miðvikudagur, mars 12, 2014

Bikarmeistari 2014

Ísak Máni og félagar í 9. flokki ÍR í körfuboltanum komust í bikarúrslitaleik KKÍ sem spilaður var um síðustu helgi.
Þeir slógu út Val, Þór/Grindavík og Skallagrím/Reykdælir á leið sinni í úrslitaleikinn.  Þar mættu þeir Njarðvík, sem hafði á leið sinni slegið út annars vegar Keflavík sem óumdeilanlega er með sterkasta liði í árgangnum og Fjölnir sem sömuleiðis er mjög sterkt.  Þannig að ljóst var að þetta yrði að öllum líkum alvöru leikur.
Spilað var þetta árið í Grindavík en KKÍ setur þetta upp, eins og HSÍ reyndar líka, að bikarúrslitaleikir yngri flokkanna eru spilaðir yfir helgi og allir á sama stað.  Umgjörðin var mjög flott og vel í þetta lagt, leikskrá, leikmannakynning fyrir leik og svo var splæst í þjóðsönginn.  Það má sjá -HÉR-  Svo var þetta í beinni útsendingu á netinu og gamla kempan, Guðmundur Bragason lýsti leiknum.  Eftir leikinn var verðlaunaafhending þar sem topparnir hjá KKÍ afhentu verðlaunin.
Þetta var fyrsti leikur dagsins, kl 10:00 um morguninn svo að nokkrar vekjaraklukkur á heimilinu voru stilltar og Logi og Daði fengu úthlutað næturplássi kvöldið áður þannig að þeir fengu alveg frí frá þessu.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og fór svo að staðan var 25:25 í hálfleik.  Njarðvíkingar sigu svo fram úr í 3ja leikhluta og ég verð að viðurkenna að mér var alveg hætt að litast á blikuna, það virtist vera frekar græn stemming yfir öllu.  Bláklæddu Breiðholtsbúarnir hrukku þá í gírinn þegar á þurfti og lönduðu fimm stiga sigri, 54:59.  Fyrsti titill ÍR í yngri flokkum körfubolta síðan 2004 skilst mér. 


Ísak Máni hitti kannski ekki á leik lífs síns en djöflaðist í varnarvinnunni á þeim mínútum sem hann fékk, skítavinnan er víst nauðsynleg í þessu líka.  Og leikurinn vannst sem var vitaskuld fyrir öllu.

Gleði og hamingja...





sunnudagur, febrúar 23, 2014

ÍR - Grindavík 77:89

Bikarúrslit í körfunni í gær og ÍR á svæðinu ásamt Grindavík.  ÍR síðast í þessum sporum árið 2007 og hirtu þá dolluna.  Ég var reyndar ekki á svæðinu þá, var ekki orðinn alveg all-in í þessu en Ísak Máni fór reyndar þá með núverandi leikmanni ÍR og fjölskyldu hans.
ÍR tókst að komast í bikarúrslitaleikinn núna án þess að mæta einu einasta úrvalsdeildarliði, sem mér skilst að sé í fyrsta sinn sem það gerist.  Vorum klárlega litla liðið komandi inn í þennan leik en menn höfðu girt sig í brók eftir ömurlegt gengi fyrir áramót og allt annað að sjá til liðsins eftir áramót.  Maður sá þetta alveg fyrir sér sem möguleika, þ.e. að hirða dolluna.

Klár í stúkunni
Stemming þrátt fyrir allt
 Ólíkt 2007 þá var betri mæting núna hjá þessari fjölskyldu, alveg 4/5 sem mættu en Daði Steinn fékk að chilla hjá ömmu og afa í Mosó enda lítið fyrir hann að gera í Laugardalshöllinni.  Logi Snær var í hópi þeirra sem fékk að leiða aðalliðið inn á völlinn fyrir leik, það var stemming í kringum það.  Að standa á fjölum Laugardalshallar og hlusta á íslenska þjóðsönginn er sem sagt komið í reynslubankann hjá þeim stutta, toppiði það.

