sunnudagur, október 02, 2011

Íslandsmótið hið fyrsta

ÍR-ingar tóku sig til og héldu Íslandsmót í Stinger í gær. Hið fyrsta sinnar tegundar héldu þeir fram og ég hef ekkert undir höndum sem hrekur það. Án þess að ætla að fara djúpt í framgang leiksins þá er stinger körfuboltaskotleikur þar sem spilað er þangað til aðeins einn maður stendur eftir. Við Ísak og Logi mættum í Seljaskólann til að verða vitni af þessu en það fór nú þannig að Ísak Máni tók þátt í þessu fyrsta Íslandsmóti en mótið var öllum opið en Logi Snær var ekki alveg nógu kröftugur í þetta, þrátt fyrir að vera ágætlega öflugur í körfunni. Að kasta fullvaxta körfubolta í körfuna frá 3ja stiga línunni var fullmikið af því góða fyrir hann, hæfileiki sem var nauðsynlegur ef menn ætluðu að taka þátt. Ég ákvað að láta ekki reyna á mína hæfileika í þessum fræðum og sat frekar upp í stúku á meðan á þessu stóð.
Ísak Máni hékk nú eitthvað inni í þessu en varð að játa sig sigraðan á einhverjum tímapunkti þegar á keppnina var liðið. Ég tek nú ofan fyrir mönnum að hafa látið sér detta það í hug í fyrsta lagi að halda svona mót og svo að hafa hrundið þessu í framkvæmd. En það vantaði óneitanlega einhver alvöru fallbyssunöfn úr íslenska körfuboltanum, gömul og ný. Þarna voru nokkrir meistaraflokksmenn hjá ÍR en þær 2-3 þriggjastigaskyttur, aðallega frá Suðurnesjunum, sem maður var búinn að heyra að myndu mæta létu ekki sjá sig.
Kannski verður þetta meira á næsta ári, Ísak Máni ætlar a.m.k. að mæta og kannski verður Logi Snær farinn að drífa.

mánudagur, september 26, 2011

Réttarlaus

Sigga fór í sveitina um helgina sem var að líða. Réttarhelgi. Við höfum nú yfirleitt fylgt með í gegnum tíðina eins og ég held að ég hafi komið inn á hér á þessum vettvangi. En kella fór ein í þetta sinnið, hafði þar aðallega leiðinleg veðurspá mest að segja en rigning og rok hefur aldrei kallað neitt sérstaklega á mig fyrir þetta tilefni. Ég get alveg nagað strá, andað að mér sveitalofti og virt fyrir mér rollur í bunkum en þá verður að vera þolanlegt veður, það er bara þannig. Held reyndar að veðrið hafi svo verið skárra en upphaflega stefndi í. Það er alltaf næsta ár, Daði Steinn verður kannski orðinn aðeins meiri maður í rolluglímu.
Við strákarnir reyndum bara að taka slökun á þetta í höfuðborginni. Ísak Máni var reyndar að keppa í skólamóti í fótbolta í Egilshöllinni á laugardeginum, hinu árlega 7. bekkjarmóti. Svo var bara Megavika og Yoyo ís.

Búinn að spýta

Ljóta ruglið.

Tannsaferðin í dag gekk nú reyndar þokkalega en ég fékk staðfestingu á því sem ég vissi. Nú verður maður að fara að klára að láta rífa úr sér þessa endajaxla.

Fjárinn sjálfur.

Ekki nóg með að framkvæmdin sjálf verði örugglega hell, tómir blóðpeningar í ofanálag og svo verður maður örugglega þrefaldur í framan í góðan tíma á eftir.

Díses kræst.

Fleiri, fleiri ár síðan maður ætlaði að klára þennan pakka. En dómur læknisins var að annað hvort fara menn í það að gera eitthvað við þetta eða rífa þetta úr.

Skrambinn.

sunnudagur, september 25, 2011

Tímabil tvö í 30+ boltanum

Varla vottur af stemmingu frá minni hendi, mætti ekki á eina einustu æfingu og bara í þá leiki sem ég gat ekki logið mig úr. Svipaður kjarni og í fyrra, nokkrir gamlir Vatnsberar en þetta fer að verða spurning um að hætta þessu bara. Missti af fjórum leikjum, einum sigri og þremur tapleikjum. 8. sæti í 10 liða deild, unnum bæði liðin fyrir neðan okkur en töpuðum rest.

5 leikir: 1-0-4

27. júní Þróttaravöllur
Þróttur - Fylkir 6:4

18. ágúst Fylkisvöllur
Fylkir - FH 2:6

31. ágúst Fylkisvöllur
Fylkir - Reynir S 9:2

13. september Fylkisvöllur
Fylkir - Afturelding 1:7

21. september Þróttarvöllur
Þróttur 2 - Fylkir 5:1

Heildarferillinn:
14 leikir: 4-0-10

laugardagur, september 17, 2011

„og svo spýta“

10 dagar í það að ég verði búinn að uppfylla eitt af áramótaheitum síðustu tveggja ára. Heiti sem hefur hingað til gengið illa að uppfylla.

Get ekki sagt að ég hlakki til.

fimmtudagur, september 15, 2011

Drukkið í miðbænum

Haustbragur yfir flestu þessa daga finnst mér. Tréin í garðinum eru orðin haustlituð, nettur hrollur í manni á morgnana og sá yngsti fer í sokkabuxum í leikskólann. Skil samt ekki hvað maður er að væla, ekki enn þurft að skafa bílinn eða vaða slabb.
Ekki að haustið sé eitthvað alsæmt en þá var sumarið var fínt.

fimmtudagur, september 01, 2011

Ekkert grillaður

September genginn í garð og þá finnst manni alltaf eins og sumarið sé formlega búið þótt sambærileg stemming komi líka alltaf þarna seinnipartinn í ágúst þegar skólarnir byrja og sú rútína hefst.
Þetta sumar fer þó í sögubækurnar sem sumarið sem við áttum ekkert grill. Gamli garmurinn hafði farið niður í geymslu þegar svalirnar voru teknar í gegn í utanhússframkvæmdunum hérna á blokkinni og ég var búinn að heita því að sá haugur færi ekki á "nýju" svalirnar. Svo tók ég mig til undir lok síðasta veturs, þegar ég var orðinn hundleiður á að hafa það niðri í geymslu, og henti því á haugana. Alltaf var ég svo á leiðinni að kaupa mér nýtt grill en kom því, af einhverjum ástæðum, aldrei í verk. Saknaði þess minna en ég hefði haldið en menn hljóta að girða sig í brók fyrir næsta sumar. Eða hvað?

miðvikudagur, ágúst 31, 2011

Ekki öll skemmtilega vitleysan eins

Stundum fær maður fjarstæðukenndar hugmyndir en er samt það klikkaður að oft þarf lítið til að ýta þeim í framkvæmd. Meistaraflokkur Grundarfjarðar komst í 8-liða úrslit í 3ju deildinni í fótbolta og lentu þar gegn Magna frá Grenivík. Fyrri leikurinn fór fram á Grenivík um helgina, þegar ég var á Egilsstöðum, og náðu Magnamenn að knýja fram 1:0 sigur í uppbótartíma. Seinni leikurinn var svo í gær, kl. 17:30 á Grundarfjarðarvelli. Það eru nú ekki á hverjum degi sem liðið hefur leikið svona alvöru úrslitaleiki, enda bara á öðru ári eftir endurvakningu. Hvað um það, mig drullulangaði til að fara en leiktíminn ekkert sérstakur verður að segjast. Maður fékk líka pepp af netinu:



Eftir að hafa viðrað þessa hugmynd við Ísak Mána og hann var meira en klár í að taka skottúr til Grundó í miðri viku þá var eiginlega ekki aftur snúið. Hálfum sumarfrísdegi fórnað í verkið og Logi Snær einnig spurður hvort hann myndi vilja koma með. Venjulega segist hann vera klár en bakkar svo út úr hlutunum þegar á hólminn er komið, a.m.k. hvað svona vitleysu varðar. Enda eru menn jú bara 7 ára gamlir. Hann sagðist vera klár og þegar á hólminn var komið þá bakkaði hann ekki og var því ekkert annað en að taka hann með. Eftir að skólinn var búinn hjá þeim bræðrum þá var bara gripin með sér ein væn hrúga af utanyfirfötum og haldið af stað. Mig minnti að spáin gæfi til kynna að það gæti verið einhver smá bleyta en þó ekkert til að æsa sig yfir. Eitthvað var það byggt á misskilningi.

