Helgin var nokkuð þétt hjá karlinum. Var búinn að sjá fyrir einhverju síðan að hún yrði þétt. Boltinn að byrja og ég ætlaði að kíkja á völlinn bæði á laugardaginn og sunnudaginn. Einnig átti Ísak Máni að spila á tónleikum og svo var ég eiginlega búinn að lofa mér á Old-boys fótboltaæfingu hjá Fylkir. Þannig að það var ljóst að dagskráin yrði þétt.
Karlinn var hinsvegar settur í smáhnút þegar betri helmingurinn tilkynnti að hvað hana varðaði þá yrði þessi helgi rolluhelgi, einhverja 200 km að heiman. Það var því ekki annað fyrir undirritaðan að taka ákvörðun um að gera bara það nauðsynlegasta og sleppa hinu því það væri of mikið vesen. Það var ekki hægt að láta það spyrjast út um sig að vera eitthvað að væla. Reyndar blés ég fótboltaæfinguna af strax en ákvað að keyra á allt hitt. Dröslaði mannskapnum á tónleikana hjá Ísaki Mána á laugardeginum en hafði smá áhyggjur af Daða. Tímasetningin var nefnilega nánast hin sama og hádegismatur/lúr hjá honum. Það gekk hins vegar allt saman, farið heim og mannskapurinn fékk sér að borða. Svo var haldið upp í Mosó til að horfa á Visa-bikarinn, Afturelding - Grundarfjörður. Svolítið dejavú frá 2007 en samt ekki. Aðallega ekki vegna þess að ég var ekki að spila í þetta sinn og svo tapaði Grundó bara 3:0 þetta árið en ekki 10:1 eins og 2007. Daða var plantað í vagninn og það gekk bara helv... vel.
Sunnudagurinn tók á móti okkur með bongó-blíðu. Létta leiðin hefði verið að taka næstsíðustu umferðina í ítalska á netinu frá kl 13:00-15:00 og fylgjast svo með lokaumferðinni í enska í beinu framhaldi. Þar sem líkurnar á dollu eru litlar í ítalska og voru óraunhæfar í enska þá var ákveðið að fylgja upprunarlega planinu, þ.e. kíkja á fyrsta leikinn í 1. deildinni, Grótta-ÍR. Ég reyndi að taka sama plan og daginn áður, hélt Daða aðeins lengur vakandi en venjulega og henti svo bara vagninum í skottið og hélt út á Seltjarnarnes. Ekki gekk lúrinn hjá drengnum alveg eins vel í þetta skiptið, veit ekki hvort sólin var svona erfið eða misgáfuleg köll stuðningsmanna Gróttu fóru illa í menn. Hann var alla vega ekki til í að kúra í vagninum þannig að ég þurfti að hafa aðeins fyrir honum en sá svo sem allflest í leiknum. Þar sem markvörðurinn hjá ÍR fékk rauða spjaldið á börunum í blálokin þurfti að bæta við einhverjum 10 mínútum við leikinn. Það þýddi að við þurftum að hraða okkur upp í Breiðholtið aftur þar sem Ísak Máni átti að fara í aukatíma í píanó því hann er að fara í próf í þeim fræðum á morgun. Það rétt hafðist á umsömdum tíma.
Hér sé fjör.
sunnudagur, maí 09, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
OFURPABBI!!!!
Klárlega ofurpabbi og þess vegna get ég farið allar helgar í sveitina, he, he.
Skrifa ummæli