Logi Snær og #11 Kristófer Stefánsson
Logi Snær að skima upp í stúku og Svenni Claessen, aka Hr. ÍR, í bakgrunni á afmælisdeginum sínum, sem fór reyndar ekki eins og best var á kosið
Búinn að finna mömmu í stúkunni
En þetta gerist s.s. ekki, ÍR komst reyndar í 5:1 en Grindvíkingar voru sterkara liðið í leiknum og ÍR var alltaf að elta.  Þótt það munaði lengi vel þetta 5-8 stigum þá komust menn aldrei nær en það.
Það er alltaf næst...

fimmtudagur, febrúar 20, 2014

sunnudagur, janúar 05, 2014

Áramótin og endalok jóla

Þá er enn einum áramótunum lokið.  Mér finnst eins og það sé alltaf styttra á milli þessara tímamóta, kannski er það bara ég.  Æsufellið var það eins og hefur verið yfirleitt venjan þessi síðustu ár.  Maturinn góður og útsýnið ekki síðra:


Kvöddum svo jólin með brennu og flugeldasýningu upp í Mosó í gær, menn eitthvað að þjófstarta þessi endalok þetta árið.  Sem er nú svo sem alveg fínt bara, það er auðveldara og skemmtilegra að dröslast með krakkana á sómasamlegum tíma um helgi frekar en að vera að þessu brölti á vikum degi.  Nokkur ár síðan við tókum þetta dæmi í Mosó, en þetta er rosalega flott alltaf og ekki svo slæmt að enda í pönnsum á eftir.

laugardagur, desember 28, 2013

Jólin 2013

Allt frekar hefðbundið hérna þessi jól.  Aðfangadagur með öllu sínu gekk svona glimrandi vel, maturinn á borðinu á slaginu og svo var allt ferlið tekið með sömu venjum og hefur verið síðustu ár. 
Þetta voru ansi mikil fatajól en sem betur fer eru drengirnir yfirleitt ánægðir með að fá föt.  Logi Snær fékk reyndar fjarstýrðan bíl sem virðist vera að gera gott mót þessa dagana eftir aðfangadag.  Ísak Máni var svo búinn að undirbúa sig undir þessu fyrstu eftir-fermingu-jól, að pökkunum myndi eitthvað fækka, sem þeir gerðu svo sem en eitthvað slysaðist undir tréð merkt honum.

Úr hrúgunni kom svo einn pakki sem ég sá ekki alveg fyrir.  Eitthvað hafði orðaval mitt á kósý heilgallanum hennar Jóhönnu farið illa í hana og hún las út úr þeim orðunum mínum að ég hefði þróað með mér eitthvað heilgallablæti eftir að hafa séð hana skakklappast í einu svona kvikindi í tíma og ótíma í Æsufellinu.  Allavega, hún virðist hafa fengið Villa með sér í lið til að splæsa í eitt eintak handa undirrituðum.  Ég var alveg grænn og hefði ekki minnstu hugmynd hvað var í vændum þegar ég byrjaði að taka utan af kassanum en varð svo heldur hvumsa þegar heilgalli rataði upp úr kassanum.  Þrátt fyrir talsverðarar tilraunir náðust ekki myndir af heilgallanum í action...

Hvað er þetta eiginlega?

Nei, ertu að djóka?

Hvað er hægt að segja?

Tók svo hundgamlan brandara og framkvæmdi hann loksins.  Hvað var það?  Nú, auðvitað brandarinn að gefa konunni bor/skrúfvél í jólagjöf.  Það var eiginlega ekki annað hægt en að framkvæma þetta þessi jól.  Ljóst er að konan er að fara í talsverða vinnu sem felur í sér að taka í sundur rúm, skápa o.s.frv og svo setja það saman aftur á nýjum stað.  Það er bara þannig.  Það var ekki hægt að bjóða upp á gömlu græjuna í þá vinnu þannig að ég held engu öðru fram en að ég hafi verið að gera gott mót með þessum leik.

Næstu jól verða s.s. á nýjum stað.  Meira um það síðar.

Allir strákarnir voru skóaðir upp...
...og konan fékk borvél

mánudagur, desember 02, 2013

Aðallega Logi Snær

Það verður að segjast að Logi Snær hafi verið maður helgarinnar.  Fyrst var byrjað á fimleikamóti hjá Ármanni á laugardagsmorgninum, mæting kl 07:50 takk fyrir.  Þetta var hans fyrsta formlega fimleikamót en hann var að keppa í 6. þrepi.  Hann hafði reyndar tekið þátt í tveimur fimleikasýningum áður.  Þetta mót var þannig uppbyggt að keppendur þurftu að leysa þetta hefðbundna fimleikastöff, gólfæfingar, bogahest, hringi o.s.frv.  Ekki annað sagt en að þetta hafi gengið framar vonum en strákurinn tók sig til og vann mótið með glæsibrag og fékk gullverðlaun fyrir.