Þegar við nálguðumst fjörðinn fagra þá var bara þokudrulla yfir öllu og rúðuþurrkurnar á bílnum í fullri vinnu. Mömmu leist ekkert á þetta brölt allt saman þegar við mættum á Smiðjustíginn og það voru farnar að renna á mig tvær grímur 20 mínútum fyrir leik og veðrið úti ekkert spes skulum við segja. Hitastigið var reyndar fínt, einhverjar 14-15 gráður en annað var ekki eins gott. Drengirnir voru með utanyfirföt, hlífðarbuxur o.þ.h. en ég með minna. Tók ég á það ráð að hendast inn í bílskúr og dró þar fram forláta Kraft-galla af Varða sem ég smellti mér einfaldlega í. Þannig þokkalega græjaðir fórum við gangandi út á völl enda völlurinn í göngufæri.

Allt var þokkalegt til að byrja með en Logi Snær gafst upp líklega um miðjan fyrri hálfleik og tilkynnti mér, þegar hann var búinn að fá nammi og kók, að hann vildi fara til ömmu sinnar sem hann fékk að gera. Áfram létum við Ísak Máni okkur hafa þetta og stóðum þarna hálfflissandi að vitleysunni í okkur í hálfleik þar sem rigningin sem kom með hliðarvindinum barði á okkur, heimamenn 0:1 undir, báðir orðnir hundblautir til fótanna og eitthvað að vatni farið að finna sér leiðir í gegnum utanyfirfötin. Heimamenn hresstust þó í síðari hálfleik og náðu að jafna leikinn en það vantaði herslumuninn til að setja þessi tvö mörk sem þurfti til að komast áfram í undanúrslitin.

Eftir leik skriðum við heim og það var ekkert annað í boði en að rífa af sér fötin inní bílskúr. Logi Snær var í góðu yfirlæti en við Ísak Máni í aðeins verri málum. Það var bara hent í sig smánæringu og síðan þurftu menn að koma sér í eitthvað svo hægt væri að bruna aftur í bæinn. Öllu blauta draslinu var troðið í poka og ég var með gamla gervigrasskó staðsetta á Smiðjustígnum sem ég gat farið í, sokkalaus reyndar, í hálfrökum gallabuxum og flíspeysan bjargaði mér frá því að þurfa að vera á kassanum. Svona útbúinn keyrði maður aftur heim en það gekk samt rosavel, drengirnir lásu bara Syrpurnar sínar og við vorum mættir heim kl rúmlega 22. Allir frekar krumpaðir í morgun en ég get hlegið að þessu núna.

Maður lifir bara einu sinni, um að gera að nota þann tíma sem maður hefur í eitthvað sniðugt.

mánudagur, ágúst 29, 2011

Annað árið í röð var dollan í sjónmáli

Við Ísak Máni lögðum land undir fót ef svo er hægt að segja og skruppum til Egilsstaða um helgina. Úrslitariðill 5. flokks ÍR, Þórs, FH og Hattar í Íslandsmótinu var spilaður þar. Flugum á laugardagsmorgni, spilaðir tveir leikir þann daginn og einn leikur á sunnudegi áður en flogið var aftur heim. Ég hafði aldrei komið til Egilsstaða áður og get ekki sagt að ég hafi séð mikið af bænum. Þetta er væntanlega eitthvað svipað og þegar stóru fótboltahetjurnar úti í heimi sem hafa komið til margra landa en sjá eiginlega ekkert nema hótelherbergi og fótboltavelli. Við gistum í Fellabæ, Fellaskóla nánar tiltekið og vorum með Fellavöll á sama blettinum. Einu skiptin sem við fórum inn í bæinn var þegar okkur var skutlað í sund og svo þegar við keyptum okkur ís í Bónus.

Þrír úrslitariðlar í gangi og efstu liðin komust í undanúrslit, ásamt því liði með bestan árangur af liðunum þremur í öðru sæti. Þór í fyrsta leik en norðanmenn eru sterkir í þessum flokki. Það dugði þeim ekki því ÍR sigraði 2:1 með mikilli baráttu og hjálp lukkudísanna. FH voru næstir en svo skemmtilega vill til að þjálfari þeirra, Árni Freyr, er einn af betri mönnum meistaraflokks ÍR. FH hafði 2:1 sigur og efsta sætið að renna mönnum úr greipum. Sigur Hafnfirðinganna var þó sanngjarn ef menn eiga að vera alveg heiðarlegir. Það var því ekkert annað en sigur á móti heimamönnum í Hetti sem kom til greina ef menn ætluðu sér annað sætið og smá líkur á sæti í undanúrslitum. Öruggur 5:0 sigur hafðist þar og Ísak Máni tók sig til og setti tvö mörk, með mínútu millibili. Fyrstu mörkin hjá honum í sumar og gaman hjá honum að klára 5. flokks ferillinn og þar með hinn eiginlega 7-manna pakka á að skora tvö mörk í lokaleiknum. Ekki nóg með það heldur var honum hent inná síðustu mínúturnar í framlínuna, sem hefur ekki gerst síðan ég veit ekki hvenær. Ég sagði síðasti leikurinn því það fór svo að öll liðin í öðru sæti í öllum riðlunum þremur fengu sex stig og þar sem ekki er notast við markatölu þurftu forvígismenn KSÍ einfaldlega að draga hvort það væri ÍR, Valur eða Haukar sem fengu síðasta sætið í undanúrslitum. Það var gert í dag og það voru Valsarar sem duttu í lukkupottinn.

Í heild skemmtileg ferð og heimamenn fá mikinn plús fyrir að hafa hugsað vel um gestina sína og vildu allt fyrir okkur gera. Boltanum að ljúka þetta sumarið en þá koma víst ný verkefni í staðinn.

föstudagur, ágúst 26, 2011

Að kasta perlum fyrir svín

Karlinn steig aðeins út fyrir þekkingarkassann í vikunni og fór í laxveiði í fyrsta sinn. Eitthvað vinnudæmi sem kom upp og ekki annað en að láta sjá sig í það. Það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og farið í Norðurá í Borgarfirðinum. Ég þurfti að leita til nokkra reynslubolta með hvernig best væri að snúa sér í þessu og einn þeirra fór í það að lána karlinum græjur enda algjörlega tómur kofi heima hjá mér hvað þetta varðar. Hnussaði nú flestum þessum boltum og létu í það skína að þetta væri nú hálfgerð sóun á árbakkaplássi að skella svona grænjaxli eins og mér þangað. Ég hef nú líks ekki verið þekktur á þessu sviði, einhvern tímann dorgaði maður í Grundarfjarðarhöfn og fór nokkrum sinnum að veiða í einhverjum sprænum þarna í sveitinni, varla samt hægt að kalla það veiði. Ég hef líka haft mínar efasemdir um þetta, standandi út í læk í fleiri tíma með einhverja stöng, var ekki alveg að sjá pointið við þetta.

Þetta reyndist nú, þegar á hólminn var komið, alveg fínt. Bara svo við höfum það strax upp á borði þá veiddi ég ekki neitt enda heilt yfir frekar dauft í þeim efnum í ánni um þessar stundir. Í þessum 20 manna hóp veiddust 4 fiskar seinnipart miðvikudagsins og heilir 3 fyrripart fimmtudags þannig að tölfræðin var nú ekki með mér. Við vorum nú með einhvern guide sem leiddi okkur í gegnum þetta, sá sem var með mér á stöng var ekki mikið reyndari en ég en eitthvað þó. Þetta var nú samt ekki nóg til að ég sé kominn með einhverja bakteríu á háu stigi, maður þyrfti að vera aðeins öflugari í að kasta flugunni og þessháttar. Veit að ég fékk ekki mikið fyrir stíl í þeim efnum, þetta var meira svona stílbrot. Maður skynjaði þó kick-ið á þeim stundum þegar maður hélt að eitthvað væri búið að bíta á agnið, og að því leyti skil ég þetta alveg. Mér fannst svo ótrúlegt hvað tíminn flaug áfram í þessu öllu sem hlýtur að þýða að maður hafi nú ekki verið að drepast úr leiðindum.

