föstudagur, apríl 20, 2007

Áhugaleysi með öllu

Fór allt í einu að spá í það hversu slappur ég er í framhaldsþáttainnlifun. Ég er alltaf að heyra af fólki sem var að kaupa sér seríu nr eitthvað af einhverjum æðislegum þætti, efni sem sá hinn sami gæti ekki hugsað sér að lifa án. Eða einhver sem var að hala niður af netinu heilu og hálfu seríunum af uppáhaldsþáttum sínum. Oftar en ekki þekki ég ekki innihaldið, rétt svo að nafnið hringi einhverjum bjöllum. Ég fór því að rifja upp hvaða þætti ég horfi á í sjónvarpinu, af þessum helstu framhaldsseríu þáttum og kom þá ýmislegt í ljós. Ég get varla nefnt nema tvær seríur sem ég get sagt í fullri alvöru að ég glápi á, við erum þá að tala um að ég þekki helstu aðalleikarna og viti um hvað málið snýst. Dett stundum inn í Without a Trace sem er á RÚV og svo er það C.S.I. sem mér finnst gaman að.

En hvað með alla hina, þetta sem allir eru að downloada og/eða versla sér á DVD? Ég setti upp smálista af þeim þáttum sem mig rámar í að teljist merkilegir í kassanum þessar vikurnar og ákvað að láta reyna á það hversu mikil vitneskja mín væri um þessa þætti.

Þetta er nú ekki tæmandi listi en er svona það sem ég man eftir:

Grey´s Anatomy

Aldrei séð svo mikið sem hálfa mínútu úr þessu þætti. Einhver læknadrama í ætt við ER, án þess að ég hafi hugmynd um það.

The Simpsons

Horfði talsvert á ævintýri Simpsons fjölskyldunnar frá Springfield þegar þetta var að byrja þarna um 1990 ef ég man rétt en missti fljótlega áhugann á þessu og get varla sagt að ég hafi séð meira en svona glefsur síðasta áratuginn eða svo.

24
Held að ég hafi séð samanlagt kannski svona hálftíma af ævintýrum Jack Bauers, ef ég hef nafnið hans rétt. Held að hann sé einhver FBI gæi eða eitthvað þvíumlíkt og lumbri á einhverju óþokkalýð. Mig minnir að þátturinn heiti 24 af því að hver þáttur gerist í rauntíma og er því í raun einn klukkutími en hver sería innihaldi 24 þætti, sem sagt einn sólarhringur í lífi Jack. Er samt ekki viss.

Lost
Vitneskja mín um þessa þætti kemur aðallega frá því þegar sjónvarpsstöðin sem sýnir þessa þætti er að sýna úr næsta þætti. Hópur fólks á einhverri eyðieyju. Hvernig það komst þarna og um hvað málið snýst? Ekki grænan grun.

Heroes
Sama má segja um vitneskju mína á þessa seríu og Lost hérna á undan. Allskonar fólk sem þekkist ekki neitt en hefur einhverja ofurkrafta. Hér virðist málið vera að bjarga einhverri klappstýru sem engin veit hver er. Eða eitthvað.

Desperate Housewives
Hef séð svona hálfan þátt hér og þar en get ekki sagt að þetta heilli mig neitt. Sápuópera um fallegt fólk sem býr í fallegum húsum í hverfi einu í henni Ameríku.

The O.C.

Sætir krakkar með sæta kroppa glíma við allskonar djúpstæð vandamál, einhver Beverly Hills 90210 og Melroses Place sambræðingur að ég tel. Hef ekki enst í að horfa á neitt af þessu.

Vona að ég hafi ekki móðgað neinn þarna úti með þessu áhugaleysi mínu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hhehehehehe

Nafnlaus sagði...

Þú gleymir aðalseríunni maður
NÁGRANNAR come on maður.... ég er búin að fylgjst með í rúm 14 ár

Villi sagði...

Ja, þú virðist nú þekkja hnotskurnina í hverjum þætti skolli vel. Ert kannski laumuglápari...

En hvar eru allir bresku þættirnir? Allir flottu lögguþættirnir þeirra. Svo Kumars á númer 42, Ab Fab, Ballykissangel, litla Bretland o.s.frv. Síðan er Doc Martin nú með kostulegri þáttum.

Nei, Davíð, það verður bara að segjast að þessi listi þinn er alveg sorglega amerískur.