Á bogahestinum
Flottur í hringjunum

Þetta hlýtur að vera sárt

Að taka við gullverðlaununum

Aron, Logi Snær og Andri Ásberg

Eins og það væri ekki nóg dagsverk þá tók við körfuboltamót seinnipart laugardagsins, Jólamót ÍR í Seljaskóla.  Hann var flottur þar líka, spilaði þrjá leik og lauk leik með seinni skipum þá um kvöldið.  Skemmtileg tilviljun svo að Ísak Máni tók sér dómaraflautu í hönd í fyrsta skipti og hver var svo að spila í fyrsta dómaraleiknum hans?  Jú, auðvitað Logi Snær.  Sá yngri fékk nú ekkert gefins þrátt fyrir að tengjast 50% af dómarateyminu blóðböndum en það var kannski bara eins gott.

Fyrsta dómarakastið á ferlinum

Alveg með ´etta

föstudagur, nóvember 22, 2013

Pabbi og JFK

Merkilegur dagur í dag.  Á þessum degi fyrir fimmtíu árum var John F. Kennedy, þáverandi forseti Bandaríkjanna, skotinn til bana í Dallas.  Það eru alltaf einhverjir atburðir í sögunni sem hafa það mikil áhrif á þá sem það upplifa að þeir muna nákvæmlega hvar þeir voru þegar þeir heyrðu af viðkomandi atburði.  Ég man t.d nákvæmlega hvar ég var þegar ég heyrði af andláti Díönnu, prinsessu af Wales og einnig eftir 11. september 2001 þegar ráðist var á tvíburarturnana í New York.

Morðið á JFK er klárlega einn af þessum atburðum í sögunni sem allir muna eftir, þ.e. þeir sem upplifðu þetta.  Nokkuð ljóst að ég er ekki einn af þeim, enda mætti undirritaður ekki á svæðið fyrr en einhverjum 12 árum síðar.

Pabbi byrjaði að halda dagbók á þessu ári, 1963 og hélt m.a. dagbók með hléum næstu 2-3 árin.  Það er skemmtilegt að spá í það að þessar dagbókafærslur eru flestar svona bara almennt um það sem á dagana dreif hjá karlinum.  Hvenær hann vaknaði, hvernig veðrið var, hvað hann var að bardúsa þann daginn o.s.frv.  Ekkert um atburði líðandi stundar hvað þjóðmál og þessháttar varðar hérlendis eða erlendis.
Ef frá er talin þessi eina lína frá þessum degi fyrir fimmtíu árum.  Magnað.

Föstudagur 22. nóvember 1963
Fór á fætur rétt fyrir 11, lét kvitta á síðustu nóturnar í bókunum.
Fór eftir hádegi að vinna við útskipun á mjöli, það stóð yfir til kl ellefu um kvöldið, ég hringdi á verkstæðið til Árna og hann tjáði mér að bíllinn yrði ekki búinn fyrr en eftir miðvikudag í næstu viku, það er ekkert hægt við því að segja, bara bíða.
Kennedy Bandaríkjaforseti var skotinn til bana í dag, þær fréttir komu í útvarpinu.

miðvikudagur, nóvember 20, 2013

Næstum því á HM

Ég er enn að meðtaka þá staðreynd að fyrir rétt rúmum sólarhring var litla Ísland að spila úrslitaleik við Króatíu um sæti á HM.  Heimsmeistarakeppninni, lokakeppninni sjálfri.  Hvaða rugl er þetta?  Ég man eftir einum og einum flottum úrslitum hérna í gamla daga, jafntefli við gömlu Sovétríkin á útivelli, jafntefli við Frakka og sigur á Spánverjum heima á Laugardalsvelli, svo eitthvað sé nefnt.  En það var aldrei neitt heilstætt "run", meira svona eitt og eitt sem datt inn.
Núna er liðið skipað svakalega flottum strákum, með fullri viðingu fyrir fyrrverandi landsliðsmönnum, sem eru að spila í flottum deildum og eru bara drullugóðir í fótbolta.

Ég fór á fyrri umspilsleikinn á móti Króatíu, heimaleikinn.  Nei, ég vaknaði ekki kl 04:00 fyrir slysni og keypti mér miða heldur var ég einn af þeim plebbum sem var boðið á leikinn.  Skammast mín smá fyrir það en ákvað samt að vera ekki bara að éta rækjusamloku allan tímann heldur taka þetta all-in.  Stemmingin var líka frábær, það kom varla þögul stund sem var bara alveg hreint geðveikt.  Og að ná 0:0 jafntefli var rosalega flott, einum færri tæpan hálfan leikinn.