Þegar ég kom heim þá var Logi Snær ekki heima, hafði skotist með afa sínum og ömmu í Reynisvatn. Og hann, annað en ég, hafði eitthvað til að sýna við heimkomuna.

fimmtudagur, ágúst 25, 2011

Unglingurinn - Fyrsti hluti að hefjast í alveg hreint mögnuðum þríleik

„Pabbi, ég á svo lítið af buxum. Ég er að spá í einar sem ég ætla að skoða aðeins betur.“
Þögn.
„En þær kosta reyndar 18.000 kr.“

Pabbinn reynir að halda kúlinu og spyr í gamansömum tón: „18.000 kr, það hlýtur þá að vera gott í þeim.“ En í raun var karlinn nánast að falla í yfirlið.

Fyrsti parturinn af þremur, ég festi bara beltin og reyni að skauta í gegnum þetta.

sunnudagur, ágúst 21, 2011

Menningarhelgin

Hér er búið að vera hið þokkalegasta prógramm um helgina. Sigga tók þátt í 10 km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoninu og tókst áætlunarverkið sem var að vera undir 60 mínútumarkinu, 56:42 min svona til að hafa þetta nákvæmt. Ég tók Loga Snæ og Daða Stein með mér niður í bæ og við sáum kellu taka síðustu metrana. Það er eins og mig minni að ég hafi einhvern tímann farið 10 km í einhverju skólahlaupi í Grundarfirði hérna í den og sama minning er líka sú að það hafi verið drulluerfitt. Að öðru leyti hef ég ekki komið nálægt svona skipulögðum viðburðum en einhverntímann var ég nú að hugsa um að taka þátt í þessu Reykjavíkurmaraþoni en ekki hefur það enn komist lengra en að vera bara hugmynd. Röltum aðeins í gegnum bæinn að hlaupi loknu, enda ekki hægt að fá bílastæði þarna alveg við markið. Flott veður og fín stemming.

Ísak Máni gat ekki komið með því hann var bæði á laugardaginn og sunnudaginn í úrvalsbúðum KKÍ, seinni helgin þetta sumarið en þetta er annað árið í röð sem hann fékk boð um að taka þátt í þessu. Styttist í að körfuboltatímabilið hefjist og menn ætla sér mikla hluti, það er vonandi að það verði gleði í vetur hvað það varðar. Annars fékk hann þau góðu tíðindi að hann komst í B-liðs hópinn fyrir úrslitakeppninna hjá 5. flokk í fótboltanum, nokkuð sem ég talaði um hérna fyrir nokkrum pistlum að væri alls ekki víst. Strákurinn var mjög sáttur en þessi úrslit verða um næsta helgi. Á Egilsstöðum...

Ég fór svo með Loga Snæ og Ísak Mána um kvöldið niður í bæ, kíktum á einhverja tónleika og tókum svo þessa margumtöluðu tendrun Hörpunnar eða hvað sem þetta var kallað og svo líka flugeldasýninguna. Skriðum heim um rúmlega miðnætti, alveg ágætlega sáttir með þetta allt saman.

Ekki fór sunnudagsmorgunninn í mikla Joe Boxer náttbuxnanánd því Logi Snær var að keppa á Bónusmóti Fylkis í Árbænum, mæting þar 08:40. Mamman tók að sér að vera mætt með drenginn á réttum tíma, við Daði Steinn létum okkur nægja að mæta rétt fyrir fyrsta leik sem var 09:30. Ísak Máni var á fyrrnefndum úrvalsbúðum. Það gekk hálferfiðlega fyrir veðurguðina að ákveða hvernig þær ætluðu að hafa þetta og eftir að hafa verið að mestu leyti í sól tók þeir rigninguna á þetta þannig að við Daði Steinn beiluðum á síðasta leiknum. Úrslitin frekar niðurdrepandi enda voru þeir að spila við ári eldri drengi en sem fyrr var Logi Snær ekkert að velta því mikið fyrir sér.

Ég er ekki enn búinn að endurnýja áskriftina á Stöð2 Sport2, þ.e. enska boltanum. Get ekki sagt að ég sé hreinlega mikið að taka eftir því.

Valur - Ármann

Skólinn hjá drengjunum að hefjast eftir helgi og þá fer síðasti hluti vetrarrútínunar af stað. Tala nú ekki um fyrst að fyrirhuguðu leikskólaverkfalli var svo afstýrt en það hefði klárlega haft eitthvað að segja varðandi rútínuna hjá þeim yngsta. Ísak Máni og Logi Snær hafa verið á námskeiðum í síðustu viku, ólíkum þó.
Ísak Máni átti að vera á körfuboltanámskeiði hjá ÍR en það var blásið af með einhverjum 12 tíma fyrirvara og því þurftu við að gúggla eitthvað körfuboltanámskeið á höfuðborgarsvæðinu á mettíma. Enduðum við á því að „treida“ honum yfir til Vals og sótti hann því körfuboltanámskeið á Hlíðarenda í vikunni, eins og hann reyndar gerði hérna um árið. Hann var mjög sáttur við það enda aðstaðan öll til fyrirmyndar og þjálfarateymið þar virðist vera að gera gott mót, það skemmdi ekki fyrir að yfirþjálfarinn mundi eftir honum frá því síðast.
Logi Snær fór hinsvegar í Laugardalinn í Ármann, á fimleikanámskeið. Það var allan daginn og skiptist þannig að fyrir hádegi var hann í fimleikum en eftir hádegið var Húsdýragarðurinn, sund, TBR-húsið eða eitthvað annað í þeim dúr. Hann var alveg að fíla þetta og ég held að lendingin verði sú að hann fari í fimleika í haust með fótboltanum ef dagskránnar smella allar saman og mamman sé opin fyrir því að skutla fram og tilbaka.
Það færi nú þá aldrei þannig að maður færi að hoppast og skoppast í kringum fimleikamót líka, svona í dauða tímanum. Alltaf gaman að setja eitthvað nýtt í reynslubankann en fimleikar voru aldrei inn í myndinni með Ísak Mána enda líkamlega aðeins önnur týpa en Logi Snær. Það væri nú líka ekkert gaman ef þeir væru allir eins.

laugardagur, ágúst 20, 2011

Setið á hakanum

Breiðholtið er blátt og hvítt - lalalalala

Stórslagur í Breiðholtinu í gær, Leiknir-ÍR, aka Baráttan um Breiðholt og menn láta nú ekki svoleiðis viðburð fram hjá sér fara. Leikurinn á sama stað í fyrra var enn í bakhöfðinu en þá töpuðum við og Leiknir var hársbreidd frá því að fara upp í efstu deild. Núna var raunveruleikinn annar, bæði lið í bullandi botnbaráttu og með sigri gat ÍR komið sér í þægilegri stöðu og nánast sent nágranna niður. Á móti myndi sigur Leiknis þýða að þessi „systrafélög“ sætu saman með jafnmörg stig og allt upp í loft. Ef ÍR-ingar hefðu átt í einhverjum vandræðum með að peppa sig upp fyrir leikinn þá hefði ein leið að vera fara inn á heimasíðu Leiknis og lesa pistilinn fyrir leik:

Þegar kvölda tekur koma ÍR ingar í heimsókn í miklum botnsslag í 1.deild karla. Leiknismenn mæta galvaskir til leiks gegn ÍR sem hefur átt mjög slöku gengi að fagna undanfarnar vikur og lent í ströglinu.Við aftur á mótum erum einnig búnir að tapa síðustu 3 leikjum og er sannlega þörf fyrir að snúa því gengi við í kvöld.

Leiknismenn verða án Eggerts Rafns Einarssonar sem er meiddur en aðrir leikmenn ættu að vera tiltækir í leiknum. Það er því nokkuð stærri hópur sem mætir í þennan leik en þann síðasta. Kristján Páll snýr til baka úr leikbanni og Brynjar Hlöðversson og Þorgeir Leó koma til baka úr veikindum.

Hjá ÍR eru að mér skilst flestir leikfærir en þeirra langbestu leikmenn Árni Freyr Guðnason sem hefur nú veitt okkur margar skráveifurnar um tíðina og markvörðurinn Róbert Örn verða báðir með.

