Áður en lagst var til hvílu í gær voru eggin falin svo Jóhanna og hin börnin gætu leitað að þeim á páskadagsmorgun. Þetta er víst hluti af spennunni segja þeir. Ég hef aldrei skilið hvaðan þessi siður kom upp, þetta var aldrei þegar ég var lítill. Man hins vegar vel eftir fyrstu kynnum mínum af þessum sið. Kannski ekki rétt að segja að ég muni vel eftir því vegna þess að ég man ekki hvað ég var gamall og ég get heldur ekki sagt að ég muni hvar ég var né heldur með hverjum ég var. Hljómar geðklofningslega, ég veit. Það sem ég man er að þetta var í einhverju sumarhúsi eða bústað og eins og fyrr segir hjá einhverju fólki sem ég þekkti ekkert. Tel helst að þetta hafi verið eitthvað tengt Danna æskuvin en er þó ekki viss, man þó að ég var einn með einhverju fólki. Hvað um það, þarna var ég og einhverjir krakkar sem ég þekkti ekki neitt. Allir með páskaegg en þar sem ég var einhver afgangsstærð þarna þá fékk ég páskaegg eftir því, eitthvað lítið og aumt. Öll eggin voru svo falin og þetta var einhver stemming sem ég þekkti ekki. Þekkti sömuleiðis lítið staðhætti þarna og var langsíðastur að finna mitt egg, allir hinir orðnir þreyttir á að bíða því enginn mátti byrja á sínu fyrr en öll eggin voru komin í leitirnar. Loksins eftir smávísbendingar fann ég eggómyndina sem mér var úthlutað en leið eins og asna svo ekki sé meira sagt.
Aftur í núið, hérna fundu allir eggin sín eftir ánægjulega leit og engin sem fékk ör fyrir lífstíð á sálina sökum þessarar framkvæmdar að ég tel. Reyndar gekk Jóhönnu eitthvað brösulega með þetta en eftir að mamma sá auman á henni og gaf henni vísbendingu þá rambaði hún loksins inn í örbylgjuofninn og fann herlegheitin.
Annars held ég að þessi blessaða hátíð hafi tekið einhverjum breytingum á ekki svo löngum tíma. A.m.k. datt mér ekki til hugar að taka með mér sparifötin vestur, var meira bara sveittur í joggingbuxum og bol. Eina kristilega tengingin núna var að ég vaknaði eitthvað fyrir kl. 8 í morgun við kirkjuklukkurnar þegar verið var að minna fólk á messuna. Ég bölvaði bara í hljóði og velti mér yfir á hina hliðina.
Myndir komnar inn á myndasíðuna.
1 ummæli:
Flottur svona tannlaus, og ég hefði heldur ekki látið þetta stoppa mig í súkkulaði átinu :-)
Kveðja, Inga
Skrifa ummæli