Það er því varla hægt að lýsa spennunni fyrir síðari leikinn í gær.  Synd að liðið hafi ekki náð að sýna sitt rétta andlit í 2:0 tapi.  En eins og fyrr segir er maður að reyna að meðtaka þennan árangur, sem er vitaskuld alveg fáránlega flottur.  Mikið vona ég að við fáum annan sjéns á þessu, það væri alveg geðveikt.

Það er nú ekki hægt að enda þetta á öðru en nokkrum línum um Eið Smára.  Það var varla hægt annað en að klökkna þegar fréttamaðurinn spurði hann eftir leikinn um framhald landsleikjaferilinn hjá honum og þessi magnþrugna þögn kom og Eiður Smári fór nánast að skæla þegar hann tilkynnti að þetta væri líklega hans síðasti leikur.  Þvílíkt legend og maður getur ekki annað en hugsað til þess hver staðan væri ef drengurinn væri 10 árum yngri.  Vonandi slær hann til og tekur þátt í undankeppni EM, maður vildi svo gjarnan fá aðeins meira af Eið Smára.  Það er þá algjört lágmark að færa honum kveðjuleik á Laugardalsvelli.  Nefnið bara stund og ég mæti.  Þó ég þurfi að kaupa miða um miðja nótt.  Tvöfaldur enskur meistari með Chelsea og meistari með Barcelona svo eitthvað sé nefnt, svo ekki sé minnst á meistaradeildartitilinn með Börsungum.  Sorry, en ég er ekki sjá að ég lifi það að sjá einhvern frá Íslandi toppa þetta.  Ég hef ekkert nema respect hvað Eið Smára snertir. 

#takkeiður

Fyrsti blogglausi mánuðurinn síðan skrif hófust

Fyrsti bloggpistillinn kom í október 2005.  Hægt þá að færa rök fyrir því að það sé viðeigandi að fyrsti blogglausi mánuðurinn sé líka október.  En 2013, sem mér finnst bara ágætis úthald.

mánudagur, september 30, 2013

Öðruvísi áður mér brá

Það verður bara að segjast.  Af því fótboltatengdi dóti sem ég hef verið að dunda mér við á sumrin var þetta sumar talsvert frábrugnara en síðustu ár.

Af Old boys Fylkir:  Ekki fékk ég símtalið þetta vorið með beiðni um að standa á milli stanganna hjá Fylki eins og ég hafði gert þrjú síðustu sumur.  Maður bjóst s.s. við því enda undirritaður ekki að kafna úr áhuga þarna undir lokin og ég held að það hafi nú alveg komið fram.  Ég er með smámóral yfir því hversu lítið (lesist: ekkert) ég sakna þess að vera sjálfur í tuðrusparkinu.  Maður hefur líklega alveg óverdósað með Vatnsberunum hérna um árið.  Þetta er bara orðið ágætt.

Af Pepsídeildinni:  KR-ingar voru að lyfta dollunni um síðustu helgi, alveg hreint frábært eða þannig.  Ég hef reynt að hafa það að reglu að taka einn leik á Hlíðarenda á sumri, eða a.m.k. einn leik með Val, svona for old times sake.  En það verður að segjast að það klikkaði algjörlega, ekki fór ég á svo mikið sem einn leik með Valsmönnum þetta sumarið.  Ég tók hinsvegar einn leik í Ólafsvík, þegar Víkingarnir tóku á móti Stjörnunni og gerðu 1:1 jafntefli.  Það var nú alveg must fyrst að Snæfellsnesið átti fulltrúa í efstu deild.  Verst að þeir fóru aftur niður en það var nú víst viðbúið.

Af ÍR:  2. deildin í fótbolta var að klárast fyrir einhverjum tveimur vikum en þangað féll ÍR síðasta haust.  Þeim gekk í sjálfu sér nokkuð vel í 2. deildinni, fóru inn í þetta með mikið breytt og mjög ungt lið og lentu í 4. sæti, tveimur stigum frá því að komast upp en einungis 2 stig skildu fyrsta sætið frá því fimmta.  Við Ísak Máni sáum einn hálfleik í sumar, síðari hálfleik á móti Gróttu út á Seltjarnarnesi en þá var það upptalið þannig að maður mætti ekki á svo mikið sem einn heimaleik.  Það hefur örugglega ekki gerst í 7-8 ár og verður að teljast skandall.  Ég ætlaði að taka síðasta leikinn en Stingermótið í Seljaskóla kom í veg fyrir það, kennir manni það að aldrei treysta á síðasta sjéns, í þessu sem öðru.