Leikurinn í kvöld er vissulega mikilvægur uppá framhaldið. Með sigri okkar manna komumst við úr botnsæti en tapi liðið má segja að kraftaverk þurfi til að halda okkur í deild þeirra næstubestu. Sama hvernig fer þá er Leiknir og verður stolt Breiðholtsins. Meðan áhangendur ÍR virðast skjótast úr skúmaskotum þegar leikið er gegn Leikni mætir alltaf sami góði kjarninn af Leiknisfólki. Þegar ÍR ingar brýna raust sína tvívegis yfir árið og þá bara gegn Leikni, þá hvetjum við okkar menn í hverjum leik. Ef við sigrum í dag þá gleðjumst við en ef við töpum og jafnvel föllum í haust þá berjumst við saman að því að byggja áfram upp fallegt félag. Þess vegna mun enginn einn leikur breyta því sem allir vita að við erum um ókomna tíð, Leiknir stolt Breiðholts!


Hroki.is? Skiptir engu máli því þetta fór nú á besta veg, a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð. 0:2 í hálfleik og allt í góðum málum en Leiknir minnkaði muninn í síðari hálfleik sem hleypti fullmikilli spennu í þetta en ÍR náði að landa þessu.
Stemming í stúkunni og var hún meiri gestamegin heldur en hjá heimaliðinu, ólíkt árinu áður. Leiknir á enn tölfræðilega möguleika á að bjarga sér en virðast vera á leið niður í 2. deild eða eins og ein pillan sem flaug úr gestastúkunni í gær: „Leiknir er alveg að falla fyrir okkur...“ Ég væri nú svo sem alveg til í að sjá þessi grey uppi kannski á kostnað Gróttu því leikir þessara Breiðholtsliða eru alltaf extraspes, en ég missi engan svefn yfir þessu. Á meðan ÍR endar ekki í öðruhvoru fallsætinu þá er mér sléttsama.

þriðjudagur, ágúst 16, 2011

Bleyjukaupandinn

Ég byrjaði að kaupa bleyjur á því herrans ári 1999 og hef gert það hlélaust síðan. Auðvitað hafa kaupin verið misör á þessu tímabili en þetta gekk þannig til að byrja með að þegar nr. 1 var að hætta að sofa með bleyju þá mætti nr. 2 á svæðið og þegar hann var að hætta að sofa með svona græju þá mætti nr. 3 og áfram hélt maður að kaupa bleyjur.
Nr. 3 er hættur að nota bleyjur á daginn, hætti núna í sumar, og gengur það bara mjög vel. Svo fórum við að taka eftir því að bleyjurnar sem við settum á hann á kvöldin voru yfirleitt þurrar á morgnana. Það var því bara eitt að gera, prófa að láta hann sofa bleyjulausan og núna er hann búinn að sofa 4-5 nætur, slysalaus. Kannski er ég að storka örlögunum með því að birta þennan pistil.
Ég er ekki farinn að kæla kampavínið ennþá, vitandi það að bakslögin eru líkleg til að mæta á svæðið. En ég væri alveg til í að þetta myndi í framhaldinu ganga eins og í sögu. Lygasögu þess vegna.

mánudagur, ágúst 15, 2011

Uppáhaldssveitaliðið

Að elta hverfisklúbbinn minn í sumar hefur verið takmörkuð stemming en ég hef nú samt látið mig hafa það. Aðra sögu er hinsvegar að segja af meistaraflokki Grundarfjarðar í 3ju deildinni. Fjölskyldan skellti sér í bíltúr út á Álftanes á laugardaginn, til að sjá uppáhaldssveitaliðið spila fótbolta. Logi Snær fór í heimsókn til Óðins, gamla leikskólafélagans, sem flutti þarna út eftir fyrir þó nokkru. Restin af genginu horfði á Grundarfjörð sigra Álftnesinga 0:2 og tryggja sér þar með sæti í úrslitakeppninni í 3ju deildinni þrátt fyrir að ein umferð sé eftir. Tommi frændi fastur á sjúkrabílavaktinni í sveitinni og bruddi sprengitöflur á meðan ég sendi honum sms um gang leiksins. Ég tók að mér að vera með myndavélina á kantinum, bara gaman að því. Enn verður maður að hrósa þessu strákum sem halda utan um þetta, Tomma og co. Fyrsta árið eftir endurvakningu klúbbsins var ekkert sérstakur svona stigalega séð en þetta hefur smollið flott núna á ári tvö. Heyrst hefur að líklegastir mótherjar Grundarfjarðar á fyrsta stigi úrslitakeppninnar sé Magni frá Grenivík. Fjandinn sjálfur, hvað er maður lengi að keyra á Grenivík? Þetta er alvöru stemming.

sunnudagur, ágúst 14, 2011

Ísak Máni á Íslandsmóti

Það færist hér til bókar á ÍR vann Leikni 4:0 í B-riðli B-liða á Íslandsmótinu hjá 5. flokk karla á núna á föstudag. Ísak Máni er nú ekki mikið í því að skora mörk og ekki komu þau hjá honum núna en mikið langaði honum. Fékk tvö fín færi, sem gerist heldur ekki oft, en það hafðist ekki. Átti þó stoðsendingu í einu markinu og sendingu á þann sem gaf stoðsendinguna í tveimur (er þetta ekki einhver tölfræði sem menn í henni Ameríku halda utan um?). Strákurinn er því væntanlega að ljúka 7-manna boltaferlinum án þess að hafa tapað fyrir Leikni og það er ágætt fyrir sálartetrið, a.m.k. ef þú heldur með ÍR. Annars hefur Ísak Máni fengið smá smjörþef af B-liðinu en er venjulega í C-liðinu. Vitaskuld vilja menn vera í efri hluta goggunarraðarinnar og ég tala nú ekki um þegar B-liði er í toppbaráttu í sínum riðli á meðan C-liðið siglir lygnan sjó. Reyndar fór nú svo að hann var færður aftur í C-liðið í lokaleik riðlakeppninnar sem fór fram í dag á Hlíðarenda. B-liðið er komið í úrslitakeppnina á meðan C-liðið hefur lokið leik og það verður að teljst ólíklegt að hann nái inn í B-liðs hópinn. Hann hefði væntanlega alveg verið til í að spila í úrslitum núna eins og í fyrra. Kemur í ljós síðar.

sunnudagur, ágúst 07, 2011

2ja fótboltamótahelgin

Þá er helginni, sem við höfðum svona semi-andvarpað yfir, að ljúka. Semi-andvarpað aðallega vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því fyrir nokkru að eitthvað þyrftu menn að skipta liði. Logi Snær að keppa á Króksmótinu á Sauðárkróki en Ísak Máni á Olísmótinu á Selfossi. Fór það svo þannig að Sigga hélt á Krókinn, seinnipart föstudagsins með Loga Snæ, á meðan ég sá um Ísak Mána og Daða Stein. Gekk þetta ágætlega með Loga Snæ, úrslitin voru ekkert spes því aðeins einn sigur komst í hús á meðan rest tapaðist en Logi virðist ekki vera að velta sér upp úr því. Ekki að heyra annað en að hann hafi skemmt sér vel og mamman virðist hafa komið heil út úr þessu að mér sýnist, en þau voru að detta í hús. Engin bongóblíða þarna fyrir norðan en þurrt og það er nú oft fyrir öllu.

Olísmótið byrjaði hinsvegar á föstudeginum þannig að við Ísak Máni vorum mættir á Selfoss um hádegisbil. Spáin var ekkert sérstök fyrir þann daginn en árinu áður lentum við í einhverju því versta veðri sem ég hef upplifað á svona mótum og er búinn að fara á þau nokkur. Rifjum aðeins upp stemminguna í fyrra:



Þetta var ekki alveg svona slæmt í ár en við fengum samt ágætlega hressilega rigningu á köflum þarna á degi eitt. Úrslitin voru ekki alveg að detta í hús hjá Ísaki og félögum, töpuðu fyrstu tveimur áður en sigur hafðist í síðasta leik. Eftir þennan dag röðuðust liðin í riðla og hið eiginlega mót fór svo fram á laugardegi og sunnudegi. Ég brunaði í bæinn þarna á föstudagskvöldinu og sótti Daða Stein upp í Bröttuhlíð þar sem hann hafði verið í pössun að leikskóladegi loknum. Hann kom svo með mér á laugardeginum, enda miklu skárra veður og ekki skemmdi árangurinn inn á vellinum fyrir, þrír sigrar í þremur leikjum. Svo var bara brunað heim um kvöldið og svo aftur til höfuðborg hnakkanna á sunnudeginum.


