þriðjudagur, júlí 20, 2010

Bullandi hiti í bullandi hita

Helgin var nokkuð góð. Ákváðum, reyndar ekki fyrr en á föstudeginum, að fara ekki neitt og taka bara blíðuna í borginni frekar en að skottast eitthvert á bílnum. Við vorum greinilega í minnihlutahóp því það fór svo að hvert sem við fórum um helgina til að sleikja sólina þá var þar minna af fólki en venjan er, sem var bara mjög þægilegt. Ísaki Mána var reyndar boðið í tjaldvagnaútilegu með félaga sínum og fjölskyldu hans sem hann þáði en við hin fundum okkur eitthvað annað til dundurs. Við Logi Snær fórum á ÍR völlinn á föstudeginum og svo var tekið snemmt sund á laugardeginum áður en Húsdýragarðinum voru gerð góð skil. Áður en við fórum svo heim að grilla vildi Logi endilega taka einn snöggan útsýnishring upp í Hallgrímskirkju og tók mömmu sína með sér. Eitthvað var Daði Steinn orðinn tuskulegur eftir allt þetta saman og við nánari mælingar var ljóst að kappinn var kominn með vænan skammt af rúmlega hita.

Aftur var mælt á sunnudagsmorgninum og staðan á drengnum verri ef eitthvað var. Það var því ljóst að hjólreiðatúrinn í Nauthólsvíkina sem hefði átt að vera að veruleika varð að bíða betri tíma. Plan B var að fara með Loga Snæ í sund og fórnaði ég mér í það verkefni á meðan Sigga og Daði Steinn voru heima. Ekki var samt hægt að hanga allan daginn inni með sjúklinginn og því var tölt niður í Elliðaárdal þegar hann tók lúrinn í vagninum sínum, það var hægt að vaða og þessháttar. Það hittist svo á að þegar við vorum að nálgast útidyrnar hjá okkur eftir þá ferð var Ísak Máni að renna í hlað eftir útileguna sína.

Í gær var farið með Daða Stein til læknis. Eyrnabólga og lyfjaskammtur í takt við það.

Ekki það að sögunni sé lokið því Logi Snær var orðinn eitthvað skrítinn líka. Samt var keyrt á prógrammi dagsins. Hjólaði upp í skólagarða með Ísaki en þaðan var labbað niður í Mjódd til að fara í bíó með skólagarðakrökkunum. Labbaði aftur upp í skólagarða til að ná í hjólið sitt og hjólaði heim. Labbað með mömmu sinni niður í Mjódd og heim aftur áður en hann fór hjólandi á fótboltaæfingu. Var víst frekar „afslappaður“ á æfingunni en þurfti samt að hjóla heim aftur að henni lokinni. Mældur áðan og niðurstaðan var svipuð og hjá yngri bróðir hans, fullmikið hitastig.

Og svo er bara spáð rigningu um næstu helgi í Grundarfirði ofan á allt. Það eru víst skin og skúrir í þessu öllu.

1 ummæli:

Jóhannan sagði...

úpps..... vona að drengirnir hressist fyrir helgi