Af Grundarfirði:  Nýja 3ja deildin kláraðist um miðjan september með Grundarfjörð innanborðs.  Hérna verður að segjast að þetta var eini liðurinn sem flokkast innan míns áhugasviðs hvað tuðruspark varðar sem ég var að standa mig í sumar.  Maður fylgdist nokkuð vel með uppáhaldssveitaliðinu mínu, tók slatta af heimaleikjunum þeirra en þetta var óttarleg sveitadeild og því ekki mikið hægt að elta þá.  Tók nú samt leik með þeim í Hafnarfirði á móti ÍH og Augnablik í Kópavogi - þar sem n.b. ég var rukkaður um þúsundkall fyrir að fá að horfa á, sem mér fannst alveg magnað.  Tók svo eitt tvist þar sem sumir fjölskyldumeðlimir voru búnir að væla um að prufa sundlaugina á Hellu.  Hvað gera menn þá?  Jú, velja laugardaginn þegar Grundarfjörður átti að spila við KFR á Hvolsvelli og gera piknik ferð úr öllu saman. 

Ég ætla að gera betur næsta sumar...

sunnudagur, september 22, 2013

Íslandsmeistaratitill og sverðagleypir, annars hefðbundið bara...

Haustið að koma og það þýðir að konan á það til að detta í rollurassaeltingaleik upp um sveitir.  Sú var reyndin þessa helgina og það var því eingöngu boðið upp á karlhormón á þessu heimili.

Laugardagurinn hófst með fimleikaæfingu hjá Daða Steini.  Honum finnst voða gaman þegar á hólminn er komið en hann hefur verið með smá mótþróa fyrir æfingarnar og tilkynnir okkur að hann sé hættur að æfa.  Veit ekki hvort barnatíminn í sjónvarpinu hefur þar eitthvað að segja en við verðum að halda áfram.  Af fenginni reynslu í gegnum tíðina eru þó morguntímar kl 10:00 svo margfalt betra en kl 09:00, það er alveg ótrúlegt hvað þessi eini klukkutími breytir þessu miklu.

Síðdegis tók við næsti dagskráliður, Íslandsmótið í svokölluðum Stinger í íþróttahúsinu í Seljaskóla.  Þetta er þriðja árið sem ÍR og Karfan.is heldur þetta mót og ég hef nú fjallað um þetta hérna áður en Ísak Máni hefur alltaf tekið þátt.  Núna var boðið upp á það að hafa þetta mót tvískipt í fyrsta skipti, þ.e. fullorðinsflokkur (12 ára +) og minniboltaflokkur (11 ára og yngri).  Enn hafa menn ekki náð að rífa upp mætinguna mikið út fyrir hverfið þó sáust þarna m.a. KR-ingar þetta árið.  Logi Snær tók þátt í yngri flokknum og gerði sér lítið fyrir og sigraði það.  Hlaut í sigurverðlaun myndarlega medalíu, kassa af Gatorate, karfan.is svitaband, inneign á Nings og gjafabréf á einhvert 6 vikna stökkkraftsæfingaprógram sem verður mjög athyglisvert að sjá hvernig virkar.  Menn verða þá kannski farnir að troða körfuboltanum fyrir fermingu.  En kannski var fyrst og fremst heiðurinn að vera fyrsti Íslandsmeistarinn í Stinger í þessum flokki, það verður ekki tekið af honum.  Verst finnst mér þó að drengurinn er ekki að mæta á æfingar það sem af er hausti, æfingarnar eru á sömu dögum og fimleikarnir og það er einhvern veginn ekki að virka.  Veit ekki hvernig við leysum það.  Ísak Máni keppti svo í fullorðinsflokknum og þar var myndarlegur hópur sem tók þátt, m.a. framtíðar, fyrrverandi og núverandi meistaraflokksmenn hjá ÍR ásamt einhverjum sem ég kann engin deili á.  Ísak Máni náði að hanga inni í baráttunni lengi vel og var sá fjórði síðasti sem datt út og hafnaði því í 4. sæti sem verður að teljast mjög flottur árangur.  Svo skemmtilega vildi til að sá sem lenti í öðru sæti og var á eftir Ísaki Mána í röðinni var með Go-Pro vél á bringunni og vitaskuld er það komið á netið.  Það er því hægt að sjá hvernig svona leikur virkar og Ísak Máni græddi heilmikið á því að vera á undan honum í röðunni því vitaskuld var hann sjálfur mikið í mynd.  Glittir meira að segja í undirritaðan undir lokin þegar hann var gripinn í aðstoðarhlutverk við medalíudreifingar.  Myndbandið má sjá - HÉR -