Á lokadeginum var þvílík blíða og gleði í gangi. Báðir leikir dagsins unnust og því efsta sætið í riðli 2 hjá C-liðum og dolla í hús. Guttinn stóð sig bara vel, lék sem fyrr mest í vörninni en fékk einnig nokkur tækifæri á kantinum. Ákveðnum kafla lokið hjá honum en þetta var hans síðasta mót í þessum hefðbundu gistimótaseríum sem einkenna 8.-5. flokk og gaman því að ljúka þeim kafla með bikar. Í haust verður það 4. flokkur sem tekur við og þá dettum við í hefðbundinn 11-mannabolta og annars konar mót. Það verður öðruvísi en vonandi líka gaman, öðruvísi gaman.


Aftari röð:
Viktor Snær, Hákon Örn, Ísak Máni, Tristan og Berti þjálfari.
Fremri röð: Kjartan, Haraldur og Viktor Ingi.
Fremstur: Pálmi.

miðvikudagur, ágúst 03, 2011

Daði Steinn leikskóladrengur

Daði Steinn byrjaði í leikskóla í dag, á Fálkaborg. Ísak Máni og Logi Snær voru báðir á Arnarborg en við ákváðum að prufa nýja stað með þann minnsta. Reyndar voru þessar stofnanir sameinaðar eða yfirstjórn þeirra a.m.k. þannig að það er hægt að segja að þetta sé sama tóbakið en í raun er það ekki. Sigga sér um aðlögunina í þetta skiptið, hún fær að leika sér með litlu börnunum fram á föstudag en frá og með mánudeginum er drengurinn á eigin vegum.

Endum þessa videóviku með broti af leikskóladrengnum um helgina, í boltaleik. Hvað annað?

þriðjudagur, ágúst 02, 2011

Listin að halda bolta á lofti

Ísak Máni er alltaf í boltanum eins og hefur margoft komið fram hérna á þessari síðu. Um daginn var sett upp ákveðið takmark fyrir strákana í fótboltanum, þ.e. hjá 5. flokknum, en snérist það um að halda bolta á lofti og telja hversu oft þeir geta haldið honum á lofti með öllum líkamanum nema höndum án þess að tuðran snerti jörðu. Í grófum dráttum er þetta sett upp þannig að þeir hafa tíma fram að lokahófi í haust til að ná ákveðnum fjölda í þessari iðju. Fyrir 50 skipti fá þeir brons, 100 skipti veitir þeim silfur og 150+ skipti er gull viðurkenning. Sönnunarbirgði drengjanna er talsverð í þessu, annað hvort verða þeir að framkvæma þennan fjölda fyrir framan þjálfarana eða leggja fram myndbandsupptöku af gjörningnum. Almenn vitni út í bæ teljast sem sagt ekki með og skiptir þá engu máli hvort þau eru blóðskyld eður ei, ung eða gömul, eða jafnvel með 5 háskólapróf.
Ég vissi ekki alveg hvað mér átti að finnast um þetta, vitandi það að þetta var nú ekki alveg sterkasta hliðin hjá frumburðinum en hann hafði víst náð rétt rúmum 30 skiptum fyrir þetta. En þá er víst ekkert annað að gera en að æfa sig og æfa sig svo aðeins meira. Þolinmæðin er ekki alltaf okkar sterkasta hlið og oft vilja menn að hlutirnir gerist strax.

En litlir sigrar hafa unnist og hann er búinn að vera nokkuð grimmur að gera eitthvað á hverjum degi og er yfirleitt að ná kringum 50 skiptum ef hann tekur sig til í smátíma. Stór sigur náðist um helgina í Baulumýri þegar 68 kvikindi náðust og svo heppilega vildi til að undirritaður var með vélina á lofti þannig að það er til skjalfest og bronsið því væntanlega í húsi.



Drengurinn toppaði sig þó allrækilega í dag og náði 96 skiptum en reyndar bara í vitna viðurvist, þ.e. úti á velli með félögunum. Stefnan á silfrið er því freistandi en við verðum að sjá hvernig það tekst til. Ég smitaðist nú aðeins um helgina og tók smá skorpu í þessu. Í minningunni átti ég lengi vel 80 skipti sem náðust á blettinum í Sæbólinu áður en mér tókst að brjóta 100 skipta múrinn með 120 og eitthvað minnir mig en reyndar var ég ekki nógu duglegur í að æfa mig í þessu hérna í gamla daga. En um helgina náði ég 137 skiptum og það verður því að teljast persónulegt met á meðan ég man ekki meir.

Það náðist reyndar ekki á teip og ekki kjaftur til að staðfesta þá sögu.

mánudagur, ágúst 01, 2011

Verslunarmannahelgin 2011

Það stefndi nú ekki í mikla ferðamennsku þegar nær dró verslunarmannahelginni, rigningarspá um flest allt land og ég var ekki að sjá mig keyra til Egilsstaða eða eitthvað álíka til að komast í sól. Okkur stóð til boða að kíkja til Ingu og co í Úthlíð en það yrði nú aldrei nema dagstúr þannig að við tókum hinn kostinn, að fá bústaðinn í Baulumýri lánaðan. Þriðji kosturinn var vitaskuld að taka bara höfuðborgina á þetta en við ákváðum samt að taka sénsinn á sveitinni.
Pökkuðum nóg af pollafötum og engum stuttbuxum (nema sundfötum) og héldum af stað á laugardagsmorgni. Þegar í sveitina var komið var brostið á með þvílíkri blíðu. Laugardagurinn var því bara notaður í léttklætt pallachill og lækjasull, misgáfulegt þó eins og okkar er von.





Eins og hendi væri veifað skall svo á með rigningu um kvöldmatarleytið bara svona rétt til að bleyta upp í sveitinni því það hætti aftur mjög fljótlega, stóð yfir rétt áður en farið var að grilla. Sunnudagurinn fór í berjatínsluferð og almenna afslöppun, hlýtt veður en aðeins vindur með því.
Héldum heim á leið fyrir hádegið í dag því við ákváðum að nota tækifærið og uppfylla eina ósk hjá drengjunum sem var að fara í sund í Borgarnesi. Eftir sundferðina hentum við í okkur sveittum vegasjoppuborgurum í Hyrnunni áður en lagt var svo af stað heim með fulla tösku af ónotuðum stígvélum og pollafötum.

Karlinn að fara að vinna á morgun og Daði Steinn að byrja í leikskóla á miðvikudag þannig að það styttist í hefðubundnu rútínuna.

sunnudagur, júlí 24, 2011

Á góðri stund 2011

Sem fyrr skelltum við okkur til Grundarfjarðar á bæjarhátíðina Á góðri stund. Annað árið í röð var spáin ekkert spes og annað árið í röð slapp þetta alveg. Fimmtudagur og föstudagur alveg flottir og laugardagurinn með sól en full vindasamur. Svo fór að rigna í dag en það var allt í góðu, við vorum á leiðinni heim. Venjulega hef ég bara verið í fríi á föstudegi þessi helgi þannig að við höfum verið að koma á fimmtudagskvöldi í bæinn. Núna komum við upp úr hádegi á fimmtudeginum og það var gaman að sjá hversu fljótt og vel það gekk að skreyta bæinn, greinilega vant fólk þar á ferð. Á örskotsstundu, að mér fannst, var búið að strengja viðeigandi litaborða á milli flestra ljósastaura í bænum. Engir aðrir gestir þetta árið á Smiðjustígnum þannig að mamma fékk „bara“ 5-manna fjölskyldu yfir sig í ár.


