dagurinn án þess að þetta kæmi eitthvað sérstaklega til tals en foreldrarnir voru með smá hnút í maganum vitandi það að eitthvað yrði sagt þegar tími kæmi til að fara að sofa. Mamman var svo heppin að vera stödd á fótboltaæfingu þegar sá tími kom upp svo að pabbinn þurfti að tækla þetta mál.

Það var grátið smá en aðallega vorum við bara litlir í okkur og vissum ekki alveg hvernig við áttum að vera. Drengurinn vildi fá bækur til að hafa í rúminu en vildi svo ekki hafa þær. Hann vildi vatnsglas í rúmið en vildi svo ekki hafa það. Hann vildi svo fá aðra sokka og aðrar buxur en þær sem hann var í. Svo vildi hann fá Buffið sitt til að hafa á hausnum og sagði svo: "Pabbi, þú passar mig".

Nú verður athyglisvert að sjá hvort þetta gengur allt upp og sumardagurinn fyrsti verður alþjóðlegi snudduhættidagurinn í þessari fjölskyldu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flottur Logi

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn, mikið er Logi duglegur, eins og stóri bróðir.
Kveðja, Inga