Silfur og gull í minniboltaflokknum
Ekki var hægt að slóra lengi eftir það því Ísak var að fara í afmæli og við Logi Snær áttum miða í Háskólabíó á svokallaðan Heimsmetadag Ripleys sem þýddi að koma þurfti Daða einhversstaðar fyrir en Guðrún og co tók það að sér.  Þessi Heimsmetadagur var eitthvað dæmi sem sett var upp til að slá heimsmet í hinum furðulegustu athöfnum, einhver met voru til fyrir en svo var sumt sem hafði víst aldrei verið formlega reynt áður og því hægur vandi að setja heimsmet í því.  Það var búið að koma einhverju nafni í þessum fræðum, Dan Meyer, til landsins en hann er víst hluti af þessum Ripleys Believe-it-or-not heimi og er sverðgleypir og sýndi listir sínar á sviði.  Hann tók m.a. þátt í America´s got talent 2009.  Heilt yfir ágætis atriði en svolítið langt prógramm fyrir minn smekk, mikið af börnum í salnum og þetta var alveg á nippinu að menn héldu þetta út.

https://fbcdn-sphotos-a-a.akamaihd.net/hphotos-ak-prn2/1264507_589240454451563_1144534696_o.jpg

Sunnudagurinn átti að fara í meiri afslöppun, a.m.k. skipulagslaust dundur, horfa á fótbolta í kassanum og svoleiðis.  Boltagláp er reyndar ekki alltaf afslöppun og svo var það ekki í dag.  Man City flengdu Man Utd 4:1, skipti svo yfir á Valur-KR þar sem Vesturbæingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn á Hlíðarenda og fylgdist jafnframt með á netinu þegar Ólafsvíkingar féllu aftur niður í 1. deild.  Sá að lokum svo líka restina af Giants - Carolina í NFL sem fór 0:38, ekki gott.  Einu flottu fréttirnar af boltanum í dag var 2:0 sigur Roma á Lazio, annað var meira bara rusl.

föstudagur, september 20, 2013

Uppfærsla

Fyrir nokkru datt mér í hug að nördast svolítið og versla mér eitt stykki myndavél í svona aðeins öflugari flokknum en þessar hefðbundu vasamyndavélar.  Var samt ekki alveg 100% hvert ég ætlaði með þetta, Ísak Máni var í boltanum og mig langaði að prófa að vera gaurinn með græjurnar á hliðarlínunni, en sá mig samt engan veginn vera að brölta upp einhverja fjallshlíðar til að mynda einhverja fossa.  Ekki misskilja mig, ég get orðið alveg kjaftstopp af fegurð fjalla- og fossaljósmynda en ekki endilega mitt áhugasvið í framkvæmd.  Þróunin hefur líka verið líka sú að mér finnst langskemmtilegast að mynda sport, íþrótta- og actionmyndir en velheppnaðar svoleiðis myndir eru alveg priceless.  Mitt mat.

OK, ég var s.s. búinn að bröltast með mína Canon 400D (fyrir þá sem það segir eitthvað) og ódýru 75-300mm linsuna fyrir útimyndatöku en smellti 85mm 1.8 linsu á trýnið þegar Ísak Máni og Logi Snær í körfubolta voru myndefnið.  Karlinn var ekki alveg sáttur, of oft sem möguleiki á priceless stöffi varð ekki í fókus af því að fókussystemið á græjunni réð ekki alveg við þennan hraða.  Þá er því orðið svolítið síðan að ég vissi hvað ég vildi gera, eftir að hafa lesið mér til og rætt við fróðari menn.  Mig langaði að uppfæra græjuna upp í alvöru fallbyssu sem réði við hraða og læti.  Og ég bara gerði það.

Seldi gamla dótið, nema 85mm linsuna, til að redda fjármagni upp í gamlan ás, Canon 1D - Mark II (fyrir þá sem það segir eitthvað) og 17-40mm linsu.  Ég ætla að testa þetta í vetur og sjá hvað kemur út úr þessu, í versta falli selur maður þetta aftur og notar bara Samsung símann í myndatökur eins og allir aðrir.  Kannski dettur manni í hug að fara brölta á fjöll.