Meðal skemmtiatriða á föstudagskvöldinu var knattspyrnuleikur milli Grundarfjarðar og Ísbjarnarins í 3ju deildinni, atburður sem var reyndar ekkert skemmtilegur fyrr en undir lokin þegar heimamenn tryggðu sér sigurinn í leik sem þeir voru að tapa þegar skammt var eftir. Ekki er annað hægt en að hrósa þeim sem standa að liðinu, ég hef aldrei farið á leik svo ég muni eftir þar sem sushi-bitar voru seldir í sjoppunni. Einnig var uppboð í hálfleik á áritaðri Grundarfjarðartreyju sem var slegin á 30.000 kall. Sá eldheiti heiðursmaður skellti sér strax í treyjuna en var orðinn sótsvartur af pirringi þegar ekkert virðist ætla að ganga hjá liðinu. Spígsporaði fram og aftur í brekkunni og lét svo eitt gullkornið flakka: „Af hverju hlaupa þeir ekkert. Helv... maður, ég verð að komast inná. 100 þúsund kall og ég fæ að fara inná, ég er í treyju og allt.“ Það er bara einn Geiri Ragga.


Að flestu leyti var þetta bara hefðbundin hátíð, grillveislan, leiktæki, fimleikasýning, skrúðgöngur og brekkusöngur. Mér fannst reyndar færra fólk en oft áður en fyrir mitt leyti var það ekkert verra, þægilegt að rölta um hátíðarsvæðið í góðum gír án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að stíga á einhverjar tær. Kannski einhverjir aðrir sem sjá þetta með öðrum augum.

mánudagur, júlí 11, 2011

Grill í Grundó

Skelltum okkur í skottúr til Grundarfjarðar á laugardeginum, þ.e. ég og drengirnir en Sigga fór í gróðursetningar í Baulumýri eða húsmæðraorlof eins og hún kaus að kalla það. Við tókum daginn snemma, vorum mættir á Smiðjustíginn rúmlega 10 um morguninn en þar var fullt hús af fólki. Reynir og Heddý ásamt Lilju og svo var Villi og co búin að tjalda á blettinum. Létum engan vita af ferðum okkar og mamma þurfti víst að kíkja tvisvar þegar hún sá allt í einu Ísak Mána út um eldhúsgluggann.
Þvílík bongóblíða að það hálfa hefði verið nóg og þá eru fáir staðir betri en pallurinn í Grundarfirði. Við notuðum tækifærið og skelltum okkur á völlinn til að sjá toppslag í C-riðli 3ju deildar á milli Grundfirðinga og Berserkja. Villi hafði orð á því að sveitakaffið væri helmingi dýrara en upp í efra-Breiðholti en svona sýningu hefur hann ekki séð lengi á Leiknisvellinum. Heimamenn 0:2 undir í hálfleik áður en 3 rauð spjöld voru splæast á gestina á 10 mínútna kafla í síðari hálfleik og miðvörður heimamanna tók sig til og setti þrennu í 3:2 sigri, hið síðasta í blálokin og allt ætlaði um koll að keyra á pöllunum. Þvílíka öryggisgæslu þegar dómarinn gekk til búningsklefa hef ég aldrei séð í þessari deild.
Dýrindisgrillmatur um kvöldið áður en ég hélt með mína áleiðis í Baulumýri til að ná í yfirmann gróðursetningardeildarinnar og svo var stefnan tekin á Eyjabakkann. Skriðum heim um klukkan 23:30 eftir nokkuð langan dag en déskoti fínan.

mánudagur, júlí 04, 2011

Enn eitt mótið á Akureyri 2011


Áfram var haldið til móts við knattspyrnumót sumarsins. Nú var stefnan tekin á Akureyri, á N1 mótið fyrir 5. flokk karla þar sem Ísak Máni var að keppa.
Við í fimm manna fjölskyldunni tókum ferðalagið norður í tveimur pörtum, lögðum af stað um kvöldmatarleytið á þriðjudaginn síðasta og tókum stefnuna á bústað í Hrútafirði, rétt við Staðarskála, þar sem aðrir fimm ferðalangar í sömu erindagjörðum og við höfðu til ráðstöfunar og buðu okkur svefnpláss. Það var því þægilegri rúnturinn inn á Akureyri á miðvikudeginum heldur en að þurfa að taka þetta í einum rykk.


Mættum norður í hálfkuldalegt veður og það gekk á með skúrum. Sem betur fer var bara einn leikur þann daginn þannig að það var hægt að dunda sér í einhverju öðru. Við vorum búin að taka á leigu litla tveggja herbergja íbúð í miðbænum, Ísak Máni svaf í skólanum hjá liðinu. Þeir dagar sem voru í vændum urðu mjög vænlegir veðurlega séð, svo góðir að nokkur nef náðu að brenna. Hálfótrúlegt í ljósi þess að maður hafði verið hérna ansi þungur á brún þegar styttist í brottför og flestar veðurspár sáu bara blautt, þær reyndar fóru batnandi þegar nær dró. Það var ekki fyrr en á lokahófinu á laugardagskvöldinu að það fór að rigna aftur. Við vorum með kofann á leigu fram á sunnudag og reyndum að gera ferðalagið heim eins bærilegt og hægt var. Stoppuðum á Blönduósi og fórum í sund áður en haldið var áfram heim.


Boltalega gekk þetta ágætlega, tapleikirnir urðu reyndar fleiri en sigurleikirnir hjá Ísaki og félögum en C-liðið lenti í 14. sæti af 28 liðum þannig að það má segja með réttu að þetta hafi verið svona medium. Guttinn fékk heilmikinn spilatíma, enda fyrirliði liðsins og sinnti varnarskyldum sínum af prýði. Hin ÍR liðin voru svona á allskonar róli, A-liðið lenti í 23. sæti af 28 A-liðum, B-liðið í 12. sæti af 28 og F-liðið í 6. sæti af 28 F-liðum.


Heilt yfir var þetta því fínasti túr. Undirritaður er reyndar að fara til vinnu á morgun og verð í því út þá næstu en eftir hana er ráðgert að taka sér eitthvað ágætisfrí. Ekkert mikið skipulag í gangi nema að ekki erum við laus við knattspyrnumót sumarsins því í byrjun ágúst fer Ísak Máni á Selfoss en Logi Snær á Sauðárkrók ... sömu helgina. Meira um það síðar.

Aftari röð: Rökkvi, Dagur, Tristan, Snorri og Ísak
Fremri röð: Magni, Viktor, Antoníus og Ævar
Fremstur: Andri

sunnudagur, júní 26, 2011

Topplaus Esja í annarri tilraun

Fyrir daginn í dag hafði ég einu sinni lagt á Esjuna. Árið var 2003 að ég held og við Sigga lögðu í þetta, hvorugt með mikla reynslu í Esjubrölti. Við komumst langleiðina upp á topp en við vorum ekki alveg með það á hreinu hvaða leið væri best þannig að við létum það nægja í það sinnið. Ekki margir á fjallinu þann daginn.
Síðan hafa liðið mörg ár og Sigga hefur stundað þessa Esjugöngur með þónokkru trukki og alltaf hef ég svo sem verið á leiðinni aftur. Við létum okkur hafa það í dag að skella öllum mannskapnum af stað og sjá til hvernig þetta færi.
Þokkalegasta veður, reyndar ekkert alltof hlýtt og á köflum fengum við nokkra dropa til að bleyta aðeins í mannskapnum. Sigga snéri við fljótlega „eftir læk“ með Daða Stein, sem hafði nú aðallega verið í bakpokanum, og Loga Snæ. Við Ísak Máni létum okkur hafa það að koma okkur upp að steininum margfræga en létum það nægja í bili. Náðum þangað upp eftir rétt tæpa tvo tíma en tókum semiskokkið niður á rúmum 40 mínútum.