þriðjudagur, september 03, 2013

Facebook

Það færist hér til bókar að undirritaður er formlega kominn á feisbúkk, frá og með 1. september sl.  Svo sem ekkert eitt sem ýtti karlinu yfir í þetta með seinni skipum, frekar svona margir litlir.  Fullmargir vinnufundir sem hafa komið upp þar sem ræddir eru möguleikar á að nýta facebook til að auka sölu eða koma ákveðnum vörumerkjum í meira top-of-mind o.s.frv þar sem menn voru ekki alltaf umræðuhæfir.  Svo var ekki orðið hægt annað en að fylgjast með nánustu fjölskyldumeðlimum í gegnum þennan miðil.  Það verður að koma í ljós hversu aktívur maður verður þarna og hvað áhrif þetta hefur á þessa síðu.  Feisbúkk eður ei, þá er alltaf planið að halda lífi í þessari bloggsíðu þó eitthvað hafi hægst á pistlunum.

laugardagur, ágúst 31, 2013

Daði Steinn - fyrsta æfingin

Laugardagsmorgun, rétt fyrir klukkan 10:00 í fimleikasal Ármanns í Laugardalnum.  Fjölskyldan tók sér bíltúr til að verða vitni af fyrstu skipulögðu íþróttaæfingu hjá Daða, það vildi enginn missa af þessu.  Drengurinn var sem sagt að byrja í fimleikum.  Hann var nokkuð brattur fyrir þetta, en af fenginni reynslu er maður farinn að taka engu gefnu í þessu fyrr en á reynir.  Ég vissi líka ekki hvort þetta yrði eitthvað yfirþyrmandi fyrir drenginn fyrst allir fjölskyldumeðlimirnir væru mættir á hliðarlínuna.  En það verður að segjast að hann stóð sig alveg hreint frábærlega vel, var lítið að spá í þessum viðhengjum sem mættu til að horfa á hann og rúllaði í gegnum þetta án mikilla afskipta þeirra, sem er gríðarlega gott.  Mamman þurfti einu sinni að stökkva á eftir honum þegar hann tók smá "tvist" á æfinguna með því að taka skoðun á dýrari týpuna af trampólíni.  En hey, þetta var græja sem hann horfði Loga Snæ vera á síðasta vetur þannig að menn vildu aðeins reyna sig líka.
Samkvæmt plani verða laugardagsmorgnar skipulagðir undir þetta í vetur, við vonum að þetta verði áframhaldandi gleði.

844-7546

Það er ekkert rosalega langt síðan Frumburðurinn fékk gemsa, rétt tæp tvö ár og honum fannst ferlið við að fá það samþykkt af foreldrunum frekar langt og þungt.  Samkvæmt því plani hefði Miðjan því átt að bíða til ársins 2016, ef eitthvað réttlæti væri í þessu.  En ef þið vissuð það ekki þá er lífið ekki réttlátt og Logi Snær fékk síma í dag.  Til að reyna að réttlæta þetta eitthvað þá fékk hann reyndar ekki nýjan síma, heldur gamlan Nokia samlokusíma sem mamma hans átti á lager en það var farið og splæst í númer handa drengnum.  Mömmunni er farið að kvíða svolítið fyrir skutla-og-sækja-pakkanum núna í vetur en samkvæmt plani á Miðjan að vera í bæði í körfubolta og fimleikum, á nokkrum mismunandi stöðum í borginni.  Það verður að segjast að drengurinn á það til að vera svolítið týndur í því sem tengist tíma og rúmi og þetta á að vera liður í því að einfalda hlutina.  Við sjáum hvað setur. 
En samkvæmt þessari þróun, að hver fái síma þremur árum fyrr en sá á undan, þá mun Daði Steinn fá sitt númer eftir tvö ár, við 6 ára aldurinn.  Ég skal hundur heita ef svo fer, hann hlýtur að verða á svipuðum slóðum og Logi Snær.

mánudagur, ágúst 26, 2013

Menningarhlaup, lítið annað en þó það

Menningarnóttin í Reykjavík afstaðin þetta árið.  Veit ekki hvort það var veðrið sem gerði það að verkum að það eina sem ég gerði var að vappast í kringum Reykjavíkurmaraþonið, án þess að hlaupa sjálfur svona til að hafa það alveg á hreinu.  Ísak Máni og Daði Steinn voru bara að chilla heima.  Sigga tók þátt í hálfmaraþoni og kláraði hún það, reyndar aðeins yfir takmarkinu sem var tveir tímar en niðurstaðan varð víst 02:02:01.  Samt ekki hægt að kvarta yfir því, flottur árangur.  Logi Snær tók svo þátt í 3km skemmtiskokkinu og tók það á einhverju korteri.  Mamman ætlaði að skokka með honum (eftir sitt hlaup) en sá í hvað stemmdi á fyrstu metrunum og hann var alveg sáttur að rúlla þetta einn, enda fékk hann hlaupaúrið hjá mömmu sinni.  Svo mikið er víst að ekki hefði ég haft við honum.  Ég held að Ísak Máni sé að spá í 10 km næsta ár, sjáum hvort hann stendur við stóru orðin.