Í þriðju tilraun skal það hafast að komast á toppinn og við skulum reyna að hafa ekki alveg svona langt á milli tilrauna.

miðvikudagur, júní 22, 2011

Mánuður kominn í nýja jobbinu

Sama hús - sama hurð - sama hæð

annað borð - annað útsýni - aðrar áskoranir

þriðjudagur, júní 21, 2011

Meistarar


Aftari röð frá vinstri: Egill Skorri, Andri Freyr, Dagur Snær, Logi Snær og Helgi.
Fremri röð frá vinstri: Theódór, Davíð Leó, Jónbjörn og Óliver Elís.

mánudagur, júní 20, 2011

sunnudagur, júní 19, 2011

Skagamótið 2011 - Dagur 3

Lokadagur mótsins og bara einn leikur. Logi Snær og félagar spiluðu við FH og höfðu sigur, 2:0 í spennandi leik. Með því tryggðu þeir sér sigur í íslensku deildinni, þeirri efstu, E-liða og bikar í hús. Ekki slæmt svona á fyrsta móti, það er vonandi að ferillinn hjá guttanum verði ekki bara down-hill eftir þetta. 8 leikir, 7 sigrar og eitt jafntefli og Logi Snær með 4 mörk þrátt fyrir að spila að mestu leyti í vörninni. Bongóblíða upp á Skaga í dag og það gerir allt mun skemmtilegra. Náðum að skottast aðeins með þeim Leiknismönnum sem standa okkur næst og tókum léttan ísrúnt. Svo þegar þessu var öllu lokið var bara farið í biðröðina á þjóðvegi eitt til Reykjavíkur.

laugardagur, júní 18, 2011

Skagamótið 2011 - Dagur 2

4 leikir hjá Loga Snæ í dag. Hinn fyrsti var ekki fyrr en kl. 13:30 þannig að undirritaður, Ísak Máni og Daði Steinn gátu startað deginum hérna í Reykjavíkinni á rólegum nótum. Náðum að fara í smá verslunarferð þar sem versla þurfti nýja skó á frumburðinn og einnig var nauðsynlegt að fylla á kanilsnúða- og kleinubirgðirnar, lífsnauðsynlegur varningur fyrir áhorfendur á fótboltamóti.


Niðurstaðan úr leikjum dagsins var 3 sigrar og eitt jafntefli. Síðasti leikur mótsins, gegn FH, verður svo á morgun. Menn eru því væntanlega í góðum séns að vinna deildina sína en það kemur allt í ljós á morgun, lokadaginn. Logi Snær var nú ekki á skotskónum í dag en var í þokkalegum fíling, þreytan var þó farin að láta segja til sín þegar leið á daginn eins og hjá fleirum.


Veðrið var fínt í dag og mér skilst að það verði fínt á morgun líka þannig að ekki er það vandamálið.

föstudagur, júní 17, 2011

Skagamótið 2011 - Dagur 1

Ég hef nú minnst á það við einhver tækifæri að maður sé stundum farinn að endurupplifa sig. Það má kannski halda því fram að sú hafi verið raunin í dag, big-time. 1. dagur Skagamótsins, eða Norðurálsmótsins eins og það heitir í dag, hjá Loga Snæ og í raun fyrsta stóra mótið hans. Ísak Máni fór 3svar sinnum á það þannig að það var nett dejavú í gangi. Var nú hálffurðulegur 17. júní, það verður bara að segjast.

Mamman í fararstjórahlutverkinu og stórfjölskyldan lagði af stað rúmlega 9 um morguninn, mæting kl 10:00 upp á Skaga. Nýju ÍR-búningarnir náðust í hús, reyndar 6. flokks búningarnir þannig að þeir voru aðeins vel rúmir en algjört smáatriði þegar um nýja búninga er að ræða. Stráksi fékk fimmuna eftir þrýsting frá elsta drengnum, menn verða víst oft að vera eins og stóri bró.


3 leikir í dag og þeir unnust allir, stórt. Það verður að segjast að ég hafði óttast þetta, ekki það að þessir strákar séu einhver hópur náttúruundra í tuðrusparki en þá fannst mér æðstu stjórnendur klúbbsins flokka þá heldur neðarlega í getustigi og því fór sem fór. Jæja, þeir lenda á morgun í hóp þeirra sem stóðu sig hvað best í dag þannig að vonandi verður þetta eitthvað jafnara, spurning hvort menn fái tóma skelli til baka í andlitið. Logi Snær spilaði aðallega á vinstri kanti eða í vörn og átti fínan dag verður að segjast. Skoraði fyrsta mark liðsins í fyrsta leik gegn Víkingi og bætti öðru við síðar í leiknum ásamt því að setja sitt hvort markið í leikjunum gegn KR og Fram. Fyrir síðasta leikinn á móti Fram bað Ísak Máni hann um að fagna með handahlaupi ef hann næði að skora. Markið kom og ekki stóð á Loga með handahlaupsfagnið í kjölfarið.

Markið á móti KR

Enda þetta á smá seríu úr KR-leiknum, sparkinu fylgja oft byltur og brölt.











17. júní 2001

Sumir einstaka atburðir dagsins eru mér alveg ljóslifandi en heildarmyndin er ekki alveg skýr. Þetta var sunnudagur. Ég man að ég fór til mömmu og Varða tiltölulega snemma dags þar sem þau voru með íbúð í miðbænum, læknabrölt á Varða. Hvar Sigga og Ísak Máni voru man ég ekki. Ég man að við fórum og fengum okkur að borða á austurlenskum stað á Laugarveginum, á móti þar sem eitt sinn var leikfangabúðin Liverpool en er Dressman í dag. Austurlenski staðurinn er ekki þarna lengur. Við sátum við gluggann og ég var hálfstressaður man ég því ég lagði Cocoa Puffs bílnum þarna í götunni og ég var alveg handviss að nú færu þeir að loka götunni út af hátíðarhöldunum og þá yrði vinnubíllinn fastur á Laugarveginum. Minnir að við höfum keyrt smá hring áður en ég skutlaði þeim aftur á Lokastíginn. Það var náttúrulega ekki möguleiki að fá stæði þar þannig að ég stoppaði bara í götunni og hleypti þeim út og horfði á eftir þeim inn. Karlinn sá ég aldrei aftur á lífi.

Ég fór heim og var einn heima að horfa á Roma vinna Parma 3:1 og tryggja sér Ítalíumeistaratitilinn, hinn þriðja í röðinni og þann síðasta so-far. Man hvernig sófinn snéri í stofunni. Man að ég lét Tomma frænda vita hver framvinda leiksins var með sms-sendingum þar sem hann sat í jakkafötunum í útskrift hjá Rúnu á Akureyri. Held að það sé rétt hjá mér. Meira af deginum man ég ekki.

Sunnudeginum á eftir, daginn fyrir 2ja ára afmælið hans Ísaks Mána, var karlinn allur og það atvikaðist þannig að ég hitti hann ekki þótt hann væri í bænum þessa viku á milli. Ég man að í eitt skipti var ég eitthvað að þvælast út af vinnunni þarna í miðbænum í þessari viku og ákvað að detta inn svona án þess að gera boð á undan mér. Ég dinglaði bjöllunni en mamma og Varði voru ekki heima. Ég man svo vel að það færðist undarleg tilfinning yfir mig þarna á útidyratröppunum án þess að ég hafi mikið pælt í því þá. Heyrði svo í þeim seinna um daginn og þá kom í ljós að þau höfðu verið heima nánast allan daginn, rétt skroppið út til að taka lítinn hring í hverfinu sem var akkúrat þegar ég kom. Svona getur þetta verið skrítið.

10 ár eru á margan hátt rosalega fljót að líða, en svo skrítið hvað sumt er eins og það hafi verið í gær.

föstudagur, júní 03, 2011

Allir að koma til

Hér er heilt yfir ágætis ástand. Ísak Máni fór að keppa í fótbolta á Selfossi á miðvikudaginn og á fimmtudeginum tók Logi Snær þátt í móti á ÍR vellinum. Get því ekki sagt annað en að þetta sé allt á réttri leið.

þriðjudagur, maí 24, 2011

Aftur af 19 titlum United

Við strákarnir í vinnunni vorum smá tíma að fatta þetta en díses hvað við hljótum að vinna á flottasta stað í heimi.

föstudagur, maí 20, 2011

Skurðurinn á Loga Snæ

Svona fyrir þá sem hafa læknisfræðilegan áhuga á skurðum og saumum þá lítur þetta svona út. Menn geta klikkað á myndina til að fá þetta í meira návígi en ef sá áhugi er ekki til staðar, jafnvel bara nettur ógeðishrollur, þá bið ég afsökunar á þessu.
Við vorum ekki alveg nógu sátt við hvernig drengurinn var að höndla þetta, eða að höndla þetta ekki öllu heldur svo mamma hans fór með hann aftur til læknisins. Sá hafði nú ekki miklar áhyggjur en skipti um umbúðir á fótunum. Við vonum að þetta fari nú að ganga eitthvað betur, Logi Snær gengur alveg um en það verður að segjast að hann er ekki að fá mörg stig fyrir stíl. Ísaki Mána gengur betur, í bókstaflegri merkingu og nú er svo sem bara að bíða eftir því að saumarnir verði teknir úr þeim, sem verður næsta fimmtudag.

sunnudagur, maí 15, 2011

Annar í stíganda

Drengirnir máttu fara að stíga í lappirnar í gær eftir 3ja daga legu en það gekk svona upp og ofan. Það kom í ljós að það er einhver sársauki sem fylgir því að stíga í fæturnar, á svo sem ekki að koma á óvart þar sem sárin og saumarnir eru jú á iljunum. Ísaki Mána gekk þetta aðeins betur og á degi tvo er hann farinn að rölta um, reyndar ekki hröð yfirferðin á honum en það er nú alveg eðlilegt. Logi Snær er ekki kominn alveg eins langt í endurhæfingunni og þetta er að reynast honum erfiðara.