Eins og fyrr segir var veðrið ekkert spes og það kom aldrei til neinnar umræðu um að taka eitthvað menningarrölt á þetta að sinni.  Ég tók bara tónleikana og flugeldana í imbakassanum, það verður að duga a.m.k. þangað til næst.

Hlaupararnir

sunnudagur, ágúst 25, 2013

Laxveiði - part II

Datt heim eftir laxveiði nr. 2 á ferlinum núna á föstudaginn.  Sami staður og sama tilefni og fyrra skiptið.  Það sem verra var að veiðin hjá undirrituðum var nákvæmlega sú sama og síðast.  Núll.
Í heildina var eitthvað meira að veiðast núna en þegar ég var þarna í Norðuránni fyrir tveimur árum þótt það hafi ekkert ratað á fluguna hjá mér.   Aðstæður hefðu getað verið betri, mikið vatn í ánni enda hafði verið mikil rigning daginn áður en við mættum og svo rigndi aðeins á okkur síðari daginn sem ég var þarna.

Ég hafði gaman af þessu, aðstæður eins og félagsskapurinn og veðrið voru bæði frekar hagstæð, en það veður að segjast að enn bíður maður því eftir fisknum sem bítur á hjá manni og á víst að gera það að verkum að maður froðufellir af unaði, fer og verslar sér græjur eins og það sé enginn morgundagur og þræðir alla læki og sprænur á skerinu fyrir allan peninginn í framhaldinu.

Ég bíð spenntur

laugardagur, ágúst 10, 2013

fimmtudagur, ágúst 08, 2013

Þetta sumarið - í stuttu máli og myndum

Sumarið 2013.  Það er nú ekki alveg búið þótt maður detti alltaf í nettan haustgír eftir verslunarmannahelgi, ég tala nú ekki um þegar fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí er þriðjudagur eftir verslunarmannahelgina.

Rigningarsumarið mikla mundu sumir segja.  Eitthvað til í því, þetta var a.m.k. ekkert í líkingu við sumarið 2007 þar sem ég var í stuttbuxum upp á hvern einasta dag í fríinu og fyrsta rigningin sem ég fékk eftir að ég fór í frí það árið var á bílastæðinu niðri í vinnu morguninn sem ég mætti aftur eftir fríið.  Þetta slapp nú alveg til veðurlega séð hjá okkur þetta árið held ég þó.  Fyrsta vikan fór nú aðallega í það að koma sér í frígírinn, veðrið ekkert spes og "við" (lesist: Sigga) eitthvað að bardúsa með að svissa á strákaherbergjunum með tilheyrandi málningavinnu, skápakaupum o.s.frv.  Nú er m.a. risastór Hulk á veggnum í herberginu hjá Loga og Daða og ýmislegt búið að breyta og bæta.

Annars vorum við að dúlla okkur eitthvað, fengum að nota bústaðinn hjá Ingu og Gunna í Úthlíðinni og gátum því tekið smá túristarúnt, Gullfoss og Geysir og þessháttar.  Slepptum reyndar Geysi í þetta sinn.  Fengum flott veður í Grundarfirði á meðan Á góðri stund var og tókum nokkra aukadag þar.  Fóru í dagstúra m.a. upp á Skaga en Langisandur og strandblak þar í bongóblíðu eru að verða árviss viðburður.  Tókum svo túr líka til Vestmannaeyja, nokkuð sem við ætluðum að gera í fyrra en þá náðist ekki að framkvæma.  Það var algjör snilld og án efa gerum við þetta aftur síðar.
Besta veðrið á heimaslóðum hérna undir lokin og því var eina vitið að taka þá hérna frekar en að hýrast í einhverju tjaldi fyrir norðan í 6-8 gráðum.   En mig langar svolítið að taka smá rúnt fyrir norðan.  Kannski næst.

Í Vestmannaeyjum
Gott í þessum kaðli - það er ljóst

Froðufjör í Grundarfirði

Sjálfdrifið, það verða allir að fá að prufa

Drullan á Langasandi gerir mönnum gott

Heita sturtan var að gera gott mót

Gamli báturinn frá Spáni kom sterkur inn