Samkvæmt plani áttu þeir að fara í skólann á morgun og það verður raunin með Ísak. Hann er aðeins að fara í eitt próf þannig að þetta verður ekkert stórmál. Mér sýnist hinsvegar á öllu Logi Snær verði að taka morgundaginn heima á morgun. Vona að hann fari að stíga skrefið til fulls í þessu, í bókstaflegri merkingu.

fimmtudagur, maí 12, 2011

Fótaaðgerðartilboð: 2 fyrir 1

Gærdagurinn var sérdeilis hressandi. Fyrir einhverju síðan var ákveðið að fá bót fótameina þeirra tveggja elstu með smávægilegri aðgerð. Fótamein sem hafa s.s. ekki haft djúpstæð áhrif á þeirra daglega líf en valdið þeim ákveðnum óþægindum. Við vorum búin að brölta með Ísak Mána til hinna ýmsu sérfræðinga sem allir höfðu sína skoðun á málinu, einfaldlega of há rist, of stuttar sinar í iljum, of- þetta og of- hitt. Prófað einhver innlegg og ég veit ekki hvað. Hjá Loga Snæ hefur það verið þannig að hann labbar mikið út á jörkunum og eftir að hann byrjaði í fótbolta hefur hann oft og iðulega kvartað mikið yfir sársauka í fótunum. Málið er einfaldlega svo hjá þeim að þeir virðast ekki getað rétt nógu mikið úr ristinni eða ilinni, eftir á hvernig það er litið.


Við ákváðum að taka þennan slag með þessari aðgerð þar sem farið er inn í ilina með litlum skurði og liðkað fyrir eitthvað af þessum böndum þar. Þetta heitir eitthvað voða flott á latínu. Við mættum í gærmorgun upp í einhverja læknastöð í Glæsibænum, klárlega staður þar sem ríka og fræga fólkið á Íslandi lætur slétta úr sér og lyfta hinu og þessu. Drengirnir svæfðir, aðgerðin sjálf tók mjög stuttan tíma og eftir að þeir voru búnir að hrista af sér svæfinguna var farið heim, 2 1/2 tími með öllu.


En samkvæmt smáaletrinu mega þeir ekki stíga í fæturnar fyrr en á föstudagskvöld í fyrsta lagi. Mega fara í skólann á mánudaginn og svo er bara mæting í tjékk eftir tvær vikur og viku eftir það eiga þeir að vera orðnir færir í flest. Dagurinn í gær gekk þokkalega en þar sem ég á ekki hjólastóla (ekki það að íbúðin bjóði upp á það) þá þarf að handlanga þá hvert sem þeir þurfa að fara. Logi Snær er talsvert meðfærilegri en Ísak Máni enda er sá síðari orðinn einhver 45 kíló og tekur í. En þetta er víst bara verkefni sem þarf að leysa, við hugsum um daginn í dag og svo verður dagurinn á morgun síðasti handlangaradagurinn. Það verður talsverð viðbrigði að hafa engar fótbolta- eða körfuboltaæfingar til að skoppast í kringum um. Ég tala nú ekki um keppnislausar helgar, ég veit bara ekki hvað við eigum af okkur að gera.




Góðu fréttirnar í þessu öllu er þó að í einhverri skoðuninni hjá skurðlækninum var Daði Steinn með í för og læknirinn gat ekki stillt sig um að taka út lappirnar á honum. Þær líta bara vel út þannig að ég vonast til að við séum hólpin, skárra væri það en að þetta tækist ekki í þriðju tilraun.

miðvikudagur, maí 11, 2011

Aldarafmæli tilfinningatengsla nr. 1

Ég tel mig hafa tilfinningaleg tengsl við tvö íþróttafélög á Íslandi. Á vissan hátt á ólíkan máta.

Þrátt fyrir að að hafa alist upp frá 6 ára aldri og fram undir 13 ára afmælið á Hagamelnum, steinsnar frá Frostaskjólinu og með KR-inga alltum kring þá hélt ég alltaf með Val. Villi bróðir hafði vitaskuld eitthvað um það að segja enda dripplaði hann körfubolta með Hlíðarendapiltum þannig að sú tenging var kannski ekki óeðlileg. En ég bjó aldrei í Hlíðunum, æfði aldrei sjálfur með Val og var aldrei þannig tengdur klúbbnum. Það var samt svo að þegar maður var kominn í Grundarfjörðinn þá hélt maður áfram stuðning sinn við klúbbinn, fylgdist með þeim úr fjarlægð taka einhverjar dollur í fótbolta og handbolta og var bara helsáttur með þetta. Maður var þó ekki fastagestur á vellinum af skiljanlegum ástæðum.

Eftir að maður flutti á mölina haustið 1996 þegar HÍ ferillinn hófst, fyrst á Baugatanga og síðar Eggertsgötuna, var ekki mikið um það að maður væri eitthvað að skoppast á völlinn. Sem fyrr, maður var ekki beint í hverfinu og né hafði einhverja sérstaka sameiginlega vinatengingu á Hlíðarenda. Breiðholtið tók við 1999 en áfram hélt maður að fylgjast með Völsurunum svona úr fjarska. Ég man enn eftir laugardagseftimiðdeginu í september þarna 1999 þegar ég stóð á gólfinu í GÁP og var að skella í lás. Ég hafði hlusta á leikinn í útvarpinu þegar Valur tapaði 3:1 fyrir Grindavík í lokaumferðinni og féllu úr efstu deild í fyrsta skipti í sögunni. Ég kom heim og fór í göngutúr um hverfið, svona til að hreinsa hugann. Sigga hélt að ég væri búinn að missa það. Bara svo til að strá salti í sárinn hafði KR, í vikunni áður, tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 31 ár. Svo tók við jójó brölt á liðinu, upp og niður einhver 6 ár í röð held ég svo ekki var það til að æsa upp í manni áhugann. Fór þó við vel valin tækifæri, síðasta heimaleikinn á gamla vellinum á Hlíðarenda haustið 2005 og sá þá verða meistara 2007 í lokaleiknum á Íslandsmótinu á Laugardalsvellinum. Keypti mér svo einhvern tímann Valstreyju í einhverju flippi.

Ég set nú engan sérstakan byrjunarpunkt á tilfinningatengslin hin síðari. Þau hafa svona myndast með barnabröltinu, Ísak Máni var náttúrulega ekki gamall þegar maður var farinn að drösla honum niður í ÍR heimilið, var eitthvað á leikjanámskeiðum og byrjaði svo í fótboltanum, 5 eða 6 ára. Þá var málið, ólíkt hinum tengslunum, að maður bjó í hverfinu og varð reglulegur gestur í húsakynum félagsins, kynntist vitaskuld öðrum foreldrum, þáverandi framkvæmdarstjóri félagsins þekkti mig með nafni o.s.frv. Varð m.a. svo frægur að taka dómaraprófið í fótbolta hérna um árið einmitt í stól framkvæmdarstjórans. Á vellinum í Breiðholtinu er maður alltaf málkunnugur slatta af fólki.

Ég fór nú í 100 ára afmælið hjá ÍR á sínum tíma en held ég hafi lítið að gera á Hlíðarenda í dag, fylgist bara með þeim úr fjarlægð sem fyrr. Ég á hins vegar enn eftir að kaupa mér ÍR treyju, best að setja það á to-do-listann.

sunnudagur, maí